26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2369 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vona, að það verði ekki talið óeðlilegt, þótt það sé aðeins gert að umtalsefni hér, að sérlegur sendisveinn eins ráðh., hv. 5. þm. Vesturl., heldur því hér fram, að það sé kennt í norskum skólum, að Íslendingar í Noregi séu hættulegir öryggi þess lands. Þetta var það, sem hv. þm. segir. Ég verð að beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hvort honum hafi borist nokkrar upplýsingar eða kvartanir um það þar frá eða hvort þetta hafi verið rætt frekar.

Hvernig skyldi annars standa á þessari skyndilegu rógsherferð þm. Alþb. á hendur Noregi? Nú er allt sett í gang til þess að reyna að sverta Noreg í augum Íslendinga. Fyrst er það hæstv. iðnrh., svo kemur hæstv. sjútvrh., og þá stendur ekki á þriðja sveininum, — Gísli, Eiríkur og Helgi, þeir eru ævinlega þrír. Það er hálfundarleg starfsemi, sem þessir hv. þm. hafa hér í frammi, og afskaplega ógeðfelld íslensku þjóðinni, því að það vita allir menn, að það hefur engin þjóð staðið eins á bak við Íslendinga og einmitt Norðmenn. Og ég efast um, að það sé hægt að benda á eina einustu þjóð, sem lítur frekar á okkur sem sína jafningja heldur en Norðmenn. Það eru því algerlega óhæfilegar dylgjur, sem þessi hv. þm. fer með, og algerlega í ætt við — ég veit ekki hvað ég á að kalla það — steinbarn, sem hann gengur með í maganum.

Út af því, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði, — hv. 5. þm. Vesturl. hefur barið í borðið, — þá vil ég spyrja þessa þm., úr því að þeir hafa svona miklar áhyggjur af þessari undirskriftasöfnun nú, sem verður áreiðanlega skilað: Hvar eru allar undirskriftasafnanirnar frá „Gegn her í landi“? Hvað var gert við þær? Af hverju eru þeir svona hræddir um, að þetta verði misnotað? Af hverju er ekki gerð grein fyrir því hér? Af hverju er verið að tala um það, um leið og talað er um þessar undirskriftasafnanir, að aðrar undirskriftasafnanir skipti ekki máli? — Þær voru ekki afhentar þeim, sem lofað var að afhenda þær, þegar gengið var með þær milli fólks. Það væri rétt að fá það upplýst.

Ég vil svo almennt talað lýsa yfir undrun minni yfir því, að formanni Framkvæmdastofnunar ríkisins skuli koma það á óvart, þótt menn grípi til nýmóðins aðferða við að skrá fólk. En þetta lýsir kannske þeim litla árangri, sem hefur orðið af þeirri stofnun, að þeir eru allir í gamaldags, úreltum vinnubrögðum, enda hefur árangurinn enginn orðið, og er ein allsherjar upplausn í íslensku efnahagslífi.