25.02.1974
Neðri deild: 66. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Það mál. sem hér um fjallar, lýtur að því að leggja sérstakt gjald á þjóðina til þess að draga úr áhrifum olíuverðhækkana. Eins og kom fram hjá hæstv. forsrh., var þetta rætt í þeirri sömu n, sem fjallaði um Viðlagasjóðsgjaldið. En ég vil, að það komi fram, að ég hafði nokkurn fyrirvara á varðandi þetta atriði, þ.e.a.s. um, að annað Viðlagasjóðsstigið af söluskatti skyldi fara til jöfnunar á olíukyndingu. Mig langar til að koma með nokkrar hugleiðingar í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi er ég alveg sammála hæstv. forsrh. um, að það er sanngjarnt og jafnvel nauðsynlegt að mæta þeim vanda hjá þeim aðilum, sem kynda hús sín með olíu, vegna verðhækkana. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Því er þó ekki að leyna, að þarna blandast inn í það, að ríkissjóður vill ekki láta af hendi fyrir nokkurn mun þær tekjur, sem aflast með Viðlagasjóðsgjaldinu. Þegar 2% Viðlagasjóðsstigin voru samþ. í fyrra, hafði ég óljóst hugboð um það, að ríkissjóður mundi aldrei láta greipar sínar af þessum tveimur söluskattsstigum, það yrði þá einhver annar málatilbúnaður hafður uppi, og þetta hugboð mitt hefur reynst rétt. Nú þykir nægja 1% söluskattsstig í Viðlagasjóð, og hitt fer þá í olíujöfnunarsjóð eða til olíujöfnunar.

Ég vil segja eins og er, að ég lít ekki á þennan þátt málsins í neinni samlíkingu við þann þjóðarvoða, sem blasti við, þegar eldgosið var í Vestmannaeyjum. Þá var þetta eðlilegt og sjálfsagt mál. eins og allir hv. þm. vita. En að halda áfram með söluskattinn á einföldum verðjöfnunargrundvelli er allt annað mál. Hér er ekki um þjóðarvoða að ræða, eins og var, þegar Viðlagasjóðsgjaldið komst á. Hér er tekinn upp sá háttur að jafna verð einnar vöru með því að leggja á eitt söluskattsstig. Ég vil líta svo á, að þetta sé hluti af miklu stærra vandamáli. Við vitum, að dreifbýlismenn þurfa víða að greiða 10–15°,% hærra verð fyrir ýmsar vörur. Af hverju er þá verið að jafna eingöngu olíu? Af hverju að taka ekki þetta vandamál upp í heild? Þetta er angi af miklu stærra vandamáli, þetta er ekki eingöngu olíujöfnunarhlutverk, heldur bara almennt að jafna aðstöðumun, sem er á milli þess að búa í þéttbýlinu, búa við hitaveitu, og búa í dreifbýlinu, búa við olíukyndingu. Þetta er angi af miklu stærra vandamáli. Og ég tel það dálítið vafasamt, af því að svona hagar til, að koma með sérstakt söluskattsstig til að jafna þennan verðmun. Það merkir náttúrlega, og ég vil nú enn gerast spámaður, að þessu söluskattsstigi verður haldið óendanlega. Þar með verður engin breyting á.

Þá má benda á, að söluskattsstigið skilar um 730 millj. á ári. Olíukostnaðurinn við húsahitun tvöfaldast á árinu, þ.e.a.s. verður um 700 millj. Þá er spurning, hvort það sé eðlilegt að láta eitt söluskattsstig skila 700 millj. og greiða allan þennan mismun. Mér finnst ekki óeðlilegt, ef olían verður dýrari, — hún verður það reyndar áfram, — að reyna þá heldur að taka þá stefnu að flýta fyrir því, að ýmsir staðir í dreifbýlinu fái hitaveitu. Það væri miklu skynsamlegra að mínu viti, að t.d. helmingurinn af þessu söluskattsstigi færi þá í sjóð eða til banda plássunum úti á landi til þess að reyna að koma sér upp hitaveitu, þar sem það er hægt, þ.e.a.s. reyna að ráðast að vandanum beint, en ekki að því leyti að reyna þá að örva ekki menn til þess að halda áfram með olíukyndingu, m.ö.o. reyna að snúa sér beint að vandanum, en ekki bara greiða fé, sem leysir í sjálfu sér engan vanda. Þess vegna hefði verið miklu þekkilegra að mínu viti, að eitthvað af þessu fjármagni, t.d. helmingurinn, færi í sjóð, sem yrði þá til þess að lána sveitarfélögunum til þess að leggja hitaveitu til þess að vinna bug á vandanum.

Svo er annað mál líka, sem kemur upp. Það er sjálf olíudreifingin, olíufélögin. Nú er það í málefnasamningi ríkisstj. að taka olíudreifinguna til gagngerðrar endurskoðunar. Við, þessir gárungar margir, erum nú hættir að taka mikið mark á málefnasamningnum, en engu að síður stendur það í honum, og þess vegna kemur upp í sambandi við þetta vandamál. hvort ekki væri vert að taka olíumálin, olíufélögin og dreifinguna, undir félagslega stjórn, eins og virðist vera þróunin erlendis. Það er að vakna, eins og þið vitið t.d. í Bandaríkjunum, jafnvel í því kapítalíska landi, þar er þingheimur að vakna til vitundar um, að það þarf að hafa eftirlit með olíufélögunum. Að vísu er ekki talað um að setja þau undir félagslega stjórn. En þróunin í heiminum stefnir í þá átt, að ríkisvaldið þarf að hafa meiri og meiri umsjón með olíufélögunum, og ég hygg, að það muni eftir 2–3 áratugi gerast t.d. á Norðurlöndum, að olíufélögin verði felld undir félagslegt eignarhald. Þannig hugsa ég, að verði líka á Íslandi, þó að þingheimur sé nú ekki reiðubúinn að taka slíka ákvörðun. En það gerist, og ég hygg, að úr því að þetta stendur í málefnasamningi ríkisstj., þá væri vert að taka olíudreifingarmálin og olíufélögin til heildarathugunar og athuga, hvort ekki mætti vinna þar og spara fé, sem mætti þá koma dreifingu til góða og jafnvel verða til þess að lækka verð á olíu.

Einu atriði líka vil ég bæta við, og það er vert að athuga það, að bensín, sem er náttúrlega skyld vörutegund olíunni, hækkar líka í verði. Það má gera ráð fyrir því, að ríkissjóður hirði um 300 millj. kr. í auknum tekjum af bensíni, og þá er spurningin, hvort ekki væri eðlilegt, að einhver hluti af þessari miklu, óvæntu inntekt ríkissjóðs rynni þá fyrst í olíujöfnunarsjóð. Mér fyndist það koma fyllilega til greina. Svo vil ég líka bæta við, að mér þætti líka koma til greina, að athuga, hvort ekki mætti skera niður í fjárl. einhvers staðar svo sem 200–300 millj. og láta það fé renna beint í olíujöfnunarsjóð. — Sannleikurinn er sá, að það er ýmislegt við þetta að athuga, og ekki síst virðist mér vera það, að það er óljóst, hvernig framkvæmdin verður. Hætt er við, að svona almennt dreififé til almennings verði eitthvað misnotað, og ég hygg, að það sé aldrei hægt að setja reglur, sem fyrirbyggi misnotkun. En hvernig framkvæmdin verður, það náttúrlega sést ekki af þessu frv.

Og þá er líka ein smáspurning, sem hefur vaknað: Hvernig er með þá aðila, sem hafa rafmagnshitun í húsum? Ég hygg, að það sé mjög dýrt, og sums staðar mun verðið á rafmagni vera mun meira jafnvel heldur en á olíunni. Er þá skynsamlegt að spyrja, hvort þeir, sem hita hús sín með rafmagni, megi ekki njóta einhvers, ef kynding þeirra er miklu dýrari en þeirra, sem hafa hitaveituna. M.ö.o., mér er alveg ljóst, að í sambandi við þetta vakna ótal spurningar. En niðurstaða mín er eiginlega sú, að þetta mál er byggt á samningsgrundvelli. Það þarf einhvern veginn að koma til móts við þá, sem nota olíuhitun í húsum, þannig að ég vil styðja að því að draga úr þessum aðstöðumun. Hins vegar er ég andvígur því, að þetta söluskattsstig sé notað á þann hátt, og hefði talið eðlilegast, að auknar tekjur af bensíni og einhver niðurskurður á ríkisútgjöldum kæmu á móti til þess að greiða þetta eitthvað niður.

Ég skal ekki hafa þessi orð lengri að sinni, en bendi á, hvernig málið er komið í hendur þingsins, eins og segir hér í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. þetta er lagt fram samtímis frv. til l. um breyt. á l. nr. 4 frá 7. febr. 1973, um neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey.“

M.ö.o.: þetta er tengt frv. um jarðeldana á Heimaey. En ég tel, að hér sé um gerólíkt mál að ræða. Annað snýr að Vestmannaeyjum og Heimaey. Þar er samstaða allrar þjóðarinnar að bregðast við þeim mikla voða, sem Vestmannaeyjum og allri þjóðinni bar að höndum. En hér virðist mér grundvallaratriðið vera það, að ríkisstj. vill ekki fyrir nokkurn mun missa af öðru Viðlagasjóðsstiginu, og þess vegna kemur þetta inn samtímis. Og það eitt með öðru veldur því, að ég vil leysa þetta mál, sem þarna er á döfinni, á annan hátt en gert er ráð fyrir í frv., eins og ég hef þegar skýrt frá.