26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, eru ekki í íslenskum lögum nein almenn ákvæði um það efni, sem hann fjallaði um. Þess vegna er það að sjálfsögðu svo, að þó að ég færi fram á það, ef þessi gögn verða mér einhvern tíma afhent eða listar, að fá tölvugögnin afhent, þá hef ég ekkert vald til þess. Það er á valdi þessara aðila, sem hafa þessi gögn í hendi sér nú, hvort þeir afhenda þau eða ekki.

En ég vil segja það, að þetta efni, sem hv. fyrirspyrjandi vakti athygli á, er almennt séð og án tillits til þess tilefnis, sem hann byggði fsp. sína á, athyglisvert, og það er málefni, sem hann vék líka að, sem menn eru að athuga, t.d. á Norðurlöndunum. Þar hygg ég, að sé verið að athuga að setja löggjöf um þessi atriði, og ég tel sjálfsagt fyrir okkur að fylgjast með því, sem gerist þar, og athuga, hvort ekki er þörf á því að setja löggjöf um þetta efni, því að það er auðvitað svo, að menn eiga rétt á því, að vissum upplýsingum um einkahagi þeirra sé haldið leyndum og þær séu ekki bornar á torg og menn eigi almennt ekki aðgang að þeim.

Þessi nýja tækni, sem er komin til sögunnar í sambandi við ýmsa skrifstofuvinnu, véltæk gataspjöld, vélframleiddar skrár og skýrslur af ýmsu tagi og segulbönd, gerir það að verkum, að möguleiki er á því að setja ýmiss konar upplýsingar inn í slíkar skrár og geyma þær. Slíkar skrár eru náttúrlega nú þegar fyrir hendi í ýmsum opinberum stofnunum. Þess vegna er að mínum dómi tímabært að athuga um þessi málefni, hvort það er ekki rétt að fara að huga að því að setja löggjöf um þessi efni.

Í því tilfelli, sem þarna er um að tefla, eru það að vísu einkaaðilar, sem hafa þetta í hendi sér. En ég hygg, að athygli manna, t.d. á Norðurlöndum, og undirbúningur löggjafar þar hafi líka beinst að því og það sé gert ráð fyrir því, að það þurfi jafnvel opinbert leyfi til að færa eða halda eða geyma slíkar persónuskrár. Ég minni á það í þessu sambandi, þó að það sé aðeins óbeint, að í frv. um upplýsingaskyldu er einmitt í 2. gr. tekið fram: „Skjöl, sem snerta hvers konar persónuleg eða fjárhagsleg málefni einstaklinga, nema sá, sem í hlut á, fallist á, að menn kynni sér skjalið.“ Þetta er undantekning frá upplýsingaskyldunni. En þetta ákvæði, þótt að lögum yrði, tekur í sjálfu sér ekki beint til þessa atriðis, sem hv. fyrirspyrjandi talaði um.

Það er alveg rétt, að það er enginn kominn til með að segja það, að þeir, sem hafa skrifað undir þessi skjöl í dag, óski eftir því eftir 10 ár, að það liggi einhvers staðar fyrir, að þeir hafi skráð nafn sitt þarna. Og það er engin ástæða til þess að vera að geyma slíkt. Menn eiga í sjálfu sér að vera verndaðir gegn því, að það sé hægt að hnýsast í þeirra einkahagi.

Herra forseti. Ég get því miður ekki veitt neitt skýrara svar við þessum spurningum, og hv. fyrirspyrjandi svaraði í raun og veru spurningum sínum að nokkru leyti sjálfur, þar sem hann vissi það og veit það eins vel og ég, að það eru ekki til nein bein lagaákvæði um þetta. Þessar skrár hafa ekki enn verið afhentar mér, og ég veit ekki með hvaða hætti það verður gert.