25.02.1974
Neðri deild: 66. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hleyp hér í skarðið fyrir hæstv. viðskrh., sem varð að hverfa af fundi, og skal þess vegna fylgja þessu frv. úr hlaði með aðeins örfáum orðum, enda ætti ekki að vera þörf á því að hafa mörg orð um það, það skýrir sig sjálft. En þetta er frv. þess efnis, að lagt verði á sérstakt gjald til þess að draga úr áhrifum olíuverðhækkana.

Það þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum um það, hverjar afleiðingar olíuverðhækkanirnar hafa haft, m.a. á hækkun hitunarkostnaðar í íbúðarhúsum, og hvert ójafnvægi hefur af því skapast á milli annars vegar þeirra, sem verða að hita upp hús sín með olíu, og hins vegar þeirra, sem búa við það að njóta jarðvarma til hitunar í húsum sínum. Um þetta hefur verið rætt mikið að undanförnu, og ég hygg, að öllum sé ljóst, að það er bæði sanngjarnt og nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að jafna þennan aðstöðumun nokkuð og draga úr þeim verðhækkunaráhrifum, sem hafa orðið af völdum olíuverðhækkunarinnar á hitakostnað. Eins og nánar er gerð grein fyrir í stuttri grg. með þessu frv. og fram kemur, er það svo, að það hefur verið áætlað, að kyndingarkostnaður með olíu hafi verið um 50% meiri á meðalíbúð á árinu 1972 heldur en hitaveitukostnaður. Þetta hefur hins vegar vegna þeirra verðbreytinga, sem hafa átt sér stað, farið þannig, að nú keyrir um þverbak, þar sem talið er, að nú stefni í það, að olíukyndingin verði þrefalt dýrari en hitaveitukostnaðurinn.

Efni þessa frv. er að afla nokkurra tekna, sem hægt sé að nota til að jafna nokkuð þennan aðstöðumun. Er gert ráð fyrir því, að á tímabilinu frá 1. mars 1974 til 28. febr. 1975 verði lagt 1% gjald á söluskattsstofn allra sömu aðila og lög nr. 10 1960, um söluskatt, taka til. og gilda ákvæði þeirra og reglugerða settra samkv. þeim að fullu um álagningu og innheimtu þess gjalds svo og um aðra framkvæmd. Gjald þetta kemur í stað hálfs viðlagagjalds, sbr. 1. lið 1. mgr. 8. gr. l. nr. 4 1973, um neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey, og skal á sama hátt ekki valda hækkun kaupgreiðsluvísitölu. Af þessu leiðir, að það er nokkurt samband á milli einmitt þessa frv. og þess frv., sem við vorum að ræða hér áðan.

Mér skilst, að um þetta hafi einnig verið fjallað af þm., og mér skilst, að náðst hafi samkomulag um það að hafa þennan háttinn á varðandi fjáröflunina. En í þessu frv. er aðeins um það að ræða, að það er heimild til fjáröflunarinnar. Hins vegar er skýrt tekið fram, að innan skamms verði lagt fram frv. um ráðstöfun á því gjaldi, sem þetta frv. fjallar um, þannig að hér er aðeins um heimild til gjaldtökunnar að tefla. Og vegna tímatakmarkana, sem í frv. eru, eiga sams konar ástæður við og í því frv., sem rætt var hér áðan, að miðað er við, að gjaldheimtan hefjist 1. mars, og þess vegna sama nauðsyn á því, að þetta frv. hljóti skjóta afgreiðslu, jafnskjóta afgreiðslu og hitt frv. Vona ég, að menn geti fallist á það, ef þeir eru á annað borð sammála um að velja þessa leið til að reyna að greiða fram úr þessu tvímælalaust stórfellda vandamáll, sem hér er á ferðinni.

Þess vegna, herra forseti, skal ég ekki hafa fleiri orð um þetta frv., heldur mælast til þess, að því sé að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn., og mælast til þess, að hún hafi sama hátt á og við hitt frv., kalli til sin samsvarandi n, úr Ed. og gefi henni kost á að fylgjast með málinu, þannig að það sé hægt að greiða fyrir framgangi þess.