26.02.1974
Neðri deild: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (2134)

152. mál, tollskrá o.fl.

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að leggja fram litla brtt. við þetta frv., — brtt., sem verður að vera skrifleg, og óska ég eftir, að forseti leiti samþykkis d. fyrir því, að hún sé tekin hér til umr., en það er brtt., sem er við lið 84 15 11 og felur í sér að lækka tolla á afgreiðsluborðum og sýningarskápum fyrir verslanir og varahluti í þá. Það hefur komið fram við athugun á þessu frv., að ýmis tæki og áhöld til notkunar í verslunum vegna sölu og vinnslu á framleiðslu matvæla njóta ekki sömu tollfríðinda og önnur framleiðslutæki, sem notuð eru í matvælaiðnaði. Það er mat kunnugra, að hér sé um nokkurt og óeðlilegt misræmi að ræða, þar sem verslanir séu síðasti liðurinn í framleiðslu matvæla, auk þess sem um verulega beina framleiðslu er að ræða á matvælum í mörgum verslunum. Þá er á það bent, að þær vörutegundir, sem sérstaklega er um að ræða, ýmsar kjöt- og fisktegundir, hafi mjög lága álagningu og krefjist mikillar fjárfestingar í áhöldum og tækjum. En þessi till. gengur út á að lækka tolla af þessum vörum úr 35% niður í 7%, og vænti ég þess, að hv. d. sýni þessu máli velvilja og taki undir það sjónarmið, sem að baki þessari till. býr, að verslunin þurfi að sitja við sama borð og aðrar atvinnugreinar.