25.02.1974
Efri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

233. mál, ríkisreikningurinn 1971

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ríkisreikningurinn fyrir árið 1971 var lagður fram á síðasta Alþ., en ekki útræddur á því þingi. Hann er nú lagður fram í annað sinn og vonandi til afgreiðslu hér á hv. Alþ. Eins og venja er, þegar ríkisreikningur er lagður fram til fullnaðarafgreiðslu og úrskurðar Alþ., hafa yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins yfirfarið reikninginn og gert sínar aths. og fengið svör við þeim.

Aths. yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins fyrir árið 1971 eru tiltölulega litlar og ekki veigamiklar heldur, og hafa þeir fengið svör við þeim, sem skýra málín og þeir telja fullnægjandi. Eru svör þeirra við aths. birtar hér á bls. 369–372.

Vil ég fyrst vekja athygli á því, að það kemur fram í aths. yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins, sem hefur verið að gerast á síðustu árum, að innheimta innheimtumanna ríkissjóðs hefur farið hlutfallslega batnandi ár frá ári, var betri árið 1971 en hún hafði verið áður, og áfram hefur haldið í þessa átt og er mjög vel, að svo er. Þetta meta yfirskoðunarmenn ríkisins réttilega og benda á, að það eru sárafáir af innheimtumönnum ríkissjóðs, sem skulda nokkuð sem heitir af óinnheimtu, eða frá 38% niður í rúm 10%, þegar þeir taka 5 þá, sem mest skulda, og er það ekki mikil fjárhæð, miðað við þær innheimtur, sem þar fara fram.

Þau atriði, sem yfirskoðunarmenn gera einna mestar aths. við, eru breytingar þær, sem gerðar voru á innheimtudeild Ríkisútvarpsins. Það hafði komið fram í aths. við ríkisreikninginn fyrir árið 1970 aths. frá þáv. yfirskoðunarmönnum um, hve kostnaðarsöm breyting sú varð, sem gerð var á kaffistofu sjónvarpsins, nær 20 millj. kr., sem yfirskoðunarmönnum fannst of fjárfrek framkvæmd, án þess að hefði verið haft samráð við viðkomandi rn. eða fjárveitingavaldið á einn eða annan hátt. Á árinu 1971 hafði svo verið gerð sérstök breyting á innheimtudeild Ríkisútvarpsins, og gera yfirskoðunarmenn aths. við þetta, sem telja verður af svipuðum toga spunna og fyrri aths. um, að Ríkisútvarpið hafi ekki samráð við sitt rn. eða fjárveitingavaldið um svo stráfelldar framkvæmdir sem þarna eiga sér stað, þó að í breytingarformi séu.

Þá er og fundið að því, að lögfræðingur hafi verið ráðinn til innheimtu hjá Ríkisútvarpinu í 24. launaflokki opinberra starfsmanna, en hann hélt eftir sem áður áfram að reka eigin lögfræðiskrifstofu, þó að hann gegndi þessu starfi hjá útvarpinu og væri í svo háum launaflokki sem raun bar vitni um. Mun starfsemin að einhverju leyti hafa verið rekin innan þeirrar stofnunar Ríkisútvarpsins.

Enn fremur kemur bað fram í aths. yfirskoðunarmanna, að enda þótt þeir telji, að formlega hafi verið að staðið um samþykktir á skiptum á sendiherrabústaðnum í Kaupmannahöfn, þar sem sá gamli var seldur og nýr keyptur, og fjvn. Alþingis fjallaði um málið, eins og til stóð, þá má heyra á aths. þeirra, að þeir telja samt, að um hæpna ráðstöfun hafi verið að ræða. Hér var um kaup á stóru húsi að ræða og verðmætri lóð, sem því fylgir. Hefur komið fyrir áður, að sendiherrabústaður hefur verið keyptur, sem hefur verið óþarflega íborinn, og sérstaklega langt umfram þennan, og orkaði sú ráðstöfun tvímælis, en var hins vegar réttlætt með því, hve vel hafði tekist að selja þann, sem fyrir var, og ekki orkar það tvímælis, að þennan mundi vera hægt að selja með verulegum hagnaði.

Það kemur fram í svörum yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins, að þeim hefur verið svarað öllum atriðum, sem um var spurt, og hafi skýrt það, hvað þeir telji, að þeir hafi þar frekari aths. við að gera. Eru það fyrst og fremst þessi atriði, sem að útvarpinu snúa, sem ég hef þegar gert grein fyrir.

Eins og kemur fram og ég mun gera grein fyrir, þegar frv. til fjáraukalaga verður rætt, er um allmiklu hærri tölur að ræða á útgjaldahlið og teknahlið þessa ríkisreiknings en ráð var fyrir gert, enda þarf engan að undra það, því að þegar fjárlög fyrir þetta ár voru afgreidd, var verið að gera kjarasamninga fyrir ríkisstarfsmenn, sem verkuðu aftur fyrir sig, og voru ekki færð inn á sérstaka útgjaldaliði fjárlaga það ár, þau útgjöld, sem leiddi af þessum kjarasamningum, og í fjárlagaafgreiðslunni í heild var gert ráð fyrir lægri tölu þar en raun varð á. Enn fremur var eftir afgreiðslu fjárl. afgreitt hér á hv. Alþ. frv. til hækkunar á bensínskatti og aukin útgjöld til vegamála. Og svo var síðar á árinu ákveðið af ríkisstj. að flýta gildistöku almannatryggingalaga, sem afgr. voru þá á þingi, en ekki hafði verið gert ráð fyrir, að tækju gildi fyrr en um áramót. Er því hér um nokkurn mismun að ræða, sem mun verða skýrður, þegar fjáraukalögin verða til umræðu í hv. Sþ.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara frekar út í skýringar á ríkisreikningnum, þar sem hann skýrir sig sjálfur með þeim athugasemdum, sem honum fylgja. Ég legg til, að honum verði vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn. og treysti því, að hv. nefnd láti hann hafa eðlilegan hraða í afgreiðslu, svo að hv. Alþingi afgreiði hann að þessu sinni.