26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Taugaveiklunin hjá þeim Alþb: mönnum breiðist út. Hæstv. sjútvrh. hefur hér tekið til máls, og orð hans báru sannarlega vitni um taugaveiklun. Hann sagði, að stefnt væri að persónunjósnum með þessari undirskriftasöfnun. Hér er um fjarstæðukennda staðhæfingu að ræða. Eins mætti segja, að hver og ein undirskriftasöfnun, sem fer fram hér á Íslandi, væri líkleg til að stefna í átt til persónunjósna. Ef menn álíta undirskriftasafnanir leyfilegar, að menn hafi tækifæri til að tjá hug sinn og vilja, þá er með slíkum áburði verið að reyna að koma í veg fyrir það, að menn geti tjáð hug sinn í deilumálum og stefnumótandi málum, sem varða heill og hag alþjóðar. (RA: Þm. veit, að það er verið að tala um tölvuna, en ekki undirskriftasöfnun.) Það er ljóst mál. að þessar undirskriftir eru stílaðar til ríkisstj. og Alþ., og í fyllingu tímans verða þær afhentar forsrh. og forseta Sþ., og væntanlega liggja þessar undirskriftir hér á lestrarsal Alþingis frammi fyrir öllum alþm. og þeim, er þar hafa aðgang að.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að hæstv. sjútvrh. spurði: Hvers vegna má ekki eyðileggja gögnin? Hvað vilja menn halda upp á þessi gögn? Ég verð að segja það eins og er, að ég mundi í sporum forgöngumanna þessarar undirskriftasöfnunar óska eftir því að fá þessi gögn í sínar hendur aftur, vegna þess að hv. formaður Alþb. og aðrir hv. þm. Alþb., þ. á m. hæstv. sjútvrh., hafa svo afskaplega mikið hugmyndaflug, þegar þeir láta sér detta allt mögulegt í hug, hvernig megi nota þessar skrár þeim til tjóns, sem undir áskorunina hafa skrifað. Það skyldi þó ekki vera samkv. kokkabókum kommúnista og þeirra Sovétmanna, sem eru alkunnir að slíkum aðferðum.

Ég tel þess vegna, að það sé svo, að við alþm. eigum og okkur beri að taka þessa áskorun mjög alvarlega til íhugunar, og þ, á m. hv. þm. Alþb., vegna þess að það er ekki á hverjum degi, sem helmingur þeirra Íslendinga, sem kosningarrétt hafa, sendir áskorun til Alþingis og ríkisstj. Þessir Íslendingar vita það, að nafn þeirra er bundið þessari skoðun og þessari sannfæringu þeirra, þeir munu standa við þá sannfæringu og þá skoðun, og þeir munu ekki láta ógnanir Alþb.-manna hræða sig frá því að halda fast við þá sannfæringu sína.