19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

216. mál, bankaútibú í Ólfsvík eða á Hellissandi

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja fyrir hæstv. viðskrh. fsp. um bankaútibú í Ólafsvík eða á Hellissandi. Fsp. er í tveimur liðum og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hvað veldur því, að ekkert hinna 57 bankaútibúa í landinu er í jafnmiklum framleiðslubyggðum og Ólafsvík eða Hellissandi?

2. Er ráðh. reiðubúinn til að beita sér fyrir og samþykkja, að úr þessu verði bætt?“

Segja má, að nú sé ríkjandi sú stefna, að nauðsynlegt sé að fækka bönkum og öðrum peningastofnunum og einnig að fækka afgreiðslustöðum þeirra, sem séu óhóflega margir í landinu. Í ítarlegu nál. um þessi mál, sem fyrir liggur, kemur jafnframt fram viðurkenning þeirrar nefndar á því, að hugsanlega þurfi þrátt fyrir fækkunina að setja upp einhvers staðar ný útibú, þar sem einhver svæði landsins kunni þrátt fyrir fjölda núverandi útibúa og afgreiðslustaði að hafa ófullkomna þjónustu. Ég tel, að þannig hagi til á utanverðu Snæfellsnesi, þar sem ekkert bankaútibú er fyrir utan Grundarfjörð.

Í Ólafsvík og á Hellissandi er mikill fjöldi fyrirtækja og einstaklinga, sem fást við útgerð og flytja þar mikinn og verðmætan afla að landi. Þar er einnig fjöldi fiskverkunarstöðva af ýmsum gerðum og stærðum, og enn fremur er þar fjöldi þjónustufyrirtækja, bæði sem veita útgerðinni og fiskvinnslunni þjónustu, svo og fyrirtæki, sem veita bæjarfélaginu og borgurum almennt ýmiss konar þjónustu. Yfirleitt er reynslan sú, að forustumenn þessara fyrirtækja verða að fara alla leið til Reykjavíkur til þess að fá viðunandi bankaþjónustu, og þarf ég ekki að lýsa því, hversu mikinn tíma þetta tekur frá þeim og hversu mikill kostnaður er fyrir þá að þurfa að sækja um svo langan veg, svo að segja hvað lítið erindi sem leysa þarf fyrir starfsemi þeirra. Ég tel því mjög nauðsynlegt, að komið verði upp bankaútibúi á þessu svæði og það muni verða til mikils gagns fyrir íbúana og hina miklu framleiðslustarfsemi, sem þar er stunduð, svo og opinbera aðila, sveitarfélögin og einstaklinga.

Ég beini þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra í þeirri von, að með því að vekja athygli á þessu máli geti þingið stuðlað að framgangi þess.