27.02.1974
Efri deild: 67. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að um þetta mál var höfð samvinna í undirbúningsnefnd við stjórnarandstöðuna, og ég mætti þar fyrir hönd flokks míns. Ég sagði þá frá því, að það væri meirihlutaskoðun okkar að gera ekki athugasemd við frv., en ég tók þó fram, að persónulega væri ég óánægður með form þess. Ég vil þó ekki fara að hefja hér langar umr. um frv., aðeins undirstrika það, að ég mun ekki fara að pexa á móti því. En ég segi það og í fullu trausti þess, að orðið „íbúðarhúsnæði“ standi óbreytt og það verði ekkert reynt að fikta við það síðar meir af hálfu Alþingis. Ég geng út frá því sem gefnu, ella færi ég ekki hér niður úr stólnum næstu klukkutímana, — það eru alveg hreinar línur, — og tæki málið upp á miklu víðari grundvelli, því að hér er verið að auka verðbólguna tvímælalaust, og það gerum við ekki með glöðu geði, það er ég viss um. Þó að við séum til neyddir að takast á við þennan vanda, sem olíuhækkunin er í sjálfu sér, þá skal ég láta kyrrt liggja í trausti þess, að eins og um var talað, mætum við þessum vanda með því að leggja á alla þjóðina nokkrar byrðar, sem nema þó 700 –750 millj. kr., og helmingur þjóðarinnar tekur það gagnvart sjálfum sér og fær það til baka, en eingöngu í því skyni að lækka upphitunarkostnað á íbúðarhúsnæði. Það er mín skoðun. Ég treysti því, og ég held ég hafi skilið það rétt á sínum tíma í viðræðum við hæstv. ráðh. í nefndinni, að það væri hans skilningur líka. Ég held ég fari rétt með það — eða ég túlka það svo.

Í leiðinni vildi ég forvitnast um þáltill., sem ég flutti ásamt Stefáni Gunnlaugssyni í fyrra, var 9. mál og var vísað til hæstv. ríkisstj., um að gera átak í útvegun lánsfjár til að flýta fyrir hitaveituframkvæmdum. Nú hafa verið gerðir myndarlegir samningar um hitaveituframkvæmdir við Reykjavikurborg, og það þarf mikið fé. Það er ekki hægt að ætlast til, að Reykjavíkurborg ráði einhliða við allt það, því að það eru geysimiklar framkvæmdir, sem hún er að taka að sér fyrir nágrannasveitarfélögin. En það er víðar, sem þarf að ráðast í skjótar framkvæmdir, m.a. á Suðurnesjum og jafnvel viðar um landið. Ég vildi forvitnast út af samþykkt þessarar till., hvort hæstv. ríkisstj. hafi hafist handa, meira en að skipa umrædda n., sem var gert fyrir nokkrum vikum eða mánuðum, til að athuga málið. Við þurfum að fá fjármagn og það sem fyrst til þess að draga m.a. úr áhrifum hækkandi olíukostnaðar.

Að svo mæltu skal ég ekki eyða tíma hv. dm. í umr. um málið, en treysti því, að við förum ekki að fikta í orðinu „íbúðarhúsnæði“ og breyta því eða laga það í síðari tíma meðförum.