31.10.1973
Neðri deild: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Út af frv. því, sem hér er á dagskrá, vildi ég við 1. umr. rifja nokkuð upp aðdraganda að stofnun Framkvæmdastofnunarinnar á sínum tíma og varpa fram nokkrum spurningum í sambandi við þetta mál. Ég get tekið það fram, að mér finnst, að það frv., sem hér er til afgreiðslu, sé út af fyrir sig góðra gjalda vert, og hefði í rauninni átt að vera annað það frv., sem hæstv. ríkisstj. hefði tekið fyrir á sínum tíma við hliðina á frv., um Framkvæmdastofnunina, vegna þess að eðli málsins skv. hlýtur mál, sem eiga að heyra undir Hagrannsóknastofnunina skv. þessu frv., að heyra undir sjálfstæða stofnun, þar sem hér er um rannsóknir að ræða og ráðgjafarstarf, sem þarf að vinna jöfnum höndum daglega, og þessi stofnun á, eins og fram kemur raunar í þessu frv. og viðurkennt nú um síðir af hæstv. ríkisstj., að vera sjálfstæð og ekki sett undir pólitíska „kommissara“, eins og hún var hugsuð á sínum tíma.

Ég vil aðeins rifja upp í sambandi við þetta, að eitt af megingagnrýnisefnum okkar sjálfstæðismanna hér á hv. Alþingi var einmitt þetta atriði. Og ég vil minna á í sambandi við það, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði, að það hefði verið Alþfl., sem bjargaði því máli í höfn, að hagrannsóknadeildin var þó gerð sjálfstæðari en í frv., var gert ráð fyrir, að það var jafnskýr gagnrýni hjá okkur sjálfstæðismönnum út af þessum þætti málsins.

Í frv. um Framkvæmdastofnunina var svohljóðandi gr. um hagrannsóknadeildina:

„Deildin annast þær hagfræðilegu athuganir fyrir ríkisstj., er hún kann að óska eftir. Deildin annast og hagfræðilegar athuganir fyrir Seðlabankann og aðra opinherlega aðila, eftir því sem um semst.“

Svo mörg voru þau orð, og það var sem sagt alls ekki gert ráð fyrir því að halda áfram því starfi, sem Efnahagsstofnunin hafði á sínum tíma, að vera daglegur ráðgjafi ríkisstj. í efnahagsmálum, að vera daglega að kanna efnahagsmálin, hafa höndina á púlsi efnahagsmálanna, ef svo mætti að orði kveða, og ráðleggja ríkisstj. síðan, hvernig tökum efnahagsmálin skyldu tekin á hverjum tíma.

Þessu var bjargað með því á síðustu stundu, að inn í frv. var hætt breytingu, sem hljóðaði einhvern veginn á þann veg: Deildin er ríkisstj. til ráðuneytis í efnahagsmálum og heyrir beint undir ríkisstj. — Henni var sem sagt komið undan því í fyrsta lagi að vera bara afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj., og í öðru lagi var hún þó felld undan hinum pólitísku „kommissörum“, sem áttu að stjórna Framkvæmdastofnuninni. Þetta frv. er bein viðurkenning á því, að hér var unnið nánast hlægilega, eins og ég orðaði það í ræðu, sem ég hélt á hv. Alþingi, í þessari hv. d., um þetta mál, að það væri nánast hlægilegt, að það var ætlun ríkisstj. í upphafi að hneppa hagrannsóknadeildina í þessa fjötra, ef ég mætti svo að orði kveða, með því að láta setja hana undir pólitíska „kommissara“ og gera hann að eins konar afgreiðslustofnun fyrir sig, eða þá að enginn skildi í raun og veru, undir hvern þessi deild átti að heyra.

Þetta frv. er að þessu leyti viðurkenning á, að þessi gagnrýni var rétt frá fyrstu, og er það góðra gjalda vert. En það, sem ég vil fyrst og fremst hér gera að umtalsefni, er, hvað er orðið eftir af Framkvæmdastofnun ríkisins. Nú er undan henni tekin hagrannsóknadeildin með þessu frv. Hæstv. fjmrh. hefur mikið látið af því þessa dagana hér í sölum Alþingis og í fjölmiðlum, að hann hafi breytt vinnubrögðum í fjárlagagerð með því að taka inn framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisstj. í fjárlagagerðina. Nú heyrði þetta áður undir Framkvæmdastofnunina og var í rauninni kannske eina ástæðan fyrir því, að það var hægt að kalla þessa stofnun Framkvæmdastofnun, að hún annaðist gerð framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar ríkisstj. Nú er þetta verkefni í raun og veru með þessari breytingu á fjárlagagerðinni tekið af Framkvæmdastofnuninni og fellt undir fjárlaga- og hagsýslustofnunina. Það er vitað líka, að margir hæstv. ráðh. sniðganga þessa stofnun algerlega. Stofnunin hefur meira að segja sjálf kvartað yfir því. Í skýrslu stofnunarinnar fyrir 1972 er t. d. komist þannig að orði um togaraáætlunina, að það hafi verið gefnir út almennir skilmálar um togarakaup, og síðan segir: „Var að svo komnu fremur um að ræða að gera heildarúttekt á togarakaupum og fjárhagslegum skuldbindingum þeirra vegna heldur en beina áætlun eða stefnumótun.“ — Hér er kveðið það skýrt að orði, að enginn þarf um að villast, að fram hjá Framkvæmdastofnuninni var gengið, þegar átti að gera áætlun um togarakaup. Á öðrum stað í þessari skýrslu er þannig komist að orði: „Meðan enginn einn aðili hefur sterkari aðstöðu til heildarsamræmingar en nú er, hlýtur sú heildarstjórn (þ. e. a. s. fjárfestingarinnar) hins vegar jafnan að vera veik, nema mjög náin samvinna takist milli hlutaðeigandi stjórnsýsluaðila.“ Hér kvartar sem sagt Framkvæmdastofnunin yfir því, að ýmsir stjórnsýsluaðilar séu ósamvinnuþýðir og vilji raunar ekkert við hana tala um heildarstjórn fjárfestingarinnar, sem átti að vera eitt aðalverkefni þessarar stofnunar.

Nú má enginn skilja orð mín svo, að ég sé með þessu fylgjandi því, að tekin sé upp einhver hörð stefna í að skipuleggja alla fjárfestingarstarfsemi á einum stað í landinu, þannig að allir framkvæmdaaðilar þurfi undir slíkt farg að ganga að fara á fund slíkra aðila, ef eitthvað þarf að framkvæma í landinu. En ég er með þessum orðum að vekja athygli á því, að stofnunin sjálf hefur kvartað yfir því mjög, að fram hjá henni sé gengið. Ég hef nefnt hér þrjú dæmi. Hæstv. fjmrh. hefur tekið undan stofnuninni framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisstj., sem er kannske veigamesti þátturinn, sem búið er að plokka af þessari stofnun, frá því hún var sett á fót. Stofnunin sjálf kvartar undan því, að hæstv. sjútvrh. hafi ekkert viljað við hana tala, þegar um var að ræða togarakaup, fyrr en eftir á, og hún kvartar yfir því, að ýmsar ríkisstofnanir vilji ekki við hana tala um heildarstjórn fjárfestingarmálanna. Dettur manni þá í hug Seðlabankinn og það mál allt saman. En það var nú að vísu eftir að þessi orð voru skrifuð, sem það kom á dagskrá, svo að menn gætu ímyndað sér, hvað ætti að standa í þessari skýrslu frá stofnuninni, ef sú mikla misklíð milli Seðlabankans og hennar, sem upp kom um fjárfestingarmál Seðlabankans, hefði verið komið á dagskrá, áður en þessi skýrsla var gefin.

Spurning mín er: Hvað er eftir af Framkvæmdastofnuninni? Er enn þá hægt að kalla þessa stofnun Framkvæmdastofnun?