27.02.1974
Neðri deild: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég vona, að það sé rétt skilið hjá mér, að til umr. sé hér á dagskránni frv. til l. um álagningu sérstaks gjalds til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana.

Það bar nokkuð á góma áðan hjá hæstv. sjútvrh., að hann hefði um þetta mál átt viðræður við fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir því, að það var fyrir réttum 4 vikum, að Sjálfstfl. tók þá ákvörðun að skrifa ríkisstj. sérstakt bréf út af þessum málum. Þá var ljóst, að verðhækkanir á olíu voru svo miklar, að valda mundi stórkostlegum vandræðum fyrir það fólk víðs vegar úti um land, sem þarf að hita bús sín með olíu. Meginatriði þessa bréfs, sem sent var 30. jan. til hæstv. ríkisstj. að leggja fram hið allra fyrsta till., vandi á höndum, að það væri skoðun þingflokks sjálfstæðismanna, að ekki mætti dragast lengur, að gerðar væru ráðstafanir til að létta útgjöld þeirra, sem verða að kaupa þetta dýra eldsneyti. því skoraði þingflokkur sjálfstæðismanna á ríkisstj. að leggja fram hið allra fyrsta till., sem feli í sér það mikla lækkun á olíu til húsahitunar, að kostnaðurinn á kyndingu með olíu, raforku og jarðvarma aukist ekki frá því, sem hann var, áður en olíuverðið fór að hækka. Þessu til viðbótar var svo bent á þá örðugleika, sem sá atvinnurekstur, sem háður er olíu sem orkugjafa, ætti við að búa, og þyrfti að gera ráðstafanir í því sambandi einnig.

Skömmu eftir að þingflokkur sjálfstæðismanna hafði sent ríkisstj. þetta bréf, ræddi hæstv. sjútvrh. við mig um málið og hélt nokkru síðar sameiginlegan fund með okkur hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni. Þá hafði ríkisstj. þær hugmyndir, að lagður yrði sérstakur skattur á í þessu skyni, til þess að greiða niður olíu til húsahitunar. Sú tekjuöflun yrði fólgin í því að leggja á útsvarsálag, þ.e.a.s. ellefta prósentið á útsvarsstofn, og það fé skyldi notað til niðurgreiðslu á olíu í einu eða öðru formi. Það voru raunar ákveðnar till., sem ríkisstj. hafði þá að gera um, með hverjum hætti þetta skyldi koma til framkvæmda.

Það var skoðun okkar Gylfa Þ. Gíslasonar, að það væri óæskileg tekjuöflun að leggja þannig ofan á útsvörin og önnur leið væri æskilegri. Hún væri sú, að í stað þess, að ríkisstj. hafði þá í huga að framlengja tvö söluskattsstig vegna Viðlagasjóðs, sem stjórn Viðlagasjóðs hefði farið fram á, væri athugandi, hvort 1% mundi ekki nægja a.m.k. um sinn fyrir Viðlagasjóð, en 1% söluskattsins mætti nota til niðurgreiðslu á olíunni eða sem olíustyrk.

Eftir nokkrar athuganir og viðræður varð þessi niðurstaðan. Hæstv. ríkisstj. féll frá því að framlengja Viðlagasjóðsgjaldið um bæði söluskattsstigin og að leggja nýtt útsvarsálag á vegna olíumálanna. Niðurstaðan varð því sú að framlengja söluskattsstigin tvö og rynni annað prósentið til Viðlagasjóðs, en hitt til olíumálanna, eins og þetta frv. fer fram á. Þannig má segja, að viðhorf stjórnarandstöðunnar hafi ráðið því í þessu máli að losa landslýðinn við þetta álag á útsvörin, sem hæstv. ríkisstj. hafði í huga. Er vel að mínu áliti, að samkomulag hefur náðst um þetta milli hæstv. ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar.

Varðandi tilhögun þess, hvernig eigi að greiða niður olíuna eða veita olíustyrki, þá hefur, eins og raunar hefur komið fram, aðallega verið rætt um þrjár leiðir. Ein er sú að viðhafa beinar niðurgreiðslur á olíuverðinu. Önnur er sú að miða greiðslur til þeirra, sem nota olíuhitun, við stærð íbúða eða stærð húsnæðis. Og þriðja leiðin er sú að greiða ákveðinn styrk á hvern fjölskyldumeðlim þeirra fjölskyldna, sem þurfa að nota olíu til hitunar. Vegna þess að nokkuð eru skiptar skoðanir um, hvaða aðferð sé heppilegust, varð að ráði að fresta þeirri ákvörðun nú, og segir því í þessu frv., að tekjum af gjaldi þessu verði ráðstafað samkv. sérstökum lögum. Þegar þan lög verða lögð fyrir Alþ., þá er það að sjálfsögðu á valdi Alþingis að ákveða, hver aðferðin verði höfð. Vegna þessa ákvæðis í 2. gr., að tekjum af gjaldinu skuli ráðstafað samkv. sérstökum l. síðar, finnst mér, að hefði verið eðlilegra að fella niður úr 1. gr. orðin „til hitunar íbúðarhúsnæðis“, þar sem hvort sem er á að taka til meðferðar siðar, hvernig á að haga þessum málum. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram í framhaldi af því, sem hæstv. sjútvrh. rakti hér réttilega um þessar viðræður okkar.

Ég vil taka það fram, að þingflokkur sjálfstæðismanna styður þetta frv. eins og það liggur fyrir, en að sjálfsögðu eru einstakir þm. nú eins og ella frjálsir um það, ef þeir hafa aðrar skoðanir, að láta þær koma fram í umr. og atkvgr.

Það væri ástæða til þess að ræða þessi mál nokkru nánar. En ég skal ekki lengja þessar umr., þar sem ætlunin mun að reyna að afgreiða frv. sem fyrst. Vissulega er það eitt af meginverkefnum Alþingis nú á næstunni að vinda bráðan bug að stórvirkjum í orkumálum, að nýta þær miklu orkulindir, sem við höfum í vatnsföllum okkar og jarðvarma, hið allra fyrsta, til þess að við höfum minni og minni þörf fyrir dýra erlenda orkugjafa eins og olíuna. Hér eru svo miklar auðlindir, svo miklir fjársjóðir í þessu fólgnir hjá okkur að leggja þarf höfuðáherslu á, að virkjun þessara auðlinda verði hraðað sem allra mest. Um það, með hverjum hætti það skuli gert, og hverjar áætlanir yrðu þar um gerðar, skal ég ekki ræða hér, til þess gefst tækifæri síðar.