26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2362 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt, hefur að undanförnu farið fram söfnun undirskrifta með talsverðu brauki og bramli undir þá kröfu, að Ísland verði varanlega hersetið land. Söfnun þessi, sem nú er að ljúka, er vissulega heldur ömurlegt fyrirbrigði, en verður ekki gerð hér frekar að umtalsefni. Hins vegar er nú komin á daginn önnur hlið á þessari söfnun, eftirleikur, sem engan óraði fyrir.

Í Morgunblaðinu s.l. sunnudag upplýsir einn af forustumönnum þessarar söfnunar, að undirskriftaskjölin hafi verið unnin á tölvuforrit og gerð gataspjaldskrá yfir alla þátttakendur í söfnuninni. Og í hvaða tilgangi er þetta gert? Talsmaður samtakanna segir í Morgunblaðinu, að þetta hafi verið unnið til að koma í veg fyrir, að nafn sama mannsins gæti komið fyrir tvisvar. Þetta er vægast sagt einkennileg skýring, en ekkert skal ég segja um, hvort hún er rétt eða ekki. Hitt er ljóst, að tvíritanir hefði auðveldlega mátt fyrirbyggja með því t.d. að merkja við sérhvern undirskrifenda í eitt afrit af íbúaskrá og sjá svo til, hvort fram kæmu tvær undirskriftir með sama nafni og sama heimilisfangi. Þetta er einmitt það, sem gert er í venjulegum kosningum og látið duga, og að sjálfsögðu hefði þetta einnig verið einfaldasta og ódýrasta aðferðin í þessu tilviki. Samtökin Varið land láta sér hins vegar ekki nægja minna en nákvæma tölvuspjaldskrá yfir alla undirskrifendur. Kunnugir hafa sagt mér, að tölvuvinnslan og allt, sem henni fylgir, muni hafa kostað milli 350 og 400 þús. Mér er einnig tjáð af þeim, sem séð hafa lista úr þessum tölvuskrám, að sérstakt auðkennisnúmer sé við hvert nafn á gataspjöldunum. Mér er að vísu ekki kunnugt um, hvort hér er um að ræða nafnnúmer eða eitthvað annað númer, en allir, sem þekkja nokkuð til tölvutækni, munu vita, að einmitt við auðkennisnúmer gerbreytir þess háttar skrá um eðli og getur þá gegnt miklu víðtækara hlutverki en áður.

Hér er sem sagt um að ræða fyrstu pólitísku tölvuskrána á Íslandi, skrá, sem skiptir þjóðinni í tvennt eftir afstöðu fólks til bandaríska herliðsins. Þessa skrá má nota með ýmsum ólíkum hætti. Það má vissulega nota hana til að finna tvíritanir sömu nafna, en hún er gagnleg til fleiri nota. Á aðeins 5 mínútum er unnt að búa til afrit af sjálfri segulspólunni, sem geymir upplýsingar um alla undirskrifendur. Mjög auðvelt er að gera afrit af spjaldskránni, hvort heldur miðað er við nafn, heimilisfang, aldursflokk eða aðrar forsendur, á tiltölulega mjög skömmum tíma. Síðar meir má svo að sjálfsögðu bæta við skrána nýjum upplýsingum, halda henni við og leiðrétta hana, og notendur skrárinnar geta orðið margir. Slík skrá er að sjálfsögðu einkar hagkvæm fyrir þá, sem vilja vita um pólitíska afstöðu manna, áður en þeir ráða þá í vinnu, og þetta er satt að segja mjög gagnleg skrá fyrir ákveðið sendiráð hér í borg, svo að annað dæmi sé nefnt. Að sjálfsögðu þarf ekki að taka það fram, að þessi skrá er ómissandi hjálpartæki fyrir Sjálfstfl. í næstu kosningum, ef flokkurinn á þess kost að verða sér úti um eintak.

Í sambandi við gerð þessarar pólitísku tölvuskrár vekur hið leynilega ráðabrugg alveg sérstaka athygli og þá ekki síður óheilindin, sem vinnubrögðin sýna. Vinnan við tölvuspjaldskrána hófst fyrir mörgum vikum, en var haldið stranglega leyndri, þar til undirskriftasöfnuninni var lokið. Fólkið hefur verið látið lána nöfnin sín í algeru grandaleysi, án þess að það hefði hugmynd um, að það væri með þessu að láta skrá skoðanir sínar á umdeildu, stórpólitísku máli inn á gataspjöld og segulspólur til hugsanlegrar notkunar fyrir óhlutvanda menn síðar meir, jafnvel um langa framtíð. Því miður eru engin lög á Íslandi, sem banna athæfi af þessu tagi berum orðum. Stjórnarskráin verndar friðhelgi heimilisins, og samkv. hegningarlögum telst það refsivert að hnýsast um einkahagi manna, en ótvírætt bann við skipulögðum persónunjósnum með vélrænum aðferðum nýjustu tölvutækni er því miður hvergi að finna. Í ýmsum nálægum löndum er hins vegar ýmist verið að setja lög eða búið að festa ákvæði í lög, sem banna, að gerðar séu persónuskrár með tölvutækni í pólitískum tilgangi. Í Svíþjóð mundi tölvuskráning pólitískra skoðana af því tagi, sem samtökin Varið land hafa staðið fyrir undanfarnar vikur, varða fangelsi allt að tveimur árum samkv. nýlega settum lögum.

Eins og eðlilegt er, höfum við hér á Íslandi verið algerlega andvaralausir gagnvart þessari nýju og stórvirku tölvutækni, sem breytir venjulegri gamaldags undirskriftasöfnun í tröllvaxnar persónunjósnir af versta tagi. En hér verður greinilega að stinga við fótum. Vinnubrögð af þessu tagi verður að banna að íslenskum lögum, og fyrrnefnd tölvugögn verður tvímælalaust að eyðileggja. Við skulum trúa því, að þessi mikla tölvuskráning hafi verið gerð til að leiðrétta villur á undirskriftalistunum. Ef tilgangurinn var enginn annar en þessi, ættu forsvarsmenn söfnunarinnar ekki að hafa neitt við það að athuga, að tölvugögnin verði aldrei notuð í öðrum og verri tilgangi, heldur afhent að notkun lokinni, um leið og sjálfir undirskriftalistarnir. Ég vil því ljúka máli mínu með því að spyrja hæstv. forsrh., hvort hann telji ekki eðlilegt og hvort hann vilji stuðla að því, að um leið og margnefndir undirskriftalistar verða afhentir, verði samtímis afhent þau tölvugögn, svo sem gataspjaldskrá, segulspólur, tölvuforrit, vélunnir listar og önnur skýrsluvélagögn, sem gerð hafa verið á grundvelli þessarar undirskriftasöfnunar.