27.02.1974
Neðri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2397 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

Umræður utan dagskrár

Hjördís Hjörleifsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá vinsemd, sem mér hefur verið sýnd. Það mál, sem liggur mér á hjarta, hefur verið þannig vaxið, að ég hef ekki getað komið því fram á annan hátt en þennan, vegna þess, hve minn þingtími hefur verið stuttur. Annars mundi ég hafa flutt hér þáltill. Ég vona, að þetta tefji ekki þingstörf að mun, því að mér sýnist, að það hafi ekki legið svo mikið á þá daga, sem ég hef verið hér í þinginu, að koma ýmsu áleiðis, og það verður kannske ekki á næstunni og kannske ekki oftar, sem ég hef tækifæri til þess að segja fáein orð um það mál, sem mér hvílir á hjarta.

Sem sagt, hv. alþm. Ég fékk hér í það fyrra skipti, er ég kom inn á þing, plagg til undirskriftar, nokkurs konar eiðstaf, þar sem ég hét því, að í öllum málum skyldi ég fyrst og fremst fylgja sannfæringu minni, bera sannleikanum vitni að því marki, sem ég hef vit og getu til. Ég tók mark á þessu plaggi. Þess vegna hef ég risið upp og stigið í þennan merkisstól, timburhólfið, þaðan sem rödd sannleika, vísdóms og ættjarðarástar er ætlað að hljóma út og suður.

1. maí fyrir tveimur árum stóð ég á torgi og hlustaði á hefðbundnar ræður hefðbundinna manna á svölum Alþýðuhúss Ísafjarðar. Að baki þeirra voru reist þrjú stór og mikil spjöld. Áritunin var: Frelsi, jafnrétti og bræðralag. Hann var hvass, og vindhnútar köstuðust yfir söfnuðinn. Allt í einu sá ég, hvar jafnréttið og bræðralagið hófust á loft og bárust eitthvað út í buskann, í sjóinn að líkindum, en enginn hefur séð þau síðan. Þarna var höfuðskepna að verki, sem þreif úr höndum óviðbúinna manna tvö verðlítil pappaspjöld. Hér í sölum hins háa Alþingis er sannarlega enginn goluþytur, sem kastast af hnjúkum snjótypptra fjalla. En það er annars konar rok, hættulegur dragsúgur, sem hvirflast út úr munni hv. alþm., er leitast við að þeyta út úr hverju brjósti ekki aðeins jafnréttinu og bræðralaginu, heldur frelsinu líka.

Sá, sem á útkjálka býr og kemur ekki til höfuðborgarinnar nema á margra ára fresti, annaðhvort til að láta gera við skemmda tönn eða, sem sjaldnar vill þó til, taka setu á Alþingi, njóta þeirrar óvæntu náðar að setjast við viskubrunninn, nema af spekingum og ráðamönnum, hefur þó ýmislegt fleira í huga. Hann langar gjarnan að lyfta sér upp um leið. Ég t.d. var ákveðin í því að skjótast í leikhús, ef tími gæfist. Í fávisku minni hélt ég, að þau væru aðeins tvö og þangað yrði ég að fara og kaupa mér miða. En svo lengi lærir sem lifir.

Mánudaginn 18. þ.m. uppgötvaði ég allt í einu mér til stórrar furðu, að ég sat í aðalleikhúsinu, að vísu ekki í stúkusæti, en þó í allgóðum stól. Og án alls fyrirvara upphófst það furðulegasta sjónarspil, sem ég á allri samanlagðri ævi minni hef séð. Ekki veit ég, hvað þessi kómedía eða öllu heldur tragedía hefur heitið. Hafi hún verið kynnt með nafni, þá fór það a.m.k. alveg fram hjá mér. Ég er ekki skarpari en í meðallagi, svo að hv. þm. fyrirgefa mér vonandi, þótt eitthvað hafi farið fyrir ofan garð og neðan. T.d. verð ég að játa rúmri viku síðar, að ég veit ekki, hverjar voru aðalpersónur og hverjar auka. Það mátti svo virðast sem hv. þm. frú Ragnhildur Helgadóttir væri primadonna nr. eitt. Henni lá a.m.k. mikið á hjarta. Hæstv. iðnrh. hafði að sögn fjölmiðla móðgað útlenska svo freklega, að líklega mun aldrei um heilt gróa. Samt hef ég óljósan grun um, að hún hafi bara verið statisti, aðalleikararnir hafi allan tímann staðið að tjaldabaki, kannske með kvef, hver veit, það er að ganga. Á tímabili leit svo út sem senuþjófur væri kominn í pontuna, Pétur hv. alþm. Sigurðsson. Ég vissi ekki fyrr, hve feiknalegur ræðuskörungur sá maður er. Þarna fer líka allt saman, látbragðið, hreyfingarnar (sem gátu þó alls ekki notið sín vegna þrengslanna), og síðast, en ekki síst framúrskarandi heflað málfar. Hann talaði um, að Ólafur nokkur Palme mætti vart lyfta læri án þess að einhverjir menn, ég greip ekki alveg hverjir, stjörfnuðu af aðdáun og forundran. Hann sagði, að hæstv. sjútvrh. hefði slefað upp annarri hendi með hinni til að greiða atkv. sitt með sáttabréfi Breta. Auminginn ég, sem aðeins hafði lesið Þórberg og Kiljan, varð að kyngja þeim beiska sannleika, að þeir menn, sem ég taldi nota tunguna af hvað mestri íþrótt, fölnuðu í skíni þessarar nýju stjörnu. Og má ég skjóta því hér inn í, að ræða hv. þm. rétt áðan jók enn á aðdáun mína.

Ég skal viðurkenna, þótt fávíslegt sé, að í upphafi hélt ég, að einhver væri að meina eitthvað En þegar á leikinn leið, rann upp fyrir mér sá grái sannleikur, að öll þessi súpa af orðum, allur þessi taugaveiklunarkenndi hávaði táknaði ekki nokkurn skapaðan hlut. Á tveggja klukkustunda meiningarlausan vaðal mátti kannske hlusta í þessu virðulega þjóðarleikhúsi, þegar sýningin var ekki bara ókeypis, heldur einnig borgað þokkalega fyrir að vera áheyrandi. Mig varði síst, að þetta væri bara fyrsti þáttur.

En næsta dag, þriðjudaginn 19., var skellt á mann senu nr. 2, og nú voru plöggin um ævintýri iðnrh. komin í réttar hendur, svo að menn gátu tekið til við að húðstrýkja hver annan í fúlustu alvöru. Að vísu var skotið inn einum og einum aukaþætti, eins og þegar einn aðalleikarinn skellti því á vesalings stjórnina okkar, að stefna hennar væri sú að láta fávísa sjómenn veiða loðnu til þess að hafa svo ánægju af því að neyða þá til að sturta henni steindauðri í sjóinn aftur. Ekki efa ég, að þm. hafi þarna talað af fyllstu sannfæringu. Fljótlega í upphafi 1. þáttar hafði læðst að mér sá grunur, að hér væru maðkar í mysunni. En þegar 2. þáttur var til enda leikinn, var eins og hula væri dregin af augum mér. Sá skelfilegi sannleikur leyndist sem sé ekki lengur, ef maður hafði kjark til þess að sjá hann, að fólkið, sem landsmenn höfðu kosið að til þess að vinna og hugsa af ábyrgð og samhug um mikilsverð þjóðþrifamál, leyfði sér að hafa uppi auvirðilegustu kúnstir, allt í þeirri trú, að orð þess og athafnir kæmust út í fjölmiðlana, næðu til fólksins í landinu, svo að það gæti glaðst yfir bragðvísi og skylmingakúnstum foringja sinna.

Hvar er sú þjóð, sem best er komin, að kyntir séu eldar sundurlyndis og haturs í brjósti hennar? Hvar er sú þjóð, sem á það skilið að vera svikin af forsvarsmönnum sínum í öllum þeim málum, sem mestu skipta? Hvar er sú þjóð, sem á það skilið, að þm. hennar séu svo óeðlilega skapaðir, að þeir hafi tungur tvær og tali sitt með hvorri? Er það íslensk bjóð? Sé svo, þá er hún lánlausari en ég hafði vonað.

Á meðan kvöl og neyð plaga svo til hvern einasta Íslending meðvitað og ómeðvitað, blygðast hv. alþm. sín ekki fyrir að eyða mjög svo dýrmætum tíma í fáránlegar orðahnippingar út af engu. Og það sem verra er, þeir vita gjörla, að fjas þeirra snýst um fánýti, ekkert. Emil Zola ákærði á sínum tíma sumt af sínu fólki fyrir andstyggð, sem það hafði framið gegn Alfred Dreyfusi. Ég er ekki Emil Zola, ég er ekki heldur hv. alþm. Hannibal Valdimarsson, ég er ekki einu sinni hv. alþm. Ellert B. Schram, og þó leyfi ég mér að hrópa út yfir þennan þingsal, já, út til ykkar allra: Ég ákæri hvern einasta þm., er hér hefur sæti, fyrir misnotkun á því valdi, sem honum er léð, og ég ákæri ekki síst sjálfa mig fyrir að hafa þagað til þessa, þó að mér hafi ekki verið auðvelt um vik.

Ég nefndi kvöl og neyð. Hver er þá sú hin mikla kvöl og neyð, sem knýr mig til að kveða upp svo þungan dóm yfir yður, þér alþm., með leyfi hæstv. forseta? Grein úr Tímanum föstudaginn 22. febrúar 1974. Yfirskriftin er: „Við viljum ekki deyja, — við viljum lifa lengur, — heyrðu lögreglumenn barnið segja fyrir innan læstar dyrnar.“

„Um kl. 2 í fyrrinótt var hringt til lögreglunnar úr fjölbýlishúsi í vesturbænum og hún beðin um að koma þegar í stað til að kanna ástæðuna fyrir miklum látum, sem kæmu úr kjallaraíbúð hússins. Þegar lögregluþjónar komu að dyrum íbúðarinnar, var þar allt slökkt og ekkert hljóð heyrðist. En þegar þeir lögðu við hlustirnar, heyrðu þeir barnsrödd segja: „Við viljum ekki deyja, við viljum lifa lengur.“ Var barninu auðheyrilega mikið niðri fyrir, og réðust lögregluþjónarnir þá á hurðina og brutu hana upp. Þar inni fundu þeir litla telpu og konu, sem var með mikið sár á höfði, og yfir þeim stóð liðlega þrítugur maður. Konan skýrði lögreglunni frá því, að maðurinn, sem hún þekkti, hefði komið í heimsókn fyrr um kvöldið. Hann hefði verið drukkinn og verið með hótanir við sig, ef hún hætti að hafa samneyti við hann, en það hafði hún tilkynnt honum áður. Hann hafði haft með sér byssu, og þegar hún vildi ekki ræða við hann lengur, tók hann hana upp og skaut að konunni skoti. Fundu lögreglumennirnir far eftir kúluna í vegg bak við sófa, sem konan sat í, þegar hann hleypti skotinu af. Þarna var um að ræða einskota byssu, svokallaða kindabyssu, og hafði hann stolið henni í húsi, þar sem hann býr fyrir austan fjall. Eftir að maðurinn hafði skotið að konunni, sló hann hana með byssunni í höfuðið og ógnaði henni og dóttur hennar, þar til lögreglan kom. Maðurinn var settur í járn og síðan fluttur í fangageymslu lögreglunnar. Við yfirheyrslu í gær neitaði hann að hafa ætlað að skjóta konuna, en aðeins verið að hræða hana með því að skjóta í vegginn. Hann hefur nú verið úrskurðaður í 60 daga gæsluvarðhald og til geðrannsóknar.“

Og má ég skjóta hér inn í, að nærri því 100% af afbrotum, sem framin eru í þessu þjóðfélagi, eru gerð af mönnum, sem eru undir áhrifum víns, og herra Bjarki Elíasson yfirlögregluþjónn upplýsti ekki alls fyrir löngu í útvarpinu, að Íslendingar væru að því marki frábrugðnir öðrum þjóðum, að þeir legðu yfirleitt aldrei á ráðin um glæpi fyrir fram.

Snertir þessi grein um þetta litla vesalings barn og þá konu, sem í hlut á, ekki strengi í nokkurs manns brjósti? Þorið þið — ég segi: þorið þið að yppta öxlum, horfa hvert á annað og yppta öxlum? Hafið þið um óttuskeið haft í örmum ykkar 17 ára gamalt stúlkubarn, grátandi, kalt og klæðvana, titrandi inni í innstu kviku síns unga lífs af ótta við krumlu vínguðsins, sem sett hafði á hana sín dökku fingraför? Dettur einhverjum ykkar kannske í hug að yppta öxlum og afgreiða málið á þennan andstyggilega hefðbundna hátt: Blessuð góða, á svona löguðu er ekki mark takandi. Það volar, flest þetta fólk, þegar það er orðið einum of hífað? — Hefur ekkert ykkar þurft að hirða pilt upp úr forinni, séð tómleikann, óttann og vonleysið skina í gegnum ölmóðuna? Þetta er nú skemmtun, sem bragð er að, skal ég segja ykkur. Ef þið eruð alveg reynslulaus á þessu sviði, þá get ég fullvissað ykkur um, að þið þurfið ekki að ganga um þvera götu á venjulegu föstudagskvöldi, til þess að færi gefist á að reyna svona forkostulegt ævintýri. Frelsarinn talaði um kalkaðar grafir. Vonandi þarf ekkert okkar að taka það til sín. Tölur, sannfæra þær nokkurn mann? Eitthvert langbesta tæki til að blekkja og rugla fólk eru tölur, mjög svo mikið notaðar af nútíma stjórnmálaskörungum. En örfáar tölur koma hér samt, tiltölulega auðvelt er að komast að því, hvort þarna er enn ein tölulygin á ferðinni.

Sumir taka mark á rússneskum hagfræðingum. Hvað segja þeir? 10% minni þjóðartekjur vegna vinneyslu. — Aðrir halla sér meira til vesturs, trúa bandarískri tölvísi. Þeirra hæfustu hagfræðingar segja nákvæmlega það sama: 10% meira verðmæti handa á milli, væri hægt að útrýma drykkjusýki. — Og hvað með heimaslóðir? Mælt er af ábyrgum mönnum, er best þekkja til, að nálægt 90% af þeim börnum, er koma til meðferðar á taugadeild Barnaspítala Hringsins, séu í þessu sjúklega ástandi vegna drykkjuskapar aðstandenda. Hugsið þið, 90% af litlum börnum með sjúkdóm, sem kannske verður aldrei, aldrei á þeirra ævi læknaður og þau koma til með að líða alla ævi fyrir. Og hvað um heimaslóðir,? sagði ég. Má ég spyrja: Úr hverju eruð þið eiginlega gerð, herrar mínir og frúr, ef þið ætlið enn að láta sem ykkur sé þessi skelfilega vitneskja óviðkomandi? Þótt margt sé hægt í okkar tölvísa þjóðfélagi að mæla og reikna út, þá veit ég ekki enn nokkurn þann hagfræðing með tól eða tölvu, sem gæti sett inn á gataspjald kvöl og böl og sorg þúsunda í þessu landi, sem eru í klóm Bakkusar eða eiga sína í þeim darraðardansi. Mér hefur t.d. verið tjáð, að tölur þær, sem gefnar eru út um fjölda sjúklinga á Kleppsspítala vegna ofdrykkju, nái og geti í rauninni eingöngu náð til þeirra sem beinlínis hafa verið eða eru haldnir þessum sjúkdómi. Á þeim stað er það hald manna, að eigi séu þeir færri, er þar dvelja vegna taugaveiklunar og enn átakanlegri sjúkleika, sem orsakast beinlínis af því að hafa búið við drykkju hins sjúka manns, þangað til jörðin skriðnaði undan fótum þeirra, þrekið til að bera harmana brast. Ég hef drepið á ungt fólk. Illa komið ungt fólk hvirflast út í svallið. Hvað þá:með hina ráðsettu, vitru og þroskuðu kynslóð, sem kallast nú fullorðin. Er hún ekki fyrirmynd hinnar ungu, sem dugir til viðmiðunar og stuðnings? Maður skyldi nú halda það.

Þingveisla fer í hönd. Hún verður líklega þurr að vanda. Vonandi er, að þar verði einhver ungmenni til að læra, hvernig á að drekka á fínan máta. „Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það.“

Úr því að enginn annar hefur haft uppi verulega tilburði til að segja sannleikann um þessi mál, þar sem þau eiga heima, er mér það fullkomin ofraun að þegja lengur, ekki vegna þess, að ég viti ekki, að ég er svo sem ekki mikil kerling, heldur einmitt vegna þess, að ég veit, að hér er ég ekki nein sérstök stærð eða hátt skrifuð, óþekkt varaskeifa komin utan af landi rétt til að fylla út í autt sæti um hálfs mánaðar skeið og því einu búist við og ætlast til af mér, að ég þegi og rétti upp höndina, þegar það á við, en hafi svo vit á að halda henni undir borði á réttum stað og réttri stundu. Þó er ég hrædd eða öllu heldur líkami minn er hræddur, svo hræddur, að fætur mínir skjálfa, og ég verð að halda mér, þótt ég treysti fótum mínum til að bera mig allt til enda þessarar tölu. En það sem meira er og sjálfsagt enn óheyrilegra, ég treysti almáttugum guði til að veita orðum mínum brautargengi, sjá til þess, að eyru ykkar heyri og augu ykkar sjái. Og nú er ég heldur betur búin, að gefa á mér höggstað, því að það mega sannarlega vera stórar stundir í sögu þjóðarinnar, til þess að nokkur hér hætti sér út á þann hála ís að nefna drottins nafn. Hann á nefnilega bara heima á ákveðnum stöðum á ákveðnum stundum vegna gamallar hefðar, t.d. í upphafi þings, þegar allur skarinn gengur í hátíðaskrúða úr dómkirkjunni yfir í alþingishúsið.

Ég skal ekki dirfast að gera lítið úr nokkrum manni eða geta mér til um skoðanir hans í þessu máli. En hitt finnst mér stundum furðulegt, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, að jörðin skuli þurfa að skjálfa og rifna og spúa eldi og eimyrju yfir blómlega byggð, til þess að fólki hinnar íslensku þjóðkirkju þyki óhætt að nefna guðs nafn án þess að halda, að það sé lagt sér út til skammar eða athlægis. Þá er hrinan er hjá liðin ætla menn enn á ný að stjórna ferðinni og látast þá hafa ráð undir rifi hverju. Í nafni drottins starfa stórir skarar fólks, bæði hérlendis og erlendis, til hjálpar þeim nauðstöddu, þeim sem vínið tók allt frá. Það þarf býsna kokhraust fólk til að lemja höfði við stein og segja, að þessi leið sé svo sem ekki betri en önnur, þegar sannað er með tölulegum rökum, að sú aðferðin gefst langtum betur en nokkur þeirra, sem viðhafðar eru eftir félagslegum leiðum. Þetta fólk, sem er brennandi í andanum og að sögn formanns áfengisvarnaráðs sífellt tilbúið að rétta fram hendur sínar af kærleika og óeigingirni, er nánast þagað í hel, fær naumast nokkra fjárhagsfyrirgreiðslu.

Þó veit ég, að hér eru til nokkrir menn, sem vilja gera sitt besta. En það nægir bara svo ógnarstutt, og hið íslenska fjármálakerfi malar svo hægt, að meðan verið er að ganga frá Heródesi til Pílatusar, verður margur maðurinn úti. Hugleysið og hugsunarleysið ríður hér húsum. Þó að helftin af þjóðinni sé á dúndrandi svalli frá föstudegi og fram á mánudag, margir þannig á sig komnir, að þeir mæta ekki til vinnu sinnar í upphafi viku, hellið þið ykkur af fjálgleika í margra klukkustunda umr. út af því, hvort z eigi að hverfa úr íslensku máli eða ekki. Hvílík reisn! Hvílík reisn á Alþingi íslendinga. Hvernig vogið þið ykkur að viðhafa svona vinnubrögð og gera jafnframt tilkall til þess að vera virt og að mark sé á ykkur tekið? Heil íþróttaþing leysast upp í svalli. 17. júní er drukknaður, dottinn út úr vitund þjóðarinnar öðruvísi en fyrirkvíðanlegur dagur, dagur þjáninga og skammar. Ekki eru nema tæp tvö ár síðan lögreglan varð að koma örbjarga börnum til síns heima fram á rauða morgun að aflokinni þjóðhátíð í Reykjavík. Það virðist vera alveg gleymt.

Tvö ár í röð er búið að koma hér á framfæri till., fluttri af mönnum allra flokka, um það, að hæstv. stjórnvöld þessa lands veiti ekki vín í opinberum veislum. Þetta á að þegja í hel. Þess vegna kalla ég ykkur huglaus. Þið þorið ekki að mótmæla. Hugsanlegt væri, að slíkt sé ekki skynsamleg pólitík. Þess vegna á að þegja svo lengi og dyggilega, að málið hreinlega dagi uppi. Hvernig er það? Tók svona langan tíma fyrir hv. þm. að skammta sér kaupið sitt?

Ljósið, sem í ykkur er, hvar er það? Ég vil ekki og get ekki trúað því, að það sé ekki lengur lifandi, þótt í mínum augum skíni það ekki bjart þessa stundina. Vitið þið kannske ekki, að það pólitíska munstur, sem íslenskir stjórnmálamenn hafa lifað og hagað sér eftir s.l. 30–40 ár, er vonlaust, dautt og einskis nýtt. Veit ég vel, að það þarf að reisa hús, hlaða vegi og byggja brýr. Það þarf að endurbæta hafnir, hlynna að bændum og búaliði, sjómönnum og öðru vinnandi fólki um allt Ísland. En það þarf fyrst og fremst að snúa sér að því, sem nauðsynlegt er, hætta að vera Marta og taka sér Maríu til fyrirmyndar, hætta að vantreysta hverri sál og koma til dyranna eins og maður er klæddur. Þjóðin fylgist með gerðum ykkar, orðum og athöfnum. Verulegur hluti hennar trúir ekki lengur neinu, sem þið segið eða gerið. Áratuga gömul plata hefur ekki lengur nein áhrif á þjóðina, sem þið eigið að stjórna. Ef þið sjáið þetta ekki sjálf, þá uggir mig, að þið verðið látin sjá það innan örfárra ára. Þið hafið, stjórn og stjórnarandstaða, unnið að því ljóst og leynt að gera hvort annað ómerkilegt í augum þjóðarinnar. Því eruð þið sjálf orðin nokkurs konar ómerkingar. Enginn segir, að ekki sé hægt að sjá að sér. Enginn segir, að sá þurfi endilega að vera ofurseldur aðhlátri, sem áttar sig á þeim táknum, sem sífellt eru að birtast.

Íslensk þjóð getur smæðar sinnar vegna verið til fyrirmyndar, því að hún er nánast lítið annað en ein stór fjölskylda. Þetta verður oft berlegt á stóru stundunum. En þær eru snöggtum færri en hinar venjulegu mannlífsstundir.

Ég veit, drottinn, að örlög manns eru ekki á hans valdi né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum. Nemið staðar við veginn, litist um og spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og farið hana, svo að þið finnið sálum yðar hvíld. — Ég þakka fyrir.