27.02.1974
Efri deild: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2377 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

247. mál, skattaleg meðferð verðbréfa

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 423 er um skattalega meðferð á verðbréfum, sem ríkissjóður selur, og er flutt eingöngu vegna þess, að við fjárlagaafgreiðsluna í vetur var tekin inn á fjárlög heimild til að selja verðbréf, eins og verið hefur, vegna þess lánsfjár sem ríkissjóður þarf að afla sér til ákveðinna ríkisframkvæmda. Hins vegar á með þessu frv. að ákveða, að þau hlunnindi eða þau réttindi, sem þau verðbréf njóta og hafa notið á undanförnum árum, verði framlengd og gildi einnig um þau bréf, sem gefin verða út samkv. því, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Hér er um að ræða að gera þetta með þeim hætti, að framvegis gildi það um þau ákvæði, sem kynnu að verða í fjárl. um útgáfu spariskírteina og happdrættisskuldabréfa ríkissjóðs, samkv. heimildum í fjárl., að þau njóti þeirra réttinda, sem áður hafa gilt þar um. Hér er því ekki um neitt nýmæli að ræða, heldur aðeins formbreytingu vegna þeirrar ákvörðunar að láta framkvæmdaáætlunina fylgja fjárlagaafgreiðslunni.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.