27.02.1974
Efri deild: 67. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í umr. á Alþ. nokkrum sinnum áður, hefur ríkisstj. haft til athugunar, til hvaða ráða væri hægt að grípa til þess að draga úr þeim mikla aðstöðumun, sem skapast í landinu við hina miklu olíuverðhækkun, þar sem kyndingarkostnaður á íbúðarhúsnæði hækkar svo gífurlega sem raun er á hjá mörgum í landinu eða öllum þeim, sem búa við olíukyndingu. Það kom einnig fram sérstakt bréf frá þingfl. Sjálfstfl. til ríkisstj., þar sem sá þingfl. tjáði sig fúsan til samstarfs um að leita ráða í þessum efnum. Ríkisstj. hefur í framhaldi af þessu unnið að málinu og haft samráð við þingflokka Sjálfstfl. og Alþfl. um, hvernig væri hægt að afla nauðsynlegra tekna til að draga úr þessari miklu verðhækkun á olíu hjá þeim, sem búa við það að þurfa að kynda hús sín með olíu.

Það hafði verið hugmynd ríkisstj. að fara þá leið að leggja aukagjald á álögð útsvör á hliðstæðan hátt og gert var til tekjuöflunar fyrir Viðlagasjóð fyrir ári, þ.e.a.s.bæta þar 1% við, þannig að útsvarsálagið yrði þá 11% í staðinn fyrir 10%. Á þennan hátt hefði verið hægt að afla fjár til þessa, sem næmi á ársgrundvelli 550–600 millj. kr. Í viðræðum við fulltrúa frá Sjálfstfl. og Alþfl. kom í ljós, að þeir óskuðu fremur eftir því, að farin yrði sú tekjuöflunarleið, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þ.e.a.s. að öðru söluskattsstiginu, sem runnið hefur til Viðlagasjóðs, yrði varið til að lækka verð á olíu, ef samkomulag tækist um það, að hitt söluskattsstigið yrði látið duga fyrir Viðlagasjóð fyrst um sinn.

Nú hefur einnig komið í ljós, að ýmsar leiðir koma til greina um, hvernig hagkvæmast sé að koma þessum fjárgreiðslum til þeirra, sem verða fyrir auknum útgjöldum vegna olíuverðhækkunarinnar. Nauðsynlegt þótti, ef horfið yrði að því ráði að nota þessa tekjuöflunarleið, — þ.e.a.s. annað söluskattsprósentustigið, sem runnið hefur til Viðlagasjóðs, - að það yrði ákveðið nú fyrir mánaðamót, en þá rennur sú gjaldtaka úr gildi. Þurfti að gera sérstakar ráðstafanir til að framlengja það gjald í þessu skyni, ef að þessu ráði yrði horfið, en taka sér þá nokkru lengri tíma til að athuga það, með hvaða hætti ætti að koma þessum greiðslum til þeirra, sem njóta eiga. Af þessum ástæðum er þetta frv. í því formi, sem það liggur hér fyrir, að í rauninni er aðeins um það að ræða að ákveða gjaldtökuna í þessum efnum, en síðar verður flutt frv., sem unnið verður að í samráði við alla flokka hér á Alþ., um það, hvernig greiðslunum skuli komið til þeirra, sem eiga að fá þær.

Ég veit, að vegna þess að búið er að vinna að þessu máli alllangan tíma í samráði við alla flokka, að öllum hv. þm. er vel kunnugt um það málefni, sem hér er fjallað um, og er í rauninni engin þörf á því að lengja hér framsögu um það. En það er orðinn lítill tími eftir, til þess að þetta mál nái fram að ganga í tæka tíð, og því vil ég óska eftir því, að hv. Ed. sjái sér fært að afgreiða nú málið, helst af öllu í dag, svo að þannig verði tryggt, að hægt verði að fá þann tekjustofn, sem að er stefnt.

Það er reiknað með því, að þessi tekjustofn, 1%, geti gefið, þegar allt gjaldið hefur verið innheimt, á ársgrundvelli um það bil 700 millj. kr. En það er alveg sýnilegt, að þó að sú fjárhæð öll verði notuð, mun hún ekki ná því marki að lækka svo verð á olíu til húsakyndingar, að hægt sé að segja, að þeir, sem búa við slíka aðstöðu, verði ekki fyrir a.m.k. eins mikilli hækkun og hinir, sem búa við hitaveitu eða rafmagnsupphitun. Hér verður því aðeins um það að ræða að draga nokkuð úr þeim mun, sem upp hefur komið hjá aðilum af þessari sérstöku olíuverðhækkun, en það verður varla hægt með þessari fjárhæð að jafna til fulls. Það getur því ekki verið um það að ræða að mínum dómi, að hægt sé að verja þessari upphæð til annars en þess að greiða niður með einum eða öðrum hætti kostnaðinn af kyndingu íbúðarhúsnæðis. Eftir stendur svo það sérstaka mál, hvernig á að mæta þeim vanda, sem upp kemur í ýmsum atvinnugreinum vegna þeirra auknu útgjalda, sem þær verða fyrir vegna olíuverðhækkunarinnar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Ég geri ekki till. um að vísa málinu til n., en hef að sjálfsögðu ekkert á móti því, að það sé gert, ef deildin telur, að á því sé þörf, að n. fjalli um málið. En verði málinu vísað til n., fer ég fram á það, að n. sjái sér fært að afgreiða það fljótlega. Hér er um mjög einfalt mál að ræða, sem ég ætla, að öllum hv. þdm. sé vel kunnugt um og að þeir að meira eða minna leyfi standi að samkomulagi um að hafa þennan hátt á.