26.02.1974
Neðri deild: 67. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

152. mál, tollskrá o.fl.

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég hef flutt á þskj. 314 brtt. við þetta frv., sem lýtur að því að fella niður 14, tölulið 3. gr. Þessi 14. tölul. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að veita undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda af bifreiðum ráðherra og sendiráðsstarfsmanna í samræmi við reglur um bílamál ríkisins.“

Í upphafi þessa þings flutti ég frv., sama efnis, þ.e.a.s. um að fella þennan lið niður. Þetta var 7. mál þingsins og hefur ekki komist úr n. og kemst þaðan aldrei, svo að ég ætla nú að grípa gæsina, þegar hún gefst, og bera fram þessa brtt., Ég vil benda hv. þm. á rökstuðning fyrir þessari brtt. í þskj. 7, en ég ætla aðeins að segja nokkur orð til viðbótar við það, sem ég sagði hér í upphafi þings.

Sá undarlegi háttur er á hafður í sambandi við bifreiðar ráðherra, að hann er með tvennu móti. Annars vegar er sá háttur á, að ríkissjóður eigi bifreiðarnar, þær séu merktar og það sé óheimil notkun þeirra nema í embættisþágu. Þetta er hin eðlilega og sjálfsagða leið og tíðkast í öllum menningarlöndum, mér vitanlega. Síðan hefur það einhvern veginn gerst í þessu okkar ágæta stjórnarfari, það er eins og gömul saga, að það er til ,sú leið að gefa ráðh, að mestu leyti bílinn, en láta þó ríkissjóð standa undir öllu saman. Í reglugerð um bifreiðamál ríkisins segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherra, sem ekki óskar að fá til umráða ríkisbifreið, á þess kost að fá keypta bifreið, er hann tekur við embætti, með sömu kjörum og gilt hafa um bifreiðakaup ráðherra, er hann lætur af embætti“ — þ.e. eftirgjöf á aðflutningstollum og ég hygg söluskatti líka og jafnvel flutningskostnaði o.s.frv. — „Heimilt,“ segir hér enn fremur, „er að veita ráðh. í eitt skipti lán til slíkra kaupa með sömu kjörum og gilda um ríkisforstjóra, sem haft hafa ríkisbifreið til afnota.“ M.ö.o.: þeir fá ekki aðeins eftirgjöf á aðflutningsgjöldum og söluskatti, heldur fá þeir líka lán. Ég held, að það séu 350 þús. kr. með 5% vöxtum til 10 eða 15 ára. Það má heita, að þegar menn setjast í ráðherrastól, þá gefi þeir sér nýja bíla. Þetta er mjög glæsilegt.

Varðandi sendiráðsmenn, sem einnig eru þar nefndir, segir um þá í reglugerð um bifreiðamál ríkisins, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er að veita starfsmönnum utanríkis þjónustunnar undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda af bifreið, er þeir flytja heim eftir eigi skemmra en þriggja ára samfellt starf erlendis. Gildir þetta þó ekki nema einu sinni á 7 ára fresti. Undanþágan verður því aðeins veitt, að utanrrn. mæli með henni hverju sinni. Ambassadorar, sem flytja heim, njóta framangreindra hlunninda án tímatakmarkana. Bifreið, sem hefur verið innflutt þannig, má ekki selja fyrr en að þremur árum liðnum frá heimflutningi, nema aðflutningsgjöld séu greidd.“

Ég sé í rauninni engin skynsamleg rök til þess, að starfsmenn utanríkisþjónustunnar eigi að hafa þessi forréttindi umfram aðrar starfsstéttir, þótt þeir dveljist erlendis um þriggja ára skeið eða lengur. Hygg ég, að það muni vera sannmæli, að afkoma eða tekjur starfsmanna utanríkisþjónustunnar, sem dveljast erlendis, muni vera síst lakari en okkar heimamanna, og ég fæ ekki séð annað en þarna séu bara gömul forréttindi, sem síðar virðist illgerlegt að afnema.

M.ö.o.: brtt. mín felur í sér að afnema þessi forréttindi þessara aðila. Þessi brtt. er ekki úrslitaatriði fyrir ríkissjóð, en það er þrifnaðarverk að losna við þetta.

Ég skal nú ekki tala meira um þetta, en ég vil aðeins láta í ljós nokkra undrun, að ríkisstj. skuli hafa lagt fram tollskrárfrv. í óbreyttri mynd að heita má og hafa hug á því að ná sér í 1% söluskattshækkun, um leið og þessar tollalækkanir eiga sér stað, þar sem vitað er, að erlendar hækkanir hafa verið það miklar, að það kemur í ríkissjóð veruleg upphæð á móti þeim tollalækkunum, sem eiga sér stað. Og ég vil bara til gamans láta þau orð falla, að þessi söluskattsmanía, sem tröllríður hér húsum, er farin að verða nokkuð ágeng. 1% sölustig í sambandi við tollalækkun, 1% sölustig í sambandi við olíujöfnunarsjóð og 5 stig í sambandi við kerfisbreytingu á sköttum. Það má segja, að ríkisstj. sé komin á eitt allsherjar söluskattskennderí.