26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

Umræður utan dagskrár

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um annað en að taka þátt í þessum umr., en mér leiðist, að það skuli ekki vera fleira af venjulegu fólki til að hlusta á þessar annars mjög fróðlegu umr. hér í Sþ.

Það hefur glöggt komið fram, að forustumenn Sjálfstfl. gera engan greinarmun á venjulegri undirskriftasöfnun og tilraunum til persónunjósna af hinu versta tagi. Ragnhildur Helgadóttir taldi sig mega upplýsa hér í umr. áðan, að það hefði verið farið út í þessa tölvuvinnslu vegna þess, að samtökin Varið land hefðu ekki því starfsfólki og áhugafólki á að skipa, að þau gætu farið yfir skrárnar og leiðrétt þær, ef um rangfærslur væri þar að ræða. Þetta virðist mér heldur ósennileg skýring, þegar haft er í huga, að það er mikill fjöldi manns, sem tekur þátt í þessari herferð Varins lands, og maður skyldi ætla, þegar haft er í huga allt það fjármagn, sem streymt hefur inn til samtakanna, því að allt hefur þetta kostað mikið fé, að stór fjöldi fólks standi á bak við allar þær fjárgjafir.

Nei, maður hlýtur að ætla, að það sé tilgangur, sem valdi því, að út í þetta er farið. Það er t.d. býsna athyglisvert, að einn af aðalforsvarsmönnum þessarar undirskriftasöfnunar er eini starfandi erindreki Atlantshafsbandalagsins á Íslandi. Það væri býsna hentugt fyrir slíkan fulltrúa Atlantshafsbandalagsins að fá að vinna þessa undirskriftasöfnun í slíkt tölvukerfi.

Eins langar mig aðeins að taka undir það, sem hv. þm. Jónas Árnason hefur sett hér fram í umr., þ.e.a.s. þá alvarlegu atburði, sem við höfum verið að frétta af frá Noregi s.l. vikur. Hefur komið í ljós, að NATO-herinn þar hefur verið að halda heræfingar til þess að verjast árásum innanlands frá, eins og segir, þ.e.a.s. árásum vinstri sinnaðra samtaka og þ. á m. samtaka íslenskra stúdenta í Osló. En því miður er þetta dæmi frá Noregi ekki það eina, sem við fréttum af frá löndum Atlantshafsbandalagsins. Við vitum, að eftir valdarán herforingjanna í Grikklandi, að mig minnir 1967, kom í ljós, að stuðst hafði verið þar einmitt við áætlun Atlantshafsbandalagsins í þessum efnum, og svona upplýsingar hafa einnig komið frá NATO-ríki eins og Ítalíu. Hver veit nema einhverjar slíkar áætlanir séu til á Íslandi, og kannske má í því sambandi finna tengslin við þann starfsmann þessara undirskriftasöfnunar, sem jafnframt er starfsmaður Atlantshafsbandalagsins.

Ég ætla ekki að orðlengja þessar umr. mikið, en það er býsna fróðlegt fyrir íslenskan almenning að fá að skyggnast inn í huga þeirra sjálfstæðismanna, sem vilja greinilega koma í veg fyrir það, að settar séu hömlur við persónunjósnakerfi á Íslandi. Við skiljum kannske betur eftir þetta fyrri afstöðu þeirra, er fréttist um víðtækar persónunjósnir og spillingu í bandarísku stjórnmálalífi. En það virðist ekki hafa haft hin minnstu áhrif á afstöðu Sjálfstæðismanna til forustu Bandaríkjanna í sambandi við vestrænt lýðræði. Þar hefur enginn blettur á fallið, og maður getur vel haldið, að þessir fulltrúar Sjálfstfl. teldu sér sóma að því að taka þátt í slíku stjórnmálastarfi.