26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal aðeins hafa þetta örstutta aths. Hv. fulltrúar Sjálfstfl. hafa mikið talað hér um taugaveiklun og hversu alvarlegt ástand sé á taugum Alþb: manna. Það mætti halda, að hv. þm. Halldór Blöndal hefði þá í sér taugar Alþb.-manna, ef miða mætti við ræðu hans hér áðan. Hann vék að því, að hv. 5. þm. Vesturl. hefði líkt Guðmundi Daníelssyni við Solzhenitsyn. Það, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði, var, að íslendingar mættu þakka fyrir, að einn hv. þm, hér inni frá Suðurlandi réði ekki yfir nema einu blaði á Selfossi. Auðvitað er ákaflega mikill munur á því, hvað gert hafi verið við hugverk Guðmundar Daníelssonar eða Solzhenitsyns. En það er að mínu mati aðeins stigsmunur. Það hefði ekki orðið svo mikill hávaði út af þessu, ef handritið að bókinni hefði verið brennt eða því fleygt í Ölfusána þarna eystra, eins og sagt er, að hafi verið gert við Suðurland.

Forsvarsmenn Varins lands hafa lagt í 400 þús. kr. kostnað til þess að koma í veg fyrir ónákvæmni, þ.e. að nöfn manna komi ekki fyrir oftar en einu sinni á undirskriftalistunum. Hver er mórallinn í þeim mönnum, sem eru svo ákafir í að berjast fyrir því, að herinn verði, að þeir reyni að skrifa nöfn sín sem oftast undir listann? Og það mætti líka segja: Það er ónákvæmni á fleiri sviðum, sem þyrfti að reyna að koma í veg fyrir, eins og t.d. þegar einn maður skrifar undir þessa lista fyrir marga.