26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það er bersýnilegt, að formaður Alþb. er algerlega farinn á taugum, og þeir hv. þm., sem hér hafa talað, bera þess augljósan vott. Það er hinn glæsilegi árangur undirskriftasöfnunarinnar Varið land, sem hefur leitt til þessa. Ég vona, að þeir öðlist ró sína og andlegt jafnvægi að nýju.

En þessi undirskriftasöfnun hefur haft þann glæsilega árangur í för með sér, að nærfellt helmingur kjósenda hefur tjáð vilja sinn um það, að Ísland skuli vera varið land og ekki skuli vera haldið áfram ótímabærum ráðagerðum um það að krefjast uppsagnar varnarsamningsins við Bandaríkin. Það er allsendis ósatt, að í þessum undirskriftum felist áskorun um, að hér á landi verði ævarandi erlendur her.

Það minnir á, að í sjónvarpsþætti um daginn gat formaður Alþb. þess, að fyrir nokkrum árum hefði farið fram undirskriftasöfnun á vegum samtaka, sem honum eru að skapi, og hann gerði þá að umtalsefni, ,að þar hefðu safnast um 20 þús. undirskriftir. Ég hef fyrir satt samkv. áreiðanlegum heimildum, að ekki hafi þá safnast meira en 2–3 þús. undirskriftir í þeim tilgangi að opna landið og gera það varnarlaust. Ég trúi vel þeim upplýsingum og betur en þeim upplýsingum formanns Alþb., að undirskriftirnar hafi verið 20 þús., vegna þess að sannleikurinn var sá, eins og staðreyndir bera vitni um, að þessum undirskriftaskjölum var aldrei skilað til réttra aðila. Forgöngumenn þessarar undirskriftasöfnunar létu undir höfuð leggjast að fara að vilja þeirra, sem skrifuðu undir og óskuðu eftir því við íslensk stjórnvöld að opna landið og gera það varnarlaust. Hver var ástæðan? Skyldi hún ekki hafa verið sú, að árangur þeirrar undirskriftasöfnunar var svo lélegur, að forgöngumennirnir fyrirvörðu sig fyrir.

Ég vil benda á, að undirskriftasöfnun Varins lands er nú talin gagnrýnisverð, en undirskriftasöfnun fyrir nokkrum árum til þess gerð að opna landið og gera það varnarlaust, stofna öryggi þess í hættu, var hins vegar talin af hinu góða, það var allt í góðu lagi með þá undirskriftasöfnun. En það er lærdómsríkt fyrir alþm. að bera saman árangur af hinni fyrri undirskriftasöfnun og þeirri, sem nú hefur átt sér stað með þeim glæsilega árangri, sem raun ber vitni um.

Hv. þm., formaður Alþb., talaði um, að það væru auðkennisnúmer, er gætu verið nafnnúmer, sett á þessar undirskriftir. Ég man ekki betur en Þjóðviljinn, blað þessa hv. þm., hafi fundið sérstaklega að þessari undirskriftasöfnun vegna þess að undirskrifendum hafi ekki verið gert að skyldu að geta um nafnnúmer sitt. Tölvuútskriftin er aðeins gerð í þeim tilgangi að sjá svo um, að það séu aðeins menn, sem hafa kosningarrétt, sem skrifa undir, og enginn skrifi undir oftar en einu sinni.

Ég vil gera það að lokum að umtalsefni, herra forseti, að þeir hv. þm., sem hér töluðu af hálfu Alþb., eru með þessum ræðuhöldum að reyna að ógna Íslendingum frá því að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á framgang mála. Þeir, sem skrifuðu undir áskorunina um varið land, hafa tjáð skoðun sína opið og hreinskilið, og til þeirra skoðana ber Alþ. að taka tillit.