27.02.1974
Neðri deild: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2393 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég held, að við þekkjum báðir Guðmund lásagleypi, ég og hv. þm. Hins vegar eru til fleiri viðurnefni á gömlum togarasjómönnum og þ. á m. þau, sem ég skal fara með fyrir hv. þm. annað kvöld. En ósköp er leiðinlegt, þegar þessi hv. þm. er að ásaka aðra þm. fyrir bull í salnum. Maðurinn er frægastur fyrir þetta sjálfur hér í sölum Alþingis, frá því að hann kom hingað fyrst á þing fyrir — mér liggur við að segja tugum ára, með eitthvað 18 atkv. á bak við sig, eitthvað þess háttar, og flutti till. um leturborð á ritvélum. (JónasÁ: Atkv. voru 67.) 67 voru atkv., sem maðurinn hafði. Það er ekki lítið. (Jónas Á: Það var talinn farmur í einn strætisvagn.) Já, það hefur líklega verið sá strætisvagn, sem gengur í Reykholt.

En við skulum ekki vera að eyða tíma þingsins í rifrildi um það, hvort ég hafi á réttu að standa um sjónvarpsmenn eða hann. Ég tók eftir orðum hæstv. forseta Sþ., og ég trúi honum í þessu eins og sumu öðru, og skulum við láta þar við sitja.

Hins vegar ætla ég að leiðrétta það við hv. 5. þm. Vesturl., að hér hafi verið sjónvarpsmenn, þegar hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir var að tala hér um daginn. Það er langt frá því. Mín orð voru t.d. komin fram af því, að hæstv. ráðh. orðaði það á þann veg einu sinni, að ég teldi mér nauðsynlegt að taka hér til máls utan dagskrár og ég hefði pantað mynd af mér í sjónvarpinu. Ég bað bæði hann og aðra að koma þeim skilaboðum til sjónvarps, að það yrði ekki birt mynd af mér, heldur þessar tvær frægu af honum. Það hefur ekki enn þá verið gert, en það mætti gjarnan gera það. Hins vegar veit ég, að það þarf 26 tommu skerm, til þess að báðar tungurnar komist fyrir.