20.02.1974
Efri deild: 59. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2289 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

Umræður utan dagskrár

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða mörgum orðum að þessu, en ég vil aðeins undirstrika orð beggja hv. þm. Vestf. um, að hér er um alvarlegan atburð að ræða, sem verður, — eins og hæstv. dómsmrh. gaf í skyn og ég veit, að hann stendur við, — að koma í veg fyrir, eftir því sem nokkur leið er, að endurtaki sig. Það er meginatriðið, sem ég vildi undirstrika hér. Það er kvöð beggja aðila að lýsa svæði sitt með ljósbaujum og helga sér þannig fullkominn rétt. Verður hann þá ekki vefengdur, og eiga þeir þá fulla bótakröfu á hendur þeim, er tjóni veldur. En sé svo, eins og kemur fram í skýrslu breskra togara, að þeir hafi verið 36 tímum áður á þessu veiðisvæði, þá voru þeir skyldaðir til þess að draga á milli svokallaðra ljósbauja. Hafi þeir ekki gert það, eru þeir réttlausir. Þetta vildi ég undirstrika.

Ég talaði vestur, þegar ég heyrði um þennan atburð, og mér var tjáð, að svo undarlega hefði brugðið við, eftir að línusvæðið hafði verið tilkynnt, þá hefði ekki verið annað hægt að sjá en stefna hefði verið tekin á svæðið. Það er sá alvarlegi atburður, sem við verðum að mótmæla mjög eindregið. Þetta er sagt af íslenskum skipstjórum, og ég vænti þess, að þeir muni geta staðfest þetta sjónarmið sitt fyrir rétti. Það verður að gera breskum yfirvöldum það fullkomlega ljóst, að á slíku atferli verður ekki tekið með neinum silkihönskum. Eins og 1. þm. Vesturl. drap á hér áðan, eru í hættu stór svæði hjá þeim og einnig síðar á vertíðinni undan Reykjanesi. Hafa árekstrar átt sér stað þar undanfarin ár, og við óttumst sumir hverjir, að þeir muni endurtaka sig á komandi vertíð. Það verður að leggja áherslu á það, bæði fyrir Íslendingum og útlendingum, að það er ekki verjandi annað en hafa veiðarfæri sín löglega merkt og veiðisvæði.

Ég vil harma þennan atburð sannarlega. En ég vil einnig, að þegar í stað sé breskum yfirvöldum tilkynnt um það, að við litum mjög alvarlega á slíka árekstra og við lítum í raun og veru miklu alvarlegar á það að Bretar fari yfir línuna heldur en þó að íslenskir fiskimenn geri það. Ég geri það a.m.k. persónulega. Við vitum um togstreitu innbyrðis hjá okkar fiskimönnum, og hún er miklu skiljanlegri en það að Bretar sýni hér yfirtroðslu. Frá mínu sjónarmiði er það.

Hæstv. dómsmrh. talaði um, að varðskipin hafi mikið að gera. Það er auðvitað hlutverk þeirra að vera á varðbergi, eins og frekast er unnt. En sumum finnst að þau liggi dálítið hér í höfn, og væri fróðlegt að heyra um úthaldsdaga hvers skips fyrir sig fram að miðjum þessum mánuði, frá því að samkomulagið við Breta var gert. Það má birta það eftir á. Það á ekki að birta áætlun fyrir fram, en það má vel birta hana eftir á. Sögusagnir eru á kreiki um, að það sé óvenjulega lítið úthald núna. Ég legg engan dóm á það, en það er langbest að eyða sögusögnum með staðreyndum og leggja þá fyrir alla alþm. skýrslu um það. Þá sjáum við, hvað þau hafa verið upptekin.

Sem sagt, ég vil undirstrika orð Vestfirðinganna um, að það verði tekið á þessum málum með festu, mennirnir mæti fyrir dóm, við göngum frá okkar skýrslum og tjónið verði bætt.