26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Sá glæsilegi árangur, sem samtökin Varið land hafa náð, virðist hafa náð hámarki sínu hér á Alþ. í dag. Sá fjöldi undirskrifta, sem hefur safnast, sýnir sig hafa farið svo í taugar þeirra Alþb: manna, að þeir hafa ekki kunnað að dylja vonbrigði sín, heldur talið ástæðu til þess að koma hér inn á Alþ. til þess að ræða um löggjöf vegna notkunar upplýsinga varðandi undirskriftir. Einhvern tíma hefði ég haldið, að þeir ráðamenn þingsins í dag hefðu ekki talið ástæðu til þess að eyða tíma þingsins utan dagskrár til þess að ræða slíka lagasetningu. En þessi taugaveiklun,

sem hér hefur komið fram, staðfestir þann mikla árangur, sem þessi samtök hafa náð. Það er meiri hluti kjósenda í landinu, sem hefur lýst skoðun sinni, skorað á ríkisstj. og Alþ., og þeir aðilar, sem þola það ekki, hafa sýnt taugaveiklun sína hér í dag.

Að afhenda þau gögn, sem frá tölvunni koma, til þess að eyðileggja og ekki sé hægt að nota einhver gögn í framtíðinni, þetta eru auðvitað hlutir, sem þessir aðilar geta verið með í sínum hugarheimi. En gera menn sér ekki grein fyrir því, að þau skjöl, sem lögð eru inn á lestrarsal Alþingis, eru komin inn í skjalasafn ríkisins, verða þar geymd og eru hverjum manni til aflestrar, hvenær sem er í framtíðinni? Það, sem hér er verið að ræða um, er því aðeins til þess að finna eitthvað upp til að reyna að berjast gegn þeim glæsilega árangri, sem þetta fólk hefur náð, ef það mætti verða til þess með einhverju móti að vega gegn þessu. En það tekst þeim ekki. Þetta fólk hefur þegar sagt sína skoðun, og Alþ. og ríkisstj. komast ekki hjá því að taka tillit til þess.

Út af orðum hv. þm. Sigurðar Magnússonar, þar sem ég veit, að hann á við ákveðinn mann hér í Reykjavík, þá get ég upplýst hann um það, að sá maður er ekki einn af þeim, sem eru í forustu fyrir samtökunum Varið land.

Ég tel mjög gott, að þessar umr. skyldu fara fram hér í dag, til þess að þjóðinni sé ljóst, hver taugaveiklunin er orðin í Alþb.- mönnunum vegna þess árangurs, sem Varið land hefur náð.