28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

199. mál, öryggi sjómanna á loðnuveiðum

Félmrh. (Björn Jónason):

Herra forseti. Ég hef leitað til siglingamálastjóra um svör við þessari fsp., sem hér hefur verið borin fram og er í þremur liðum. Svör siglingamálastjóra eru svo hljóðandi:

Um fyrstu spurninguna: „Hvaða reglur gilda um hleðslu íslenskra fiskiskipa?“ segir hann þetta:

Í 29. gr. 1. um eftirlit með skipum segir svo: „Þau íslensk skip, sem hleðslumerkjasamþykkt, gerð í London 5. apríl 1966, nær til, skulu hafa alþjóðahleðslumerkjaskírteini. — Ráðh. setur reglur um hleðslumerki annarra íslenska skipa. — Siglingamálastjóri ákveður hleðslumerki skipa og gefur út hleðslumerkjaskírteini samkv. þeirri, er um ræðir í 1. mgr., og reglum, er ráðh. setur.“

Ef fiskiskip flytja farm milli landa, sem ekki er eigin veiði, þá skoðast þau sem flutningaskip og þurfa þá að hafa alþjóðahleðslumerki og alþjóðahleðslumerkjaskírteini. Þessi alþjóðahleðslumerki ná þó ekki til fiskiskipa í veiðiferðum.

Um fiskiskip við veiðar gilda því eingöngu íslenskar reglur. Reglugerðarákvæði um takmörkun hleðslu fiskiskipa eru frá 30. des. 1963 og heita Reglur um hleðslu síldveiðiskipa á vetrarsíldveiðum. Reglur þessar hafa þó verið taldar gilda líka fyrir loðnuveiðar, enda tilgangur reglnanna óvefengjanlega að auka öryggi skipanna með takmörkun á hleðslu þeirra, og er þá loðnan engu hættuminni sem laus farmur í lest en síld. Reglur þessar gilda um öll fiskiskip, sem stunda vetrarveiðar mánuðina okt.–apríl. Á öðrum tímum árs gilda engar íslenskar reglur, sem takmarka hleðslu fiskiskipa. Hins vegar er sú krafa gerð til skipstjórnarmanna, að þeir sjái ávallt um, að skip þeirra sé hvorki svo hlaðið né vanhlaðið, að það verði talið óhaffært af þeim sökum.

Fyrrgreindar reglur um hleðslu á vetrarveiðum mæla svo fyrir, að eigi megi lesta skip dýpra en að efri brún þilfars við skipshlið. Auk þess eru ýmis ákvæði í þessum reglum varðandi frágang og farm í lest og á þilfari, vatnsþétta lokun, austursop o.fl.

Í öðru lagi er spurt: „Er þeim reglum fylgt t.d. á loðnuveiðum?“ Fyrir nokkrum árum, þegar veiði var mest á síld og loðnu, er ekki því að neita, að verulega voru brotnar þessar hleðslureglur. Skipaeftirlitsmenn og skipaskoðunarmenn voru þá um nokkurt skeið á verði í ýmsum höfnum til að fylgjast með ofhleðslu fiskiskipanna. Í fyrstu var einn skipaskoðunarmaður við þetta í hverri af aðallöndunarhöfnunum. Hann mældi ofhleðslu og gaf skýrslu, sem síðan kom til ákvörðunar dómstóla. Þetta eftirlit var mjög illa þokkað starf, og stofnunin missti nokkra ágæta skoðunarmenn úr starfi vegna þess. Hleðslueftirlitið hafði líka þau áhrif, að á þeim höfnum, sem eftirlitið var best, kvörtuðu heimamenn undan því, að færri skip lönduðu þar en á höfnum, þar sem eftirlitið var minna með ofhleðslunni. Þegar nokkur kærumál komu fyrir dóm, var talið, að tveir eftirlitsmenn þyrftu að vera saman við hvert skip til að mæla og votta um ofhleðslu. Var þá úr því bætt, þar sem hægt var. En þegar dómar féllu, voru sektir svo lágar, að ekkert aðhald var að þessu starfi öllu, sem auk þess kostaði Skipaskoðun stórfé á mælikvarða takmarkaðrar fjárveitingar, enda mikið af þessu starfi unnið í næturvinnu.

Eftir þessa reynslu hefur Siglingamálastofnun ríkisins ekki séð sér fært að sjá um skipulegt eftirlit með hleðslu loðnuveiðiskipa við komu til hafna landsins, en treysta meira á viðtal við skipstjórnarmenn og einstakar óreglulegar eftirlitsferðir skoðunarmanna. Í fjárlagatillögum Siglingamálastofnunarinnar fyrir þetta ár, — og ég get bætt við samgrn., — var farið fram á að fá 3 skipaskoðunarmenn til viðbótar utan Reykjavíkur: einn á Ísafirði, einn á Akureyri og einn á Norðfirði, en þessari aukningu skoðunarmanna var synjað af fjárveitingavaldinu.

Hér vil ég bæta því inn í þennan lestur á svari siglingamálastjóra, að ég hef nú nýlega breytt gjaldskrá fyrir skipaskoðun, þannig að hún getur sjálf staðið undir þeim mannafla, sem við höfum óskað eftir að fá til þessara starfa, og vænti ég, að þá verði sú breyting á, að ekki verði gegn því staðið af þeim aðilum, sem fjalla um aukningu á starfsliði.

Síðan heldur siglingamálastjóri áfram og segir: Óhætt er að fullyrða, að skilningur skipstjórnarmanna á nauðsyn á takmörkun á hleðslu fiskiskipanna til að halda hæfilegum stöðugleik og sjóhæfni hefur aukist verulega á undanförnum árum. Þess vegna og vegna nauðsynjarinnar á almennu bættu eftirliti með smíði og viðhaldi íslenskra fiskiskipa er mjög bagaleg sú tregða til að auka og styrkja eftirlit með skipunum, einkum utan Reykjavíkursvæðisins. Því er hins vegar ekki að neita, að aukið eftirlit hefur í för með sér aukinn kostnað, og þá er matsatriði, hve mikinn kostnað ber að leggja í til að auka á þann hátt öryggi mannslífa á hafinu og öryggi íslenskra fiskiskipa. Þó að mannslífin verði ekki metin til verðs, þá er ekki ofreiknað, að íslensku fiskiskipin ein séu að verðmæti nálægt 18 milljörðum kr., og verður því að telja eðlilegt, að hagkvæmt sé, að töluverðum fjármunum sé eytt til að auka öryggi þessara verðmæta.

Í þriðja lagi er spurt: „Er fylgst með hæfni fiskiskipa af minni gerðum til þess að beita hinni viðamiklu loðnunót?“ Ef fyrirspyrjandi á við, hvort opinbert eftirlit sé haft með því, hvort hægt sé að leyfa ákveðna stærð af loðnunót á ákveðnu skipi, þá er svarið neitandi. Hins vegar er hverjum skipstjórnarmanni samkv. lögum skylt að sjá um, að fiskiskip sé sjófært með þeim veiðarfæraútbúnaði, sem notaður er, eins og þegar um er að ræða hleðslu skipanna. Siglingamálastofnun ríkisins gerir kröfu um stöðugleikaútreikninga fyrir öll íslensk fiskiskip og fer yfir og metur stöðugleikann eftir útreikningunum. Mörg eldri skipanna og þá sérstaklega minni skipin hafa þó enga stöðugleikaútreikninga, en siglingamálastjóri hefur nýlega birt grein um öryggi loðnuveiðiskipa, þar sem þessi mál eru skýrð og rakin nánar til leiðbeiningar fyrir skipstjórnarmenn og útgerðarmenn. Grein þessi birtist m.a. í Siglingamálum, riti Siglingamálastofnunar ríkisins, desemberhefti 1973, og mun því hafa verið dreift til hv. alþm.

Ég hef þennan lestur ekki öllu lengri. Ég vil þó bæta því við þetta svar Siglingamálastofnunarinnar, að að sjálfsögðu hef ég áhuga á því að bæta hér um, eftir því sem við verður komið. En ég tel, að grundvallarskilyrði þess, að það verði gert, sé, að gagnvart þeirri stofnun, sem á að sjá um það öryggi, sem felst í settum reglum, séu ekki dregnar um of við sig fjárveitingar til þeirra hluta og það sé hægt að ráða nauðsynlegan fjölda fastra starfsmanna til að annast það eftirlit, sem ég tel, að brýn nauðsyn sé á.