26.02.1974
Efri deild: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

240. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er þmfrv., en samt sem áður þykir mér rétt að fylgja því úr blaði með örfáum orðum.

Það er forsaga þessa máls, að það kom í ljós eftir áramótin, að Viðlagasjóð mundi skorta allverulegt fé til þess að standa við þær skuldbindingar, sem á honum hvíla lögum samkv. Þá sendi stjórn Viðlagasjóðs mér till. eða uppkast að frv. um tekjuöflun fyrir sjóðinn, sem var fólgin í því, að framlengt yrði viðlagagjaldið, 2%, til áramóta. Ég taldi eðlilegast í samræmi við þann hátt, sem á var hafður á þessu máli í fyrra, að þingflokkarnir fjölluðu um málið, og þess vegna ritaði ég þingflokkunum bréf, þar sem ég fór fram á, að þeir tilnefndu einn mann í n. til að fjalla um málið, kanna það og koma sér saman um flutning á frv. Það hefur síðan verið gert, og hefur náðst fullkomið samkomulag á milli þingflokkanna um það frv., sem hér liggur fyrir, en er að vísu ofurlítið í breyttri mynd frá því, sem stjórn Viðlagasjóðs lagði upphaflega til, þar sem hún gerði ráð fyrir óbreyttu viðlagagjaldinu til áramóta, en í frv. er gert ráð fyrir einu stigi til Viðlagasjóðs, sem gildi til 28. febr. 1975.

Þetta frv. hefur gengið í gegnum hv. Nd., og þar var mælst til þess, að sú n., sem þar fékk það til meðferðar, fjh: og viðskn., hefði samband við fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., að þær störfuðu saman að málinu, og hygg ég, að það hafi verið gert. Þess vegna held ég, að það sé ekki nauðsyn, að þetta frv. gangi hér til n., og ég vil mælast til þess, að það væri hægt að komast hjá því, vegna þess að það er nauðsyn á, að þetta frv. hljóti skjóta afgreiðslu, vegna þess að gildistími innheimtu gjaldsins fellur niður 28. febrúar. Þess vegna þarf frv. að afgreiðast nú og hljóta tilskilda staðfestingu og birtingu og er tíminn allnaumur.

Ég vildi aðeins segja þessi fáu orð hér og lýsa ánægju minni yfir því, að enn sem fyrr hefur orðið samkomulag á milli þingflokka og þm. um þetta frv. Það tel ég mikils virði. En ég sé ekki ástæðu til að fara út í efnisatriði frv. að öðru leyti né heldur að fara hér út í hugleiðingar um væntanlega afkomu Viðlagasjóðs, hvorki greiðslugetu hans á þessu ári né heldur endanlega afkomu, þegar allt verður upp gert. En í því dæmi eru auðvitað enn þá margir óvissir þættir. Ég legg til. að frv. megi nú ganga til 2. umr.