27.02.1974
Neðri deild: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2379 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, er tilgangurinn með þessu frv. aðeins sá að ákveða gjaldtöku til þeirrar ráðstöfunar, sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. verðlækkunar á olíu til húsakyndingar. Hefur þótt nauðsynlegt að flytja sérstakt frv. um gjaldtökuna, til þess að hún geti átt sér stað nú um næstu mánaðamót, þegar það gjald að öðru leyti fellur niður, sem er gert ráð fyrir, að verði varið í þessu skyni. En þá mundi um leið skapast nokkru rýmri tími til að athuga um það, hvaða form eða fyrirkomulag væri best hægt að hafa á því, hvernig koma á þessari endurgreiðslu til þeirra, sem hér eiga hlut að máli.

Í frv. er gert ráð fyrir því, eins og hv. 1. þm. Sunnl. minntist á, að þessi gjaldtaka sé vegna niðurgreiðslu á hitunarkostnaði íhúðarhúsnæðis. En að sjálfsögðu er það fullkomlega opið, þegar ný lög verða sett um fyrirkomulag á þessari greiðslu, það er ekkert, sem getur bundið það, að þá verði ekki annað ákveðið. Hins vegar er því ekki að neita, að þessi gjaldtaka er miðuð við þetta og einnig það fyrirkomulag, sem er varðandi meðferð á þessu gjaldi að öðru leyti. En það er sem sagt ljóst, að með samþykkt þessa frv. er ekki á neinn hátt skotið loku fyrir það, hvaða ákvæði kynnu að verða sett um ráðstöfun gjaldsins í því frv., sem sett yrði síðar. En gjaldtakan er við þetta miðuð, að hér sé um fjáröflun að ræða til þess að lækka hitunarkostnað í íbúðarhúsnæði.

Ég vænti sem sagt, að samstaða geti orðið um að afgreiða þetta frv. út úr d. í dag og helst af öllu úr Ed. líka, svo að gjaldið þurfi ekki að falla niður neinn tíma. Sýnist þá vera nægur tími til þess að ganga frá því frv., sem lagt verður fram um ráðstöfun á gjaldinu, og verður haft samráð við fulltrúa allra stjórnmálaflokka um, hvernig það frv. verður úr garði gert.