26.02.1974
Neðri deild: 67. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2352 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

152. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Enn hefur fjh.- og viðskn. þessar hv. d. haft tollskrárfrv. til athugunar, og enn þá ber ég fram allmargar brtt. á tveimur þskj., þskj. 421 og þskj. 422. Ég hygg, að allir nm. séu sammála um þessar brtt.

Ég vil fyrst geta þess, áður en ég geri grein fyrir brtt., nú fluttum, að brtt. á þskj. 389, sá hluti hennar, sem fellur undir tölunúmer 48 10 01 til 09, er hér með tekinn aftur. Þá vil ég einnig, áður en ég greini frá efni þessara nýju till., árétta það, sem ég áður tók fram, þegar ég gerði grein fyrir brtt. mínum á þskj. 389, varðandi endurgreiðslur þær, sem þar um ræðir, að þær eru við það miðaðar, að þær nái til véla og hráefna tollafgreiddra frá 1. jan. s.l. til gildistöku lagabreytingar til sams konar iðnaðar, sem varð fyrir rýrðri tollvernd frá áramótum.

Nýju brtt. lúta að því flestar að flýta lækkun tolla af vélum til iðnaðar frá því, sem ráðgert var í frv. og í fyrri brtt. Hér er um það að ræða að koma til móts við iðnaðinn vegna væntanlegra söluskattshækkana. Þessar till. eru gerðar í samráði við fulltrúa iðnaðarins, og þær eru fram settar í sambandi við lausn þeirrar kjaradeilu, sem nú er verið að ljúka við að leysa. Hér er um að ræða tolla af öllum þeim vélum, sem greindar eru í tollnúmerinu 84, og raunar nær þetta til nokkurra fleiri véla, sem á sama hátt áttu að lækka í tveimur áföngum úr núverandi tolli og niður í núll á árinu 1976. Í þessum till. er lagt til að lækka tolla af þessum vélum strax ofan í núll., Það liggja ekki fyrir neinar nákvæmar áætlanir um það, hverju þessar lækkanir nemi, en mjög gróft metið er talið, að þessar tollalækkanir mæti nokkurn veginn þeim auknu útgjöldum, sem fyrirhuguð hækkun söluskatts hefði í för með sér fyrir viðkomandi iðn greinar, og hefur verið ætlað, að heildarupphæð á þessum tveimur liðum, sem þarna ættu að mætast nokkurn veginn, nemi á bilinu frá 30 til 40 millj. kr. En ég tek það fram, að þessar áætlanir eru mjög grófar.

Auk þessa, sem ég nú greindi, eru á þskj. 422 tvær breytingar, sem að nokkru má skoða sem leiðréttingar. Þar er annars vegar um að ræða lækkun á tilteknum flokkum myndavéla. Þetta er borið fram af tveimur meginástæðum. Ljósmyndaiðnaðurinn sætir vaxandi samkeppni erlendis frá, og hins vegar er hér um að ræða það, sem kallað er smyglnæmur varningur, þar sem þessi tæki eru. Þetta er í b-lið í 1. brtt. á þskj. 422. Hitt er um lækkun tolla í tollaflokki 91 01 00: vasaúr, armbandsúr, o.s.frv. Og þetta er nánast talað gert til samræmis við tollalækkanir á öðrum fríhafnarvörum. Þetta snertir líka hið svokallaða smyglnæma góss.

Þá er enn að geta þess, að á nefndu þskj., 422, er undir tölulið 2 lagt til, að ákvæði til bráðabirgða falli niður. Eins og hv. þdm. muna, var þetta ákvæði sett inn í frv. í Ed., á þá leið, að til þess að mæta því tekjutapi fyrir ríkissjóð, sem leiðir af samþykkt þessara laga, er ríkisstj. heimili að leggja 1% gjald á söluskattsstofn allra sömu aðila og lög nr. 10 1960, um söluskatt, taka til o.s.frv. Hér er lagt til að fella þetta ákvæði niður. Vitað er, að fyrirhugað er að gera miklu víðtækari og stærri breytingar á söluskatti, og þá þykir eðlilegt að meta þennan þátt söluskattsmálsins um leið og hér kemur til meðferðar stærri breyting á þeim tekjustofni.

Ég held, að ég geri þá ekki nánari grein fyrir þessum brtt. Það er tilgangslaust að fara að rekja hin einstöku númer og greina efni þeirra, og mun það ekki heldur hafa verið venja við fyrri breytingar á tollskrá.