26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir var hér áðan full vandlætingar yfir því, að menn væru að ráðast hér á fólk, sem væri statt utan þings, væri ekki statt hér í salnum. Þetta er sá sami þm., sem spratt hér upp utan dagskrár um daginn til þess að ráðast á Magnús Kjartansson ráðh., þegar hann var staddur úti í Svíþjóð, og reyndar byggði hún árás sína á ræðu, sem hún hafði mjög svo ófullkomnar upplýsingar um. Ég sé ekki ástæðu til þess fyrir þennan hv. þm. að býsnast yfir svona löguðu.

Hún spyr full sakleysis: Haldið þið virkilega, að það eigi að fara að nota þessar upplýsingar í pólitískum tilgangi, einhverjum miður þokkalegum tilgangi? Ég vil leyfa mér að koma hér með fullyrðingu: Ég er sannfærður um það, að Sjálfstfl. notar þessar upplýsingar í næstu kosningum. (Gripið fram í.) Ég er alveg sannfærður um það, og ég er hissa á því, að framsóknarmenn skuli ekki gera einhverja aths. við þetta.

Og svo komum við að þeim hausum, sem hæstv. sjútvrh. nefndi um daginn tréhausa Sjálfstfl. (Gripið fram í: Steinhausa.) Eða steinhausa. Hér stendur upp hv. þm. Guðlaugur Gíslason og talar til mín eins og ég hafi verið að gefa í skyn, að hann væri samkv. NATO-kenningum talinn partur af 5. herdeild. Ég ætla að segja hv. Guðlaugi Gíslasyni það, að mér dettur ekki í hug, að honum væri sýndur sá heiður. Ég átti við mig sjálfan og mína flokksmenn og aðra slíka, að við erum taldir samkv. rituali NATO, 5. herdeild, nákvæmlega eins og skoðanabræður okkar í Noregi eru taldir 5. herdeild þar. Og svo virðist hann hafa lagt þann skilning í ræðu mína, að ég hefði verið að mæla með persónunjósnum og það kæmi illa heim við það, sem ég hefði sagt hér einu sinni um mann, sem hét þá Straumfjörð, en núna Jósefsson, og hefði býsnast yfir því, að hann færi hér um landið og héldi næstum því rannsóknarrétt yfir nemendum. Ég býsnaðist yfir því þá, vegna þess að ég tel slíkt allt saman óviðurkvæmilegt.

Að lokum: Hv. þm. Halldór Blöndal stendur hér upp, og það vantar ekki heldur vandlætinguna í hann. Og hann spyr, hvernig á því standi, að við Alþb: menn séum allt í einu farnir að rægja Norðmenn. Ég stóð upp til þess að benda á það, að landar okkar úti í Noregi ertu rægðir í skólum norska hersins. Ég var ekki að tala um norsku þjóðina í því sambandi. Ég var að tala um skóla norska hersins og boðskap norskra hershöfðingja. Ég verð að spyrja: Eru engin takmörk fyrir því, hvað menn geta verið lágreistir, þegar verið er að ræða alvörumál eins og þetta? Er aldrei hægt að standa beinn, þegar um er að ræða rétt okkar sjálfra? Þarf þá alltaf að standa í keng?