26.02.1974
Efri deild: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2360 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

240. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að lýsa yfir stuðningi okkar sjálfstæðismanna við þetta frv. Við munum greiða fyrir því, að það fái afgreiðslu. Ég tel ekki óeðlilegt, eins og hæstv. forsrh. lagði til, að frv. þessu verði vísað til 2. umr., án þess að það fari til u., þar sem um frv. var fjallað á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn. Ed. og Nd., eins og hann raunar gat um.

Ég vil þó taka fram í tengslum við þetta frv., að ástæða er til að leggja áherslu á, að tekjuöflun Viðlagasjóðs og ráðstafanir á fé úr Viðlagasjóði hljóta að vera í samræmi við lagasetningu Alþingis þar um. Verði fjármagn eftir í Viðlagasjóði, þegar hann hefur gegnt hlutverki sínu samkv. l. þeim, er Alþ. setti um hann á s.l. ári, er það skilningur okkar, að Alþ. kveði á um, hvernig því fjármagni skuli ráðstafað. Það liggur ekki ljóst fyrir, hvort fjáröflun Viðlagasjóðs, eins og lög gera nú ráð fyrir og þetta frv. þ. á m., nægi til þess að standa undir skuldbindingum, sem sjóðurinn hefur tekist á hendur lögum samkv., en verði þarna um fjármagn að ræða, sem eftir yrði í Viðlagasjóði, þá sýnist sjálfsagt, að Alþ. fjalli um ráðstöfun þess.

Ég hlýt enn fremur að vekja athygli á því, að í Nd. hefur verið flutt sérstakt frv. til l. af þeim hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni, Gylfa Þ. Gíslasyni, Bjarna Guðnasyni og Ingólfi Jónssyni um það, að tekjur af tolli og söluskatti af þeim húsum, sem flutt hafa verið inn á vegum Víðlagasjóðs, renni til Viðlagasjóðs sjálfs. Við teljum það eðlilegt og raunar annað ósæmilegt en að þessar tekjur renni í Viðlagasjóð. Ef svo yrði, hygg ég, að vonir standi fyllilega til, að Viðlagasjóður geri jafnvel meira en að standa undir sínum skuldbindingum og þar með sé honum gert kleift að inna hlutverk sitt af höndum lögum samkv.

Ég vildi láta þetta koma fram við þessa umr. um frv., en ítreka stuðning okkar sjálfstæðismanna við frv., eins og það liggur fyrir.