21.02.1974
Neðri deild: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

152. mál, tollskrá o.fl.

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Þá hefur hæstv. ríkisstj. mannað sig upp í það að halda áfram með tollskrárfrv., sem hér er nú til umr. Mál þetta var, eins og menn rekur minni til. tekið út af dagskrá, þegar 2. umr. skyldi hefjast á síðustu dögum þingsins fyrir jólaleyfið. Þá heyktist ríkisstj. á því að reyna að koma frv. í gegn, þar sem ljóst var, að ekki var meiri hl. í Nd. fyrir frv., eins og það kom frá Ed., en þar hafði verið bætt inn ákvæði til bráðabirgða um heimild til að leggja 1% gjald á söluskattsstofn. En nú á sem sagt að reyna aftur.

Það er lærdómsríkt að sjá, hvernig sú hugmynd hefur þróast hjá hæstv. ríkisstj. að tengja saman svo óskyld mál sem tollalagabreytingar og hækkun söluskatts. Fyrst er söluskattshækkun sett inn í grg. með frv., þar sem segir beinum orðum, að lita verði á samþykkt þessa frv. sem skuldbindingu um hækkun söluskatts, sem nemi a.m.k. 1 söluskattsstigi. Við meðferð málsins í hv. Ed. þótti stjórninni ekki nóg að gert, og til þess að taka af öll tvímæli var söluskattshækkunin sett inn í frv. í ákvæði til bráðabirgða.

Þetta strandaði sem sagt fyrir jólin, en nú á að reyna aftur.

Það hefur verið bent á það í umr. hér í þinginu oftar en einu sinni, að með því að tengja saman í einu frv. óskyld mál virði ríkisstj. ekki leikreglur þingræðisins. Hv. 12. þm. Reykv. benti á það hér fyrir nokkru, að þetta hefði gerst a.m.k. fjórum sinnum í tíð núv. ríkisstj. Það sakar ekki að nefna það einu sinni enn. Þetta var gert, þegar ákvæði um sérstakan launaskatt voru sett í lög um almannatryggingar. Þetta var gert, þegar 7 millj. dollara lántökuheimild vegna hafnarframkvæmda var laumað inn í frv. um almenna lántökuheimild. Þetta var gert fyrir nokkru, þegar ferjuskipin voru hér til umr., laumað inn í frv. um ábyrgð vegna kaupa á fiskiskipum. Og svo er þetta mál, sem hér er til umr. Þá beindi hv. 12. þm. Reykv. því til hæstv. forseta, að hann beitti sér fyrir því, að svona lagað gerðist ekki. Sá hæstv. forseti er að vísu ekki hér núna, en sjálfsagt er þýðingarlaust að fara fram á slíkt.

Í grg. þessa frv. segir, að tekjutap ríkissjóðs vegna tollalagabreytinganna sé áætlað 615 millj. kr. Ég verð að segja, að þessi áætlun er ekki sannfærandi, og hún er ósönnuð. En þótt við segðum, að tekjutapið væri 615 millj., þá kemur það líka á daginn, að ríkisstj. sér ekki aðra leið en nýja skatta á móti. Hún sér ekki leið sparnaðar eða aukinnar ráðdeildar, hún sér ekki skynsamlegri efnahagsstefnu, það eru skattar, sem eru hennar ær og kýr. Og það á vafalaust eftir að koma enn betur í ljós. Í sambandi við þá samninga, sem nú standa yfir, er gert ráð fyrir ýmsum skattalagabreytingum. Það er gert ráð fyrir lækkun beinna skatta, sem nemi um 2.5 milljörðum, en á móti á svo söluskattur að hækka, að því er áætlað er um 3.5 milljarða. Eflaust verða þær tekjur, sem ríkissjóður fær, meiri vegna sífelldra verðhækkana, sem eiga sér stað og gefa enn meira í söluskatti.

Ég læt í ljós efa um, að tekjutap ríkissjóðs vegna tollalagabreytinganna verði eins mikið og af er látið. Ég byggi þá skoðun á hinum miklu verðhækkunum, sem nú eiga sér stað á ýmsum vörutegundum, sem við kaupum erlendis frá. Væntanlega ber ríkisstj, ekki á móti því, að slíkar verðhækkanir eigi sér stað. Ég veit ekki betur en hæstv. fjmrh. og reyndar fleiri hafi sífellt verið að reyna að sanna það, að verðbólgan hér innanlands sé að mestu leyti innflutt, og þeir hæstv. ráðherrar eru líka að basla við að finna einhverjar leiðir til að berjast gegn verðbólgunni. En hvers vegna er þá ekki tekið tillit til þessa í þessu frv? Það er einfaldlega vegna þess, að ríkisstj. ætlar beinlínis að notfæra sér þessar miklu verðhækkanir erlendis til að hafa af þeim beinar tekjur í ríkissjóð. Þetta er umhyggjan fyrir því að halda verðlagi í skefjum hér innanlands. Svona vinnubrögð eru óþolandi, og ber að mótmæla þeim með öllum tiltækum ráðum. Þau ráð, sem Alþingi hefur yfir að ráða, eru þau einu, sem duga, þ.e. að gera breytingar á þessu frv.

Ég hef leyft mér ásamt 2. landsk. þm. að flytja eina brtt. við þetta frv. Brtt. er á þskj. 325 og er við liðinn 27 10 29, annað bensín. Till. er á þá leið, að í stað 50% tolls eins og er og ætlunin er að haldist, komi 264 kr. pr. 100 kg. Ég vil með örfáum orðum skýra till. og tilganginn með flutningi hennar.

Tilgangurinn er í fyrsta lagi sá að draga úr áhrifum hinna miklu verðhækkana, sem orðið hafa erlendis á bensíni, og fyrirsjáanlegra hækkana, með því að binda tollinn við ákveðna upphæð miðað við þunga.

Í öðru lagi er tilgangurinn sá að koma tollinum niður hlutfallslega, segjum í 25% á einhverju árabili, en telja verður, að 50% tollur af bensíni sé allt of hár. Till. um að miða tollinn við kr. 2.64 pr. kg eða 264 kr. pr. 100 kg þýðir raunverulega óbreytan toll frá því, sem var, þegar bensínlítrinn kostaði 23 kr. á s.l. hausti.

Það er rétt, að ég skýri aðeins frá því, hvernig sundurliðun verðsins var þá. Þá var cif.- verðið kr. 3.89 pr. litra, tollur 50% kr. 1.95, sem jafngildir kr. 2.64 pr. kg., þar sem eðlisþyngdin er 0.74. Í þriðja lagi var ýmis kostnaður kr. 0.43, dreifikostnaður milli landshluta kr. 3.86, söluskattur kr. 2.60, vegasjóðsgjald kr. 9.87 og verðjöfnunarsjóður kr. 0.40. Þetta gerir kr. 23.00. Þarna er tollurinn sem sagt kr. 1.95. Hann er kominn upp í kr. 2.80, þegar verðið pr. lítra er komið upp í 26.00.

Ríkisskattar á bensíni eru samkv. þessu kr. 14.42 eða 64% miðað við kr. 23.00 verðið á lítra, en eru kr. 16.13 miðað við kr. 26.00. Af þessu er reiknaður söluskattur, af hreinni sérskattheimtu, þar sem er vegarsjóðsgjaldið, og verður það að teljast í hæsta máta undarleg ráðstöfun, þar sem söluskattur af vegasjóðsgjaldinu einu er kr. 1.28 pr. lítra, en af veggjaldi dísilbíla er ekki reiknaður söluskattur, þótt um samsvarandi skatt sé að ræða. Það væri vissulega eðlilegt að fella slíkan söluskatt niður, eða ef menn geta ekki fallist á það, þá verði hann lagður í vegasjóð.

Ef 50% tolli verður haldið og bensínverð tvöfaldast, verður tollinnheimta ríkisins tölulega jafnhá innkaupsverði að viðbættum flutningskostnaði, eins og innkaupsverðið var í októbermánuði s.l. Ég sé þá ekki betur en ríkisstj. sé að setja sig á bekk með þeim ríkjum, sem ráða olíusölu í dag og gera sér vandræði annarra að féþúfu.

Skattlagning á umferðina er þegar komin fram úr öllu velsæmi. Sú staðreynd ein ætti að vera nægileg ástæða fyrir lækkun bensíntollsins. En það á enn að bæta á Brúnku. Ef söluskatturinn hækkar, við skulum nú segja bara í 15%, þýðir það eitt nálægt 50 millj. kr. hækkun á ári af bensíninu einu, og að sjálfsögðu verður haldið áfram að leggja söluskatt á sjálft vegasjóðsgjaldið. Þetta væri sök sér, ef hækkun bensínverðs færi til vegaframkvæmda, en það er ekki ætlunin.

Það mætti spyrja, eins og reyndar hefur verið spurt oft áður, hvað sé orðið af áhuga hæstv. núv. fjmrh. á því þarfa máli, að tekjum ríkissjóðs af umferðinni verði varið til vegamála. Innan við 50% af þessum tekjum ríkisins er varið til vegaframkvæmda. Hér verður að koma til breyting. Sú till., sem ég hef hér lýst, er liður í þeirri viðleitni að breyta þessu hlutfalli og jafnframt að draga úr áhrifum þeirra miklu hækkana, sem orðið hafa og fyrirsjáanlegar eru á bensíni.

Ég sagði áðan, að skattlagning á umferðina væri nú þegar komin fram úr öllu velsæmi og því full ástæða til að nema staðar. Þess er þó vart að vænta, að það sé ætlun hæstv. ríkisstj. Fyrir utan áframhaldandi hækkanir á bensíni á næstunni, sem valda því að lítrinn fer í kr. 32.00 a.m.k. á næstunni, með óbreyttri stefnu að því er tollinn varðar, þá á enn sjálfsagt eftir að hækka söluskattinn, og áreiðanlega mun stjórnin finna einhver fleiri ráð til að skattpína borgarana. Aukna skattlagningu á umferðina fáum við vafalaust að sjá, þegar vegáætlunin verður lögð hér fram innan tíðar. Er nú ekki mál að linni, þegar tekjuaukning ríkissjóðs — ekki vegasjóðs — er áætluð minnst 300 millj. kr. vegna hækkaðs bensínverðs.