21.02.1974
Neðri deild: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

152. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Við 1. umr, þessa máls gerðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar grein fyrir afstöðu þingflokka hennar í hv. Nd. til frv. þessa og lýstu yfir stuðningi sínum við þann hluta frv., sem fjallar um tollalækkanir, lýstu hins vegar andstöðu sinni við það bráðabirgðaákvæði, sem stjórnarmeirihl. fékk samþykktan og settan inn í frv. í Ed., þ.e.a.s. um heimild til hækkunar á söluskatti um 1% til að mæta því tekjutapi, sem ríkissjóður yrði fyrir við samþykkt þeirrar tollalækkunar, sem frv. gerir ráð fyrir. Við gerðum grein fyrir sjónarmiðum Sjálfstfl. og Alþfl. í sambandi við tollalækkunina, röktum sögu þess máls og hvernig að því máli hefði verið staðið af þessum tveimur flokkum og þeir mundu fyrir sitt leyti gera það, sem í þeirra valdi stæði, til þess að hægt yrði að standa við þá samninga, sem gerðir voru við Fríverslunarbandalag Evrópu við inngöngu Íslands í það bandalag, og við viðskiptasamning við Efnahagsbandalag Evrópu. Þá lýstum við yfir stuðningi okkar við lækkun tolla á bráefnum og vélum íslensks iðnaðar og lækkun á öðrum tollum, þar sem þess væri þörf af viðskiptaástæðum.

Andstaða okkar við bráðabirgðaákvæðið, sem stjórnarflokkarnir fengu samþ. í Ed., er í fyrsta lagi vegna þess, að hér er um algerlega óeðlilega lagasetningu að ræða. Sérstök lög gilda um söluskatt og eðlilegt væri, að sérstakt frv. væri flutt um hækkun söluskatts, en ekki að búinn yrði til úr tollskrárfrv. bandormur, sem blandaði saman tollum og söluskatti. Þeim mun frekar, þar sem nú eru bráðum liðnir tveir mánuðir frá áramótum, hefði það eðlilega átt að gerast, að við þessa umr. væri flutt af hálfu ríkisstj. brtt. við þetta frv., eins og það nú liggur fyrir, um niðurfellingu bráðabirgðaákvæðisins, og flutt yrði af hálfu stjórnarinnar, ef ástæða þætti til, breyting á l. um söluskatt. Þetta hefur ekki verið gert.

Hitt atriðið, sem var forsenda andstöðu okkar við þetta ákvæði, er, að með bráðabirgðaákvæðinu hyggst ríkisstj. afla sér tekna töluvert mikið umfram þá tollalækkun, sem frv. gerir ráð fyrir. Í fjárl. fyrir 1974 er þegar búið að gera ráð fyrir um það bil 200 millj. kr. tekjuöflun til ríkissjóðs vegna þessarar tollalækkunar. 1% söluskattur mun vera um það bil 650 millj. á ársgrundvelli í minnsta lagi, eins og dæmið var, þegar þetta frv. var flutt. En að sjálfsögðu má reikna með því, að mun meiri tekjur verði á árinu 1974 heldur en reiknað var með, þegar söluskattsstigið var reiknað út á s.l. hausti. Einnig má gera ráð fyrir miklu meiri tolltekjum en fjárl. gera ráð fyrir, þannig að sú tollalækkun, sem er stefnt að með þessu frv., mun sennilega ekki vega stórt fyrir ríkissjóð, ef gert er ráð fyrir þeim 200 millj., sem í fjárlagafrv. eru nú, og þeim tekjuauka, sem má gera ráð fyrir vegna aukins innflutnings á árinu 1974.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið. Við gerðum grein fyrir því, eins og ég sagði áðan, við 1. umr., auk mín hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, og gefum út, minni hl. fjh.- og viðskn., sameiginlegt nál. á þskj. 317, þar sem við í samræmi við það, sem kom fram við 1. umr., lýsum yfir stuðningi okkar við þær tollalækkanir, sem frv. gerir ráð fyrir, en andstöðu við það bráðabirgðaákvæði, sem sett var inn í frv. í Ed.

Hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður fjh.- og viðskn., gerði í ræðu sinni grein fyrir brtt., sem hann flytur og ræddar hafa verið í n. og nm. standa að. Þar er um að ræða samræmingar- og leiðréttingartill. til samræmis við það meginsjónarmið, sem frv. er byggt á. Ég held, að það hafi enn komið erindi til n., og ég vænti þess, að þau verði skoðuð á milli 2. og 3. umr.

Ég hefði haldið, að réttast væri að fresta þessari umr. Hér er hæstv. fjmrh. ekki til staðar, fjarverandi af fundinum. Eðlilegt hefði verið, að hann hefði getað gert grein fyrir breyttum sjónarmiðum, frá því að þetta frv. var lagt fyrir, svo og því, hvernig við var brugðist af hálfu ríkisstj., en í brtt. þeim, sem formaður fjh: og viðskn. flytur, hefur verið tekið upp, að í frv. verði heimild til rn. að endurgreiða gjöld af hráefnum og vélum til iðnaðar, sem tollafgreidd hafa verið á tímabilinu frá 1. jan. til gildistöku þessara laga, þannig að sú leið, sem ríkisstj. fór til að koma fram tollalækkununum, verði samþ. af þinginu. Ég tel eðlilegt og rétt, að umr. verði frestað, þannig að gefist tækifæri á næstu fundum, eftir því sem ástæða væri til. að koma að brtt. Ekki var óeðlilegt, að fyrir málinu væri talað í dag, enda þótt hæstv. fjmrh. væri fjarstaddur. Ég hefði þó talið eðlilegt, að hann gerði d. grein fyrir, með hvaða hætti þessi mál hefðu verið afgreidd á tímabilinu frá því um áramót og til dagsins í dag.

Minni hl. n., eins og fram er komið, leggur til, að samþ. verði ákvæðin um lækkun tolla, en mun greiða atkv. gegn bráðabirgðaákvæðinu, sem stjórnarflokkarnir fengu samþ. í hv. Ed.