20.02.1974
Efri deild: 59. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

Umræður utan dagskrár

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því við þessar umr., að það eru fleiri svæði á vertíð nú, þar sem fiskimenn eru í vanda, heldur en aðeins fyrir Vestfjörðum. Ég vil vekja athygli á því, að frá Breiðafjarðarhöfnum eru gerðir út núna milli 60 og 70 bátar, sem stunda línu- og netaveiðar út af Breiðafirði. En við setningu reglugerðar um friðunarsvæði innan landhelginnar hér á hv. Alþ. varð það slys að mínu mati, að togurum eru leyfðar veiðar inn að 4 mílum og 6 mílum út af þessu svæði, og þar með eru mestu neta- og línusvæðin út af Breiðafirði og Snæfellsnesi útilokuð fyrir bátana á þessu svæði vegna þess öryggisleysis, sem þeir eiga við að búa fyrir ágangi erlendra og innlendra togara. Ég veit, að það hefur þegar orðið tjón á þessu svæði hjá þeim bátum, sem hafa hætt sér út fyrir 6 mílna línuna, þó að það hafi ekki verið kært. Hins vegar er tjónið enn þá meira fyrir þá að geta ekki notað þetta svæði, sem er besta svæðið til línu- og netaveiða. (Gripið fram í.) Ég segi það ekki á þessum stað, hver var valdur að því, það var ekki kært.

En það, sem er aðalatriðið í þessu máli og ég vil koma hér að, er, að útvegsmenn og hreppsnefndir á þessu svæði sendu til sjútvrn. og Fiskifélagsins ákveðnar óskir um sérstakt friðunarsvæði fyrir neta- og línuveiði á ákveðnu tímabili nú á þessari vertíð. Þetta hefur ekki enn fengist afgreitt, hvernig sem á því stendur.

Ég tel, að það sé alveg öruggt, að besta ráðið til að forðast slíka árekstra, sem hér hafa orðið, og enn fremur til að tryggja fiskimönnum frið með bestu veiðarfærin á þessu svæði, sé, að settar séu ákveðnar reglur um sérstök svæði, sem njóti um ákveðinn tíma friðunar og eftirlits, til þess að það fólk, sem byggir alla sína afkomu á sjávarútvegi, fái að stunda þessar veiðar í friði. Þess vegna mælist ég til þess, eins og raunar kom fram hjá hæstv. ráðh., að það verði teknar upp alvarlegar viðræður milli rn. um að reyna að finna lausn á þessu máli nú þegar, þar sem nú stendur yfir hávertíð og allir mæna á það að geta dregið afla á land.