26.02.1974
Neðri deild: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

152. mál, tollskrá o.fl.

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég er nú ekki af baki dottinn, þó að till. mín hafi verið felld við 2. umr. Þessi 14, liður er tvíþættur. Annars vegar varðandi það, að ráðh. fái hálfgefins bíla, og þeir virðast hafa mikinn hug á því og hafa ekki manndóm til þess að rétta þetta við, og svo það, sem lýtur að sendiráðsmönnum. Mér hefur skilist það á ýmsum hér í d., að þeir hafi nokkra samúð eða skilning á kjörum eða þörfum sendiráðsmanna, og ég skal ekki deila um það. En ég hef, af því að liðurinn er tvíþættur, leyft mér að koma með svofellda brtt. við 14. liðinn:

„14. tölul. orðist svo: Að veita undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda af bifreiðum sendiráðsmanna samkv. nánari reglum fjmrn.“

M.ö.o.: Þá verður haldið því, sem lýtur að sendiráðsmönnum, en eftirmönnum núv. ráðh. verður ekki leyft að skara eld að sinni köku, og ég vænti þess fastlega, að þm. skilji þessa hluti. Þetta er hreingerning og ekkert annað, og ef alþm. skilja ekki, hvað um er að ræða, hljóta að vakna upp ýmsar spurningar. Ég legg þessa brtt. fram og mælist til þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða, þannig að hún megi fá formlega meðferð.