19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

216. mál, bankaútibú í Ólfsvík eða á Hellissandi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 8. landsk. þm., lét í ljós undrun sína yfir því, að ekki skyldi vera bankaútibú í Ólafsvík eða á Hellissandi, í svo miklum framleiðslubyggðum. Það er hverju orði sannara, að þarna er um miklar framleiðslubyggðir að ræða. Á undanförnum árum hafa útibú bankanna risið víða um land, svo að sumum þykir nóg um. Það er alveg ljóst mál, að það er ekki viðeigandi, að viðskiptabankar ríkisins iðki samkeppni innbyrðis og útibú séu stofnuð í fullkomnu skipulagsleysi, þannig að jafnvel séu tvö eða þrjú útibú frá ríkisbönkunum hlið við hlið á svo til sama stað. En það er ekki nema eðlilegt með þeim viðskiptaháttum, sem nú tíðkast, að allur almenningur þurfi að eiga aðgang að þeirri þjónustu, sem viðskiptabanki getur veitt.

Hæstv. viðskrh. svaraði þessari fyrirspurn þannig, að ekki hefðu borist neinar formlegar beiðnir um þetta vestan af Nesi. Það stæði til að skipuleggja þetta allt á nýjan hátt. Óeðlileg togstreita ríkti á milli bankanna. Ég held, að á þessum stöðum á Útnesinu sé ekki neitt um það að villast, að þar er Landsbankinn aðalviðskiptabanki manna, þannig að ef þarna á að koma útibú, er eðlilegt, að það verði frá Landsbankanum.

Hæstv. viðskrh. talar um skipulagsleysi. Ég vek athygli á því, að á undanförnum árum hefur enginn viðskiptabanki mátt stofna útibú án leyfis Seðlabankans, þannig að Seðlabankinn hefur vanrækt sína skyldu, ef þarna brestur mikið á.

En það er eitt, sem ég vil að lokum benda á: Það er ekki einhlítt að stofna bankaútibú. Það verður að kynna sér fyrst hug heimamanna. Á þessum svæðum eru starfandi tveir myndarlegir sparisjóðir, og það er ekki rétt stefna að mínum dómi, að viðskiptabankar ríkisins setji sig niður við hlið myndarlegra sparisjóða á landsbyggðinni til þess að keppa við þá og leggja þá í rústir.