27.02.1974
Efri deild: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2376 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

239. mál, gjaldmiðill Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Sjálfsagt er þetta frv. í takt við tímans rás. En mér kom í hug gamalt spakmæli: Græddur er geymdur eyrir. — Líklega verður því nú snúið við og sagt: Glötuð er geymd króna, — miðað við þá þróun, sem verið hefur undanfarin ár.

Efni þessa frv. er ekki stórkostlegt í sníðum, en þó markar það nokkur tímamót í sögu okkar myntsláttu, þegar við fellum nú niður notkun aura manna í meðal almennt í viðskiptum. Sjálfsagt er, eins og hæstv. ráðh, sagði, ekki annað að gera en taka þessa ákvörðun, og efnislega er ég ekki á móti frv. sem slíku, því að mér er kunnugt um það, að margir aðilar í viðskiptalífinu hafa nú þegar notað þessa aðferð í raun, hækka ef fram yfir er hálfa krónu og fella niður, ef minna er en 50 aurar, þannig að hér er nánast um staðfestingu á venju margra aðila í viðskiptalífinu að ræða. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessari þróun, og ég skal verða við orðum hæstv. ráðh. að fara ekki að blanda í þetta stærra máli, ákvörðun um að skera heldur aftan af og mynda nýja, þunga krónu. Það er miklu stærra mál. En ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, að orðtakið gamla virðist vera orðið dautt með þessari ákvörðun.