19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

413. mál, skipulagning björgunarmála

Fyrirspyrjandi (Halldór S. Magnússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svör við fsp. mínum og vil af því tilefni láta í ljós ánægju mína yfir þeim áhuga, sem hann hefur á málinu, og því, að hann skuli hafa rekið á eftir störfum þessarar nefndar. Að öðru leyti ollu svör hans hins vegar talsverðum vonbrigðum, þar sem greinilegt er, að nefndin hefur verið mjög starfslítil. En þess er að vænta, að breyting verði þar á.

Því miður er það svo, að það eru vissir menn hér á landi, sem telja, að ekki sé nein þörf á því að skipuleggja björgunarmál á Íslandi. Sannleikurinn er sá, að við erum svo lánsamir að eiga fjölda björgunarsveita, sem allar eru skipaðar hinum dugmestu mönnum. Þær eru að vísu misjafnlega vel búnar tækjum, og mennirnir eru misjafnlega vel þjálfaðir, en þær hafa það sameiginlegt, að félagar þeirra eru ávallt reiðubúnir að veita alla þá aðstoð, sem þeir megna, hvenær sem er og hvar sem er. Þessar björgunarsveitir þurfa í starfi sínu að hafa samstarf við fjölda annarra aðila, opinbera aðila, svo sem lögreglu, Landhelgisgæslu, Flugmálastjórn, Landssíma og ýmsa aðra, auk fjölda einkaaðila. Ég efast alls ekki um, að flestir þeir aðilar, sem að björgunarmálum vinna, vilja heils hugar stuðla að sem nánustu samstarfi og samvinnu um þau mál. Stöku tilhneigingar hefur þó gætt til þess hjá einstaka mönnum að vilja líta á sitt félag sem sjálfskipaðan forustuaðila í öllu björgunarstarfi. En sem betur fer eru það undantekningar, sem sanna regluna. Þessir aðilar hafa hins vegar oftlega rekið sig á það, að skortur á reglum hefur valdið margvíslegum vandræðum og beinlínis skaðað það starf, sem unnið er. Sem dæmi má nefna, að engar reglur eru til um það, hvaða aðili skuli hafa á hendi yfirstjórn björgunaraðgerða.

Það er vissulega ekki hægt að lá mönnum það, þó að þeir hafi áhuga á því, að þeirra eigin björgunarsveit hafi forgöngu um aðgerðir. Þegar engar reglur eru til, kann svo að fara, að erfitt verði að koma á fullu samstarfi á milli þeirra mörgu aðila, sem að aðgerðunum vinna. Í flestum tilvikum hefur samstarf aðilanna verið með ágætum, en hitt hefur einnig skeð, að samvinna hefur verið lítil eða engin. Oftast hafa slík tilvik stafað af misskilningi eða persónulegum ástæðum einstakra manna. Það skiptir raunar ekki máli, hver ástæðan er, það er jafn slæmt fyrir því.

Ég nefni eitt dæmi um atvik, sem gerst hefur, máli mínu til stuðnings. Maður hefur týnst, og tvö landssamtök björgunarsveita eru beðin að senda lið til leitar. Hvort um sig kallar út fjölda manna úr sveitum sínum. Af hálfu hvors aðilans um sig eru skipaðir leitarstjórar. Þeir koma sér saman um skipulag leitarinnar og skiptingu leitarsvæða og annað, er máli skiptir. Samband milli þeirra er með ágætum, og þeir hafa stöðugt samband sín á milli, meðan á leitinni stendur. Einhverra hluta vegna tekur annar maðurinn við stjórn annars leitarhópsins, meðan á leitinni stendur. Hann fyrirskipar, að leita skuli á sama svæði og hinn leitarhópurinn hafið tekið að sér. Mistök sem þessi ber að fyrirbyggja Rétt er að benda á, að þær björgunarsveitir, sem hér eru starfandi, hafa hver sitt aðsetur. Það er kannske barnalegur metnaður þeirra, en staðreynd engu að síður, að hver þeirra um sig á erfitt með að hugsa sér, að öllum aðgerðum sé stjórnað frá bækistöð einhverrar annarrar sveitar. Þessi vandamál og önnur af viðlíka tagi verða ekki leyst nema fyrir forgöngu opinberra aðila, enda virðist eðlilegast, að þeir hafi forgöngu þar um. Hvað er t.d. eðlilegra en að til sé ein sameiginleg stjórnstöð fyrir hvers konar björgunaraðgerðir? Væri stöð Almannavarna ekki rétti staðurinn? Ég hef undir höndum skipulagskerfi fyrir björgunar- og leitarstarfsemi eða drög að því, sem samíð var fyrir nokkrum árum og lagt fyrir Almannavarnir ríkisins. Það var við því tekið, síðan var því stungið undir stól. og síðan hefur ekki verið á það minnst.

Ég veit satt að segja ekki, hvaða aðili væri eðlilegri en Almannavarnir til að hafa forgöngu um skipulag björgunarmála. Því miður hefur hins vegar ríkt sú skoðun meðal forsvarsmanna þeirra, að slíkt heyri ekki undir verksvið Almannavarna. Sú skoðun hefur verið þar uppi, að hlutverk Almannavarna væri að taka við yfirstjórn aðgerða í stórslysum, án þess þó að talin væri ástæða til að vinna skipulag um það, hvernig að björgunaraðgerðum væri staðið. Það skal viðurkennt, að Almannavarnir unnu mikið starf, eftir að Vestmannaeyjagosið hófst og vissulega ber að þakka þeim, sem það unnu. Ég er hins vegar ekki í nokkrum vafa um það, að margt hefði farið betur, ef til hefði verið áætlun um það, hvernig að slíkum björgunaraðgerðum skyldi standa. En þar sem engin slík áætlun var til. fór óhjákvæmilega svo, að starfið varð að sumu leyti losaralegt fyrstu dagana, en tókst þó betur en unnt var að ætlast til við þær aðstæður, sem þá ríktu. Við getum rétt aðeins leitt hugann að því, hvaða ástand hefði getað skapast í Vestmannaeyjum, þegar gosið hófst, ef Vestmannaeyjaflotinn hefði ekki verið allur í höfn.

Að lokum aðeins þetta: Ég leyfi mér að vona, að nefnd sú, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, taki nú á sig rögg og taki til við að leysa verkefni sín. Eftir því bíður fjöldi manna víðs vegar um landið, — menn, sem eru reiðubúnir til að fórna hverju sem er, hvenær sem er og hvar sem er öðrum til aðstoðar í neyð. Þeir eiga vissulega betra skilið en skilningsleysi.