31.10.1973
Neðri deild: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég tel rétt, að það komi fram þegar við 1. umr. þessa máls, að þingflokkur Alþfl. er málinu fylgjandi og mun greiða því atkv.

Þegar frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins var til umr. hér á hinu háa Alþ. fyrir tveim árum, studdi Alþfl. það frv. Það var flutt á fyrsta þingi núv. ríkisstj., og það mun áreiðanlega mega teljast til fremur sjaldgæfari atburða í þingsögunni, eða það var áður reynslan, að stjórnarandstöðuflokkur styddi mikilvægt frv. frá hæstv. ríkisstj. En það var niðurstaða málsins, að Alþfl. studdi frv. um Framkvæmdastofnunina, vegna þess að henni var falið það verkefni að annast íslenska áætlunargerð, sem Alþfl. telur nauðsynlega í íslenskri hagstjórn. Það voru m. ö. o. verkefni Framkvæmdastofnunarinnar, sem gerðu það að verkum, að Alþfl. við lokaafgreiðslu málsins studdi þetta stjfrv.

Að vísu hafði Alþfl. ýmislegt við frv. að athuga, sérstaklega við það stjórnarfyrirkomulag, sem lagt var til, að á stofnuninni yrði. Hann hafði ekkert við það að athuga, að hin æðsta stjórn stofnunarinnar yrði þingkjörin 7 manna n., eins og átt hefur sér stað, og ekki heldur, að forstaða einstakra deilda skyldi vera í höndum sérfróðra manna, eins og líka varð raunin á það, sem Alþfl. taldi óeðlilegt, var, að skipaðir skyldu þrír framkvæmdastjórar fyrir stofnunina, auðsjáanlega út frá stjórnmálasjónarmiðum, enda þótti ljóst af ákvæðum frv., að þrír framkvæmdastjórar skyldu starfa yfir stofnuninni eða við hana og til þess væri ætlast, að þeir væru tilnefndir af stjórnarflokkunum þremur, sem mynduðu þá og mynda nú ríkisstj. Reynslan sýndi, að þetta hugboð Alþfl. var rétt. Það voru skipaðir yfir stofnunina þrír framkvæmdastjórar út frá pólitískum sjónarmiðum. Þessu var Alþfl. andvígur og greiddi atkv., gegn þeim ákvæðum frv., sem að þessu lutu.

Hins vegar var að frumkvæði Alþfl. gerð ein veigamikil breyting á frv. frá því, sem það upphaflega var. Hún var einmitt fólgin í því, að hagrannsóknadeildinni var ætluð nokkur sérstaða innan stofnunarinnar, hún skyldi ekki lúta stjórn hinna þriggja pólitísku framkvæmdastj., heldur heyra beint undir hina þingkjörnu stjórn og þar með ráðh., æðsta yfirmann stofnunarinnar, sem er hæstv. forsrh. Það var Alþfl., sem hafði forgöngu um, að þessi breyting var gerð á frv. Á hana féllust stjórnarflokkarnir, og studdi það að því, að Alþfl. greiddi við lokaafgreiðslu málsins atkv. með frv. Við héldum því fram í málflutningi okkar þá, að í raun og veru væri eðlilegast, að hagrannsóknadeildin, sem gegna á rannsóknarhlutverki einvörðungu, væri alveg sjálfstæð stofnun. Það er nauðsynlegt, að stofnun, sem gegnir hreinum rannsóknarverkefnum og á að vera til ráðuneytis, ekki aðeins fyrir ríkisstj. og opinberar stofnanir, heldur einnig og ekki siður fyrir aðila vinnumarkaðsins, sé sem sjálfstæðust og óháðust í öllum störfum sínum, til þess að hún geti notið sem óskoraðs trausts. Reynslan hefur orðið sú um hagrannsóknadeildina, eins og hæstv. forsrh. tók alveg réttilega fram í framsöguræðu sinni, að hún hefur unnið sér alveg óvenjulegt traust, ekki aðeins allra þeirra opinberu aðila, sem hún hefur annast ráðgjafarþjónustu fyrir, heldur einnig aðila vinnumarkaðsins. Það er áreiðanlega ekki ofmælt, að báðir aðilar vinnumarkaðsins, bæði verkalýðshreyfing og vinnuveitendur, bera fullkomið traust til hlutleysis og starfshæfni forustumanna og starfsmanna hagrannsóknadeildarinnar. Þess vegna tel ég það tvímælalaust vera rétta stefnu, að hún sé gerð að algerlega sjálfstæðri stofnun, hliðstæðri t. d. Hagstofu Íslands, sem einnig gegnir algerlega hlutlægum eða hlutlausum rannsóknarstörfum og upplýsingasöfnun. Slíkt eykur traust á stofnuninni og auðveldar henni að hafa samvinnu við opinbera aðila og aðila vinnumarkaðsins og auðveldar opinberum aðilum og aðilum vinnumarkaðsins að hafa samvinnu við hana. Þess vegna teljum við í þingflokki Alþfl., að sú stefna, sem þetta frv. markar, sé hárrétt og sé í raun og veru í samræmi við það, sem við upphaflega héldum fram við meðferð málsins hér á hinu háa Alþ. fyrir tveimur árum.

Þetta eru í stuttu máli rökin fyrir því, að við Alþfl: menn hér á Alþ. munum styðja að framgangi þessa máls.