25.02.1974
Efri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

229. mál, vegalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. Ég fagna hverri tilraun, sem gerð er til að létta hlut sveitarfélaganna í þessu þýðingarmikla verkefni þeirra,— verkefni, sem þau eru nú farin að telja eitt af sínum höfuðverkefnum og kannske allra mest aðkallandi.

Ég flutti ásamt hv. þm. Jónasi Árnasyni fyrr í vetur till. til þál. um aukinn stuðning við varanlega gatnagerð í þéttbýli og um leið rykbindingu þjóðvega. Sú till. fór mjög í sömu átt og þetta frv., sem hér liggur fyrir, þó að þar hafi verið aðeins bent á nokkrar þær leiðir, sem fara mætti til að fjármagna þessar framkvæmdir sveitarfélaganna á annan og betri hátt en þann, sem gert hefur verið. Meðmæli með þessari þáltill. okkar hafa verið mjög eindregin frá sveitarstjórnum og sveitarstjórnasamtökum, og er varla hægt að reikna með öðru en að sú till. fái samþykkt, svo jákvæðar undirtektir þm. sem hún fékk einnig, þegar hún var hér til umr.

Ég vil aðeins minna á það, að í þessari till. var talað um að leita eftirtalinna leiða til að ná því marki, að sveitarfélögin gætu gert verulegt átak á þessu sviði við 5 ára framkvæmdaáætlun: Að ríkið útvegi sveitarfélögunum sérstakt lánsfé til framkvæmdanna, þ.e.a.s. á framkvæmdaáætlun ríkisins skuli hvert ár vera ákveðin upphæð til varanlegrar gatnagerðar í þéttbýli, sem lána skuli sveitarfélögunum með hagstæðum kjörum. Í öðru lagi, að hlutur sveitarfélaga af bensínskatti verði aukinn, svo að hið svokallaða þéttbýlisvegafé tvöfaldist, en að því er einmitt sérstaklega vikið í 1. gr. þessa frv., þar sem lagt er til, að árlegt framlag skuli vera 20% af heildartekjum vegamála hvert ár, í stað 121/2 % nú. Einnig var þar kveðið svo að orði, að endurskoðaðar verði reglur um úthlutun fjárins og fólksfjöldatakmörk þeirra sveitarfélaga, sem fjárins njóta. Þar er átt við það, sem einnig er vikið að í þessu frv., að fjárhæð til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum skuli veita til allra þeirra staða, sem hafa 200 íbúa eða fleiri. Einnig var í þessari till. vikið sérstaklega að stóraukinni hlutdeild í rykbindingu þeirra þjóðvega, sem liggja beinlínis um kaupstaði og kauptún, og sérstaklega með tilliti til umferðarþungans þar. Einnig var vikið að því að rykbinda þjóðvegi, þar sem þeir liggja um bæjarsvæði bænda og ræktunarlönd.

Ég vík aðeins að þessu hér, ekki til þess að vekja sérstaka athygli á þessari till., heldur aðeins vegna þess, að í framhaldi af þessum tillöguflutningi og reyndar af fleiri ástæðum tók byggðanefnd þetta mál sérstaklega sem eitt aðalhagsmunamál sveitarfélaga úti um landsbyggðina. Tók hún þetta mál alveg sérstaklega fyrir á fundum sínum í vetur. Hún hefur rætt sérstaklega við vegamálastjóra um þessi mál, og hún hefur einnig rætt sérstaklega við samgrh. um þessi mál og fengið mjög jákvæð viðbrögð við sínum till., sem hljóta að koma fram.

Við erum að vona að vísu, að eitthvað af þessu komi fram nú þegar í stjfrv. til breyt. á vegalögum. T.d. hef ég mikla von um það, að íbúafjöldinn verði ekki lengur miðaður við 300, heldur 200 íbúa, að það verði lagt til í breyt. á vegalögunum frá ríkisstj. En ég geri mér einnig von um árangur í ýmsu öðru. Að öðru leyti hefur n. haft í undirbúningi till. eða frv.-flutning um þær úrbætur, sem m.a. ganga í þá átt, sem hér er ráð fyrir gert. En við vildum aðeins sjá, hverju hægt væri að koma til leiðar nú þegar og hvað ríkisstj. teldi sig þegar tilbúna til að gera með breyt. á vegalögunum, áður en við lögðum í þennan tillöguflutning eða frv. flutning okkar.

Ég styð eindregið þær gr., sem eru í þessu frv., og get reyndar bætt því við, að ég tel mjög sanngjarnt og eðlilegt og sjálfsagt, að það frv., sem hv. flm. mælti hér fyrir áðan, um gatnagerðargjöldin, nái einnig fram að ganga. Það er einnig mjög jákvætt skref, því að sannarlega hafa sveitarfélögin verið allt of hikandi í því að koma á hjá sér gatnagerðargjöldum. Það stafar einfaldlega af því hins vegar, hvað ástand gatnanna hefur verið bágborið í þessum sveitarfélögum, að sveitarstjórnir hafa ekki treyst sér til annars en gera fyrst verulegt átak, áður en þær gætu farið að innheimta þessi gjöld.

Hvort tveggja er þetta sem sagt til bóta, og ég vona, að það nái fram að ganga, þó að ég fyrst og fremst voni, að ríkisstj. sjái sér fært að koma til móts við margítrekaðar óskir sveitarfélaganna og komi því nú þegar í lög eða beri fram frv. um þær breytingar á vegalögum, sem teljast sjálfsagðar og eðlilegar, til þess að óskum sveitarfélaganna verði mætt.