25.02.1974
Neðri deild: 66. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram hér við 1. umr. um þetta mál. að ég er mjög hlynntur því, að aflað verði tekna til niðurgreiðslu á olíu til kyndingar til húshitunar. Það hefur verið bent á það hér réttilega, að hér er aðeins um hluta af mun stærra vandamáli að ræða, mismun, sem er fyrir þá, sem búa í dreifbýlinu annars vegar og hins vegar þá, sem búa á þéttbýlissvæðinu hér við Faxaflóa. En eins og hæstv. forsrh. réttilega benti á, vita þm., að um þetta mál í heild eru starfandi n., og er þess að vænta, að þær skili Alþ. innan ekki langs tíma áliti sínu um það, hvernig best verður við komið jöfnun þarna á milli.

Hv. 3. landsk. þm. benti á það sem möguleika, hvort ekki væri réttara að nota það fjármagn, sem frv. þetta mun gefa í tekjur, til stofnunar á sjóði, sem aftur yrði til þess að hraða uppbyggingu víðs vegar um land í sambandi við aukna möguleika á raforku til húshitunar eða þá vinnslu jarðvarma, þar sem hann er fyrir hendi. Vissulega væri mjög gott, ef hægt væri að mynda slíkan sjóð. En þetta mál, sem hér liggur fyrir, er að mínum dómi það aðkallandi, að ekki verður beðið eftir þeim aðgerðum, sem í framtíðinni hljóta að verða gerðar í sambandi við aukna orkuöflun til húshitunar. Ég held, að það fari ekkert á milli mála, að sú stökkbreyting, sem varð á olíuverði nú á síðustu mánuðum, geri þann mismun, sem við öll þekkjum, og aðstöðumun fólks í dreifbýlinu og á þéttbýlissvæðunum, það mikinn umfram kannske flest annað, að fram úr þessu máli verður að mínum dómi að ráða með einhverju slíkum aðgerðum eins og hér er lagt til.

Mér sýnist á því, sem fram kemur í grg. með frv., að ef annað söluskattsstigið, sem áður rann til Viðlagasjóðs, verður notað til niðurgreiðslu á olíuverði til húsahitunar, þá muni olíuverð árið 1974 til þessara hluta geta orðið svipað og það var árið 1973. Það er talið í skýrslum, sem er að finna í grg. með frv., að hitunarkostnaður með olíukyndingu hafi árið 1973 orðið 620 millj., en áætlað, að það verði 1350 millj. árið 1974. Nú er vitað, að áætlað er, að hvert söluskattsstig gefi 700–730 millj., þannig að ef það stenst, ætti hitunarkostnaður 1974 með fyrirhugaðri niðurgreiðslu að verða sá sami og hann varð 1973. Ég tel þetta mjög mikið réttlætismál og er því mjög fylgjandi, að þetta frv. nái fram að ganga og verði að lögum fyrir næstu mánaðamót.

Það liggur ljóst fyrir, að menn eru ekki sammála um, hvernig framkvæma á niðurgreiðslu á olíunni. Ég hygg þó, að þegar búið er að skoða það mál til hlítar, geti þm. orðið nokkuð sammála um, að einfaldasta aðferðin til þess hlýtur að verða sú að greiða olíuna beint, þannig að ekki komi til, að einstakir aðilar fari að fá endurgreiðslu. Ég hygg, að það kerfi yrði miklu þyngra í vöfum og hægari aðstæður til að misnota það heldur en ef gengið verður hreint til verks og olían beinlínis greidd niður, þannig að menn vissu strax á fyrsta stigi, hver þeirra hitunarkostnaður raunverulega væri. En þetta er mál, sem kemur hér til meðferðar síðar í þinginu, og ekki ástæða til að ræða það, fyrr en séð verður, hvernig það verður langt fram.

Ég vil undirstrika það, sem ég sagði hér í upphafi, að ég tel, að ekki megi draga það neitt að afla fjár til niðurgreiðslu á olíu til húsahitunar, því að þetta er það mikið mál fyrir dreifbýlið, að ef það yrði ekki gert, þá óttast ég mjög, að það mundi verulega auka á fólksflutninga utan úr dreifbýlinu og hingað á þéttbýlissvæðið. Það hefur verið reiknað út, að þetta geti munað kannske allt upp í 60–80 þús. kr. á fjölskyldu á ári, og segir sig sjálft, að slíkt væri mjög hvetjandi fyrir fólk, ef það á annað borð hefði aðstöðu til þess að skipta um búsetu og flytja sig á það svæði, þar sem mun ódýrara væri að framfleyta fjölskyldunni að þessu leyti.