31.10.1973
Neðri deild: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

34. mál, tilkynningar aðsetursskipta

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Frv., sem liggur fyrir á þskj. 35, er flutt vegna fyrirsjáanlegra vandkvæða á því að koma við réttmætri og eðlilegri skráningu Vestmannaeyinga við gerð íbúaskrár á þessu ári að öllu óhreyttu. Þetta meginefni frv. felst í 3. gr. Þar er lagt til, að á eftir 18. gr. l. um tilkynningar aðsetursskipta bætist bráðabirgðaákvæði. Efni þess er, að allir þeir, sem samkv. gögnum þjóðskrár áttu lögheimili í Vestmannaeyjum hinn 22. jan. 1973 og ekki hafa sjálfir með sérstökum hætti, sem kveðið er á um, tilkynnt um búferli í annað byggðarlag fyrir 25. nóv. n. k., skuli skráðir með lögheimili í Vestmannaeyjum 1. des. 1973. Í þessum ákvæðum felst það, að Hagstofan mun gefa út sérstök skráningargögn og auglýsa skráningarfrest fyrir þá, sem kjósa að skjalfesta húferlaflutning frá Vestmannaeyjum. Allir aðrir, sem skráðir voru með lögheimili í Vestmannaeyjum, þegar ósköpin dundu yfir s. l. vetur, teljast áfram skráðir Vestmannaeyingar. Það hefur að mörgum ástæðum þýðingu, að upp sé tekinn að þessu sinni þessi sérstaki skráningarháttur, en ég nefni aðeins eina, en mjög ríka ástæðu: gerð kjörskrár fyrir væntanlegar bæjarstjórnarkosningar á næsta ári.

Auk þess eru í frv. tvær aðrar gr. um efni algjörlega óskyld þessari megingr. þess. Þar er um að ræða fyrirkomulagsatriði, sem Hagstofan hefur haft hug á að koma inn í l., þegar þau þyrfti að endurskoða eða þeim þyrfti að breyta af öðrum og ríkari ástæðum.

Lagt er til í 1. gr. frv., að aftan við 5. gr. l. um tilkynningar aðsetursskipta komi ákvæði, sem kveði skýrt á um tímafrest, sem mönnum er gefinn til að inna af höndum tilkynningarskyldu, sem á þá fellur, þegar þeir eru þannig komnir inn í landið, að tilkynningarskylda kemur ekki til við hingaðkomu frá útlöndum.

Í 2. gr. er till. um breyt. á 17. gr. l. um tilkynningar aðsetursskipta á þá leið, að sektarákvæði fyrir brot gegn ákvæðum l. séu hækkuð til samræmis við breytt peningagildi, frá því að í. voru sett.

En meginákvæði frv. er framhald þeirrar stefnu allra opinherra aðila að stuðla að því, að samfélag Vestmannaeyinga í útlegðinni raskist í engu að óþörfu. Við samningu frv. hefur verið haft samráð við þá aðila, sem málið er skyldast.

Þörf er að hraða afgreiðslu málsins eins og frekast er kostur, svo að unnt sé að kunngera það fyrirkomulag, sem þar er gert ráð fyrir, með sem lengstum fyrirvara. Ég leyfi mér að láta í ljós þá von, að Alþingi framfylgi í þessu máli markaðri stefnu að greiða fyrir því, að Vestmanneyingum sé gert sem hægast um vik að halda bólfestu í heimabyggð sinni þrátt fyrir röskunina, sem eldsumbrotin ollu.

Ég legg svo til. herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.