27.02.1974
Neðri deild: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Eins og menn heyra af þeim ræðum, sem hér eru nú fluttar, og sjá má af nál., hefur verið gert samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu á þessu máli. Því má búast við, að umr, um frv. verði tiltölulega lítilfjörlegar og muni því miður ekki varpa ljósi á tildrög frv. og þá málsmeðferð, sem hér er viðhöfð. Ég hef þó talið eðlilegt, að stjórnarandstaðan hefði átt að grípa öðruvísi á þessu máli og skoða það í stærra samhengi, því að sannleikurinn er sá, að málatilbúnaður þessi er eitt af mörgum atvikum, sem þessa dagana renna stoðum undir þá staðreynd, að ríkisstj. hefur ekkert bolmagn til að stjórna þessu landi.

Hér í d. ríkti í gær fullkomin ringulreið og óvissa vegna þessa máls og afgreiðslu þess, og ég tel. að vinnubrögðin í gær hafi verið enn einn votturinn um vanmátt og samtakaleysi ríkisstj., þegar hún frestaði hér hvað eftir annað afgreiðslu málsins og síðan til dagsins í dag, og var að sjálfsögðu sú einfalda skýring á því, að þeir í stjórnarherbúðunum, og þeir, sem að þessu frv. standa, vissu ekki fyrir víst, hvað þeir voru raunverulega að leggja fyrir þingið.

Nú gerist það, að þegar á að hrinda málinu með kappi í gegnum þingið í dag, þá stendur einn af nm., sem undirbjuggu frv., upp og spyrst fyrir um, hvernig eigi að skilja frv. Og það er út af fyrir sig merkileg fsp., vegna þess að í 1. málsl. 1. pr. segir, með leyfi forseta: „Til að draga úr áhrifum verðhækkunar á olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis“ o.s.frv. Síðan er staðið upp og spurt, hvort ekki megi skilja orðalagið „íbúðarhúsnæði“ með öðrum hætti en stendur með einföldum hætti í frv. Og til þess að bæta gráu ofan á svart stendur hæstv. viðskrh. upp og segir: Jú, þetta er alveg rétt, það á að skilja þetta öðruvísi en stendur í frv. Það er alveg rétt, segir hann og tekur undir það, að þó að það standi íbúðarhúsnæði í frv., þá eigi alls ekki að skilja það þannig, það gildi um allt húsnæði, og hann segir, að það sé ekkert, sem bindi það, að það þurfi að halda því eingöngu við íbúðarhúsnæði. En samt á að fara með málið svona í gegn.

Ég vil leyfa mér að upplýsa, að í fyrstu mun hugur ríkisstj. hafa staðið til þess að afla tekna til niðurgreiðslu á olíuverðinu með sérstökum skatti á þá aðila, sem njóta húshitunar með öðrum hætti en með olíukyndingu. M.a. voru orðaðar hugmyndir um sérstakan hitaveituskatt. Þá mun jafnframt hafa staðið til að ákveða 1% útsvarsálagningu í líkingu við það, sem gert var til tekjuöflunar fyrir Viðlagasjóð, og var síðan ætlunin að láta sveitarfélögin innheimta það gjald. Það var ekki fyrir tilstilli hæstv. ríkisstj., að horfið var frá þessum ráðagerðum. Þar réð andstaða stjórnarandstöðunnar.

Ríkisstj. er ljóst, að hún hefur ekki afl til þess að koma neinum frumvörpum í gegnum þingið, sem einhverju máli skipta, nema með aðstoð stjórnarandstöðunnar. Og ég held, að það hefði orðið þjóðinni holl lexía, ef hún hefði fengið tækifæri til að sjá það svart á hvítu, hvað fyrir ríkisstj. vakti í þessu máli. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar, að það hafi ekki verið skynsamleg ráðagerð af hálfu stjórnarandstöðunnar að koma í veg fyrir, að sú tillögugerð sæi dagsins ljós.

Þessu til viðbótar vil ég upplýsa, að í bígerð mun hafa verið að ráðstafa þeim tekjum, sem með þessari söluskattshækkun fást, með styrkveitingum eftir ákveðinni höfðatölureglu. Það hafði meira að segja verið útbúið frumvarpsuppkast, sem gerði ráð fyrir þeirri aðferð, að hver fjölskylda fengi greiddan styrk eftir fjölskyldustærð. Ætlunin hefur m.ö.o. verið að útbúa nýtt styrkjakerfi, útdeila peningum pr. höfuð án tillits til þarfa, olíunotkunar eða annarra aðstæðna. Þegar í ljós kom, að andstaða var gegn slíku frv., var sú hugmynd dregin til baka, a.m.k. í bili, og farin sú leið, sem hér liggur fyrir framan okkur.

Að mínu viti er þessi leið hálfu verri en að koma til dyranna eins og menn eru klæddir. Í stað þess að segja, hvernig þessu fé skuli ráðstafað, er nú lagt fyrir hv. Alþ. að samþykkja þessa tekjuöflun. Hv. þm. eiga að gleypa hana hráa, og með aðstoð stjórnarandstöðunnar á að fylla hér út ávísun og segja við ríkisstj.: Gerið svo vel, nú er það ykkar að ákveða, hvernig þessum 700 millj. skuli ráðstafað. — Að vísu er sagt, að það eigi að gera í samráði við stjórnarandstöðuna. En ég spyr: Hvaða menn og hvaða aðila í stjórnarandstöðunni? — Ríkisstj. þarf aðeins eitt atkv. til viðbótar frá stjórnarandstöðunni til að koma sínum málum í gegnum d. og gegnum þingið, og hvort sem það á að gerast með lögum eða öðrum hætti, þá skiptir það máli, hvort hún fær þetta eina atkv. sér til stuðnings til þess að koma sínum hugmyndum í gegn eða ekki. Ég spyr t.d. þá þm. Sjálfstfl., sem hafa verið í fullri andstöðu við þær hugmyndir, sem komu fram um ráðstöfun á þessu fé, og reyndar tjáð sig um, að það væri forsenda fyrir stuðningi við málið, að þeir fengju að hafa hönd í bagga með, hvernig því yrði varið, — ég spyr þessa menn: Verður haft samráð við þá, og hver er þeirra afstaða, þegar og ef t.d. ríkisstj. snýr sér til Alþfl.? — Og hver verður afstaða Alþfl., ef ríkisstj. snýr sér til Sjálfstfl. og hefur samráð við hann án þess að tala við Alþfl.? Og hver verður afstaða Alþfl. eða Sjálfstfl., ef ríkisstj. snýr sér til Bjarna Guðnasonar og hefur samráð við hann um, hvernig ráðstafa skuli þessu fé? Sú ráðstöfun getur orðið í fullri óþökk fjölmargra, sem nú hyggjast styðja þetta frv. í þeirri góðu trú, að við þá verði höfð samráð. Ég óska þeim þm. til hamingju, þegar í framhaldi af þessu frv. verður búið að samþykkja eitthvert risavaxið og meingallað styrkjakerfi til úthlutunar á þessum 700 millj. kr. Hér er ríkisstj., sem sannanlega hefur ekki meirihlutavald á þingi, að skáskjóta máli í gegn í skjóli stjórnarandstöðu, sem telur sig taka ábyrga afstöðu.

Það er rétt, að það er ábyrg afstaða að horfast í augu við vandamálin, olíuhækkunina og þann aukna hitunarkostnað, sem henni er samfara. Og ég vil fyrir mitt leyti taka þátt í því að leysa þann vanda. Að því leyti stóð ég að því bréfi, sem þingflokkur Sjálfstfl. ritaði ríkisstj., þegar flokkurinn bauð upp á samstarfi í þessum efnum. Enda þótt ég vilji leysa vandann og hafi fullan skilning á honum, er ég á móti þeirri aðferð, sem hér er viðhöfð og felst í þessu frv. Ég er andvígur þessu frv. og þeim vinnubrögðum, sem hér eru viðhöfð, og því mun ég greiða atkv. gegn þessu frv. Og rök mín eru m.a. eftirfarandi:

Í fyrsta lagi hefur hvorki mér né öðrum verið boðið upp á neina valkosti í þessum efnum. Hér er sama aðferð notuð og áður: annaðhvort fáið þið þennan skattinn eða einhvern annan enn þá verri. Þetta eru hvimleið vinnubrögð og óverjandi með öllu. Og það er til háðungar, að stjórnarandstaða, sem gagnrýnt hefur þessa ríkisstj. fyrir öngþveiti í efnahagsmálum, skuli láta bjóða sér upp á þessi vinnubrögð. Þessi ríkisstj. hefur þrefaldað fjárlög, hún stuðlar að geigvænlegri spennu í framkvæmdum, pínir fólk með sköttum, eyðir hverri krónu og nær þó vart endum saman. Útflutningsverðmæti eru meiri en dæmi eru til áður. Þjóðarframleiðsla vex ár frá ári, en ríkissjóður stendur eftir sem áður galtómur vegna óráðsíu og ábyrgðarleysis ríkisstj. Og svo þegar eitthvað bjátar á, eins og núna, þegar stjórnvöld standa frammi fyrir því að mæta erfiðleikum, sem þó eru ekki meiri en hver ríkisstj. getur búist við, þá er ekki í önnur hús að venda en að leggja nýja skatta á þjóðina. Þá fórna menn höndum og stilla þjóðinni og þm. upp við vegg og segja: Þennan vanda verðum við að taka á okkur með nýjum sköttum. — Það er eins og engum manni detti í hug, að slík áföll geti átt sér stað, að ríkissjóði sé nauðsyn að safna einhverju fé í varasjóð til þess að mæta skakkaföllum. Mér er ekki kunnugt um, að rætt hafi verið um önnur úrræði eða annað en nýja skatta. A.m.k. hafa þau úrræði ekki verið sýnd mér eða mínum þingflokki. Meðan það hefur ekki verið gert, mótmæli ég slíkum afarkostum og greiði atkv. gegn slíkum vinnubrögðum.

Í öðru lagi er sá vandi, sem skapast af olíuhækkuninni, engan veginn leystur með þessu frv. Hér er um að ræða þá einföldu aðferð að seilast lengra og neðar í vasa borgaranna, rétt eins og þeir vasar séu ótæmandi, án þess að einu orði sé minnst á það, hvernig eða hvort koma megi varanlega í veg fyrir þá mismunun, sem skapast hefur í hitunarmálum. Ef þetta væri frv., sem fæli í sér fyrirhugaðar framkvæmdir um hitaveitu og rafvæðingu, ef fyrir lægju einhverjar raunhæfar áætlanir um, að taka ætti fyrir vandamálin á næstu misserum, þá væri þetta frv. verjandi. En um það er ekki stafkrókur í frv., aðeins till. um að fylla út tékka stílaðan á reikning skattborgaranna. Það er engin trygging fyrir því, að þessi söluskattshækkun verði afnumin að ári, — ekkert, sem bendir til annars en þannig verði þetta framlengt ár frá ári. Auðvitað þarf ekki að spyrja að því, að sú gamla saga endurtekur sig, að eftir að skattprósentan er komin í gildi, verður hún ekki afnumin. Ef menn verða varir við leka í húsum sínum, gera þeir ekki það eitt að fá til sín menn með fötu til að bera út vafnið. Þeir kalla á menn til viðgerðar á lekanum. Hér er höfð sú aðferð Bakkabræðra að kalla á mennina með föturnar, en ekkert hirt um viðgerðina. (Gripið fram í.) Þetta er Bakkabræðraaðferð, sagði ég. Hún er álíka og þegar þeir báru inn sólskinið, það er rétt.

Í þriðja lagi tel ég alls ekki tímabært að taka ákvörðun um þetta mál nú í svo mikilli skyndingu. Það liggur fyrir, að fyrir Alþ. mun nú næstu daga verða lagt frv. um 5% hækkun á söluskatti, og má gera ráð fyrir, að þetta frv. verði lagt fram eftir 2–3 daga. Hver verða örlög þessa frv.? Hvernig hyggst ríkisstj. standa að því? Og hvernig hyggst stjórnarandstaðan taka á því máli? Það var haft eftir félmrh. Birni Jónssyni í kvöldfréttum í fyrradag, þegar var verið að ræða við hann um kjarasamningana, að hann tryði því ekki, að neinn hér á þingi stæði í veginum fyrir frv., sem væri forsenda kjarasamninga, stæði í veginum fyrir 5% söluskattshækkun. Hver þorir að vera á móti því? sagði ráðh. Þessi ummæli lýsa raunar í hnotskurn þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð eru í þessari ríkisstj., og þau lýsa því áliti, sem ríkisstj. hefur á stjórnarandstöðunni. Fyrst eru gefnar yfirlýsingar um lagabreytingar án samráðs við stjórnarandstöðuna, og svo er hneykslast á því, að stjórnarandstaðan skuli dirfast að vera á móti því. Ríkisstj. telur sig geta ögrað og hótað stjórnarandstöðunni með afarkostum og sagt: Annaðhvort þetta, sem við erum búnir að semja um utan þings og án samráðs við ykkur, eða þá allt er komið í voða. — En svo, þegar þarf á stjórnarandstöðunni að halda, standa þessir ráðh. hér upp og segja blíðlega: Að sjálfsögðu munum við hafa samráð við ykkur. — Ég er þeirrar skoðunar, að hug ríkisstj. lýsi betur það, sem kom fram í orðum félmrh. í útvarpinu, heldur en þau fögru loforð, sem hér eru gefin um samráð, — þeim hug, sem segir nánast: Við tölum við stjórnarandstöðuna, þegar okkur sýnist. — Nei, ég spyr nú: Hvað ætlar stjórnarandstaðan að láta bjóða sér af slíkri tvöfeldni og slíkum hráskinnaleik?

Menn haga sér hér eins og þetta séu tvö óskyld mál, söluskattur núna á miðvikudegi og söluskattur á föstudegi eða mánudegi. Hér er um það að ræða að afla ríkissjóði tekna í einu og öðru skyni. Og maður getur ekki sagt a, en neitað að segja b. Það á að vera krafa stjórnarandstöðunnar að fá upplýsingar um meðferð þessara mála beggja, áður en hún ljær máls á því að hækka söluskattinn núna. Í mínum augum kemur ekki til mála að afgreiða 700 millj. kr. tekjufrv. til ríkisstj., fyrr en eitthvað frekar liggur fyrir, hvernig ríkisstj. hyggst leysa það efnahagsöngþveiti, sem nú blasir við. Og ég tel sjálfsagt og eðlilegt, að þessi mál haldist í hendur, þegar verið er að ræða á annað borð um svo stórfelldar tekjuleiðir. Við skulum svo sjá til, hvaða samráð ríkisstj. hefur við stjórnarandstöðuna um þær leiðir, sem hún vill fara í því skyni að létta á almennri skattpíningu og draga úr verðbólgu, áður en þetta mál fær afgreiðslu.

Í fjórða lagi er þetta frv. sem slíkt, ef maður ræðir það sérstaklega eins og það liggur fyrir, gerandi ráð fyrir, að það verði samþykkt, þá er það allsendis ófullnægjandi. Það er opið í báða enda. Þingfl. Sjálfstfl. og þingfl. Alþfl. hafa báðir látið í ljós skilning á þeim erfiðleikum, sem skapast hafa vegna hækkunarinnar á olíuverðinu. En það er ekkert leyndarmál, að jafnframt því sem einstakir þm., einkum í stjórnarandstöðunni, hafa léð máls á þessari söluskattshækkun, þá er það jafnmikilvægt í þeirra augum, hvernig þessum olíupeningum verði ráðstafað. Nú er búið að kaupa þá til fylgis við þetta frv. með því að lofa því að hafa samráð við stjórnarandstöðuna. En ég spyr þessa sömu hv. þm.: Hver verður þeirra aðstaða, eftir að þetta frv. er samþykkt? Hvað verður þá boðið upp á? Tvo slæma kosti? Þrjá slæma kosti? Og hverju ræður þingfl. Sjálfstfl. einn sér eða þingfl. Alþfl. einu sér, eða Bjarni Guðnason einn sér um þá málsmeðferð? — Ég held, að úr því að ríkisstj. þarf á stuðningi stjórnarandstöðunnar að halda í þessu máli, hefði stjórnarandstaðan átt að notfæra sér það og ganga frá því máli kirfilega og sameiginlega, þannig að hún hefði úrslitaáhrif á það, hvernig með þessa peninga verði farið. En hér er verið að snúa á stjórnarandstöðuna, láta hana taka þetta inn í smáskömmtum, og afleiðingin er sú, að ríkisstj., sem stjórnarandstaðan segir þjóðinni, að sé óalandi og óferjandi, situr áfram og væntanlega brosir í laumi.

Það vaknar að sjálfsögðu sú spurning, til hvers stjórnarandstaðan sé, hvaða hlutverki hún á að gegna. Eru það æskileg vinnubrögð yfirleitt, að stjórnarandstaðan sitji að samningum við ríkisstj. til þess að segja henni, hvernig hún eigi að leggja málin fyrir, til þess að hún fái þau samþykkt? Erum við hér í stjórnarandstöðu til þess að leiða þessa ríkisstj. yfir þær torfærur, sem hún hefur að mestu leyti blaðið upp sjálf? Eða hvert er það aðhald, sem stjórnarandstaðan á að veita, þegar samið er við stjórnina fyrir fram um umdeilanlegt mál og það síðan keyrt af ofurkappi í gegnum þingið? Þessir forkólfar ríkisstj. hafa talað digurbarkalega um, að þeim sé engin hætta búin hér í þinginu, þeir muni skáskjóta málum þar í gegn. Og hvað eru þeir að gera í þessu máli? Þeir eru einmitt að skáskjóta einu slíku máli í gegn og það með dyggri aðstoð stjórnarandstöðunnar. Það er sagt við okkur nú, að þetta mál sé sérstaks eðlis, óvænt og alvarleg hækkun á olíuverði, og þessi hækkun sé slíkt áfall og það skapist slíkt misræmi í lífskjörum fólks, að þjóðin verði öll að axla þá byrði. Og rökin fyrir því að setja niður deilur milli stjórnar og stjórnarandstöðu eru þau, að hér séu utanaðkomandi, óviðráðandi atvik valdandi. Og síðan koma mennirnir með ábyrgðartilfinninguna og segja okkur, að nú sé þörf á samstöðu og málið sé hafið yfir gagnrýni. En er þetta svona einfalt? Ef nauðsyn ber til að skapa allsherjar samstöðu um þann vanda yfirleitt, sem stafar erlendis frá, hvaða samræmi er þá í því að flytja hér ræður um getuleysi ríkisstj. í efnahagsmálum, varðandi verðbólguna í landinu, þegar t.d. viðurkennt er af flestum, að af rúmlega 30% verðbólgu á síðasta ári eru 12% vegna erlendra verðhækkana? Er þá ekki kominn tími til, að ábyrg stjórnarandstaða slái af gagnrýni sinni um 12%? Það mætti líka spyrja: Hver voru viðbrögð fyrrv. stjórnarandstöðu við þeim þjóðarvanda, sem hér skapaðist á árunum 1967 og 1968, þegar verðfall erlendis átti stærstan þáttinn í því, að þjóðartekjur minnkuðu um 60% ? — Þau viðbrögð voru ekkert sérstaklega kærleiksrík, og þurfti þó ekki aðstoð þeirrar stjórnarandstöðu, sem þá var, til þess að gera viðeigandi og réttar ráðstafanir. Þá sátu þessir karlar ekki og hlógu hér eins og fífl yfir ræðum manna.

Fyrrv. stjórnarandstaða var nefnilega sannarlega ekki á þeim buxunum að hlaupa til og samþykkja ráðstafanir, sem vissulega komu illa við þjóðina þá, rétt eins og söluskattshækkunin gerir nú, og er þó ólíku saman að jafna. Ég er ekki að halda því fram, að stjórnarandstaðan eigi að vera á móti bara til að vera á móti. Her er um að ræða vanda, sem þarf að leysa. En ég tel, að ríkisstj. hefði ekki verið vorkunn í því mikla góðæri, sem nú ríkir, að mæta þessum vanda án þess að leggja á nýjar álögur. Mál af þessari stærðargráðu ættu auðveldlega að geta fallið í ramma fjárlaga eða núverandi tekjuöflun ríkisins, án þess að stofna þurfi til hækkaðra skatta. Það er ekki sök stjórnarandstöðunnar, ef ekki er mögulegt að benda á slík úrræði nú. Það er vesaldómur og óráðsía þessarar ríkisstj., sem þar um veldur. Ef ríkisstj. getur ekki mætt skakkaföllum, sem ekki eru meiri að vöxtum en þetta, með öðrum hætti en frv. sem þessu, þá á hún að segja af sér. Og ef ríkisstj. getur ekki fengið slík frv. samþykkt nema með aðstoð stjórnarandstöðu, á hún enn frekar að segja af sér. Stjórnarandstaðan vill vera ábyrg í þessu máli. Og hún, að mér skilst, vill skilja erfiðleikana. En hún gerir bara eitt annað í leiðinni. Hún framlengir lífdaga þessarar ríkisstj. Og ef stjórnarandstaðan vill vera ábyrg, þá á hún auðvitað að fella þessa ríkisstj., vegna þess að það er ábyrgðarleysi að halda hlífiskildi yfir stjórn, sem vegna óstjórnar og eyðslusemi er ekki fær um að ráða fram úr minni háttar vandamálum, eins og hér um ræðir.

Herra forseti. Ég lýk senn máli mínu. Ég lýsti þeirri skoðun minni, að sjálfsagt sé að jafna mismunun og koma til móts við þann kostnaðarauka, sem hækkun á olíuverði hefur í för með sér fyrir marga landsmenn. Ég hef hins vegar leitt rök að því, að þetta tekjuöflunarfrv. er og getur ekki annað en verið í tengslum við þá söluskattshækkun, sem boðuð hefur verið næstu daga, — í tengslum við lausnina á efnahagsvandanum í heild sinni. Ég hef mótmælt þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð hafa verið við undirbúning málsins. Ég hef lýst eftir fleiri möguleikum, fleiri úrræðum, og ég tel það sök ríkisstj. og hennar stefnu í fjármálum ríkisins, ef ekki er um önnur úrræði að ræða en hækkaðan söluskatt. Og síðast, en ekki síst er hér bent á, að þm., sér í lagi þm. stjórnarandstöðunnar, eru að kaupa hér köttinn í sekknum með því að samþ. þetta frv. Þeir eru að koma til móts við þá fyrirætlun ríkisstj. að sitja áfram við völd með þeirri aðferð að skáskjóta málum gegnum þingið. Í því felst ábyrgðarleysi, en ekki ábyrgð. Þingfl. hafa gert með sér samkomulag um stuðning við þetta frv. Ég tek ekki þátt í því samkomulagi, og enda þótt ég rói einn á þeim báti, þá mun ég ekki breyta afstöðu minni. Ég greiði atkv. gegn þessu frv.