27.02.1974
Efri deild: 67. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Í sambandi við lántöku eða lánsútvegun fyrir hitaveituframkvæmdir get ég aðeins upplýst það, að ríkisstj. hefur samþykkt að heimila Hitaveitu Reykjavíkur að taka þau lán til sinna framkvæmda, sem hún hefur óskað eftir. Er nú unnið að því á vegum Seðlabankans og Reykjavíkurborgar að útvega þessi lán, öll þau lán, sem þar hefur verið leitað eftir. Ég hygg, að með því að þau lán fáist, svo sem vonir standa til, eigi að vera hægt að halda uppí fullum framkvæmdahraða í sambandi við þær áætlanir, sem eru þegar tilbúnar til framkvæmda.