28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2411 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

199. mál, öryggi sjómanna á loðnuveiðum

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er nú ekki bein aths., heldur aðeins til að árétta það, sem áður hefur gerst í sambandi við þessi öryggismál sjómanna, að mig langar að koma því að, sem sjálfsagt er á vitorði allra hv. alþm.

Fyrir um það bil 4–41/2 ári var sett hér á svokölluð tilkynningarskylda, að bátar skyldu tilkynna stöðu sína tvisvar á sólarhring, hvar þeir væru. Þessi tilkynningarskylda, sem gerð var í minni ráðherratíð að tillögu Slysavarnafélags Íslands, mætti allmikilli andspyrnu á þeim tíma meðal skipstjórnarmanna. Ég hygg þó, að sú andspyrna hafi dvínað allverulega, þegar mönnum fór að skiljast, að það var ekki bara sjálf staðsetning skipsins, hvar það var að veiðum, heldur hitt, að í landi biðu kannske fimm sinnum fleiri aðilar, sem gjarnan vildu vita um stöðu skipsins. Og reynslan hefur leitt í ljós, að þarna var um skynsamlega till. Slysavarnarfélagsins að ræða, sem ég hygg, að enginn efist um í dag, þó að mætt hafi andspyrnu í upphafi. Það er vissulega hverju orði sannara í sambandi við öryggismál og ekki síst á sjó, jafnmikið og við eigum undir því, að þá verður aldrei of langt gengið í þeim efnum að kanna þessa hluti og aldrei of miklu fé til þeirra hluta eytt að fylgjast með og tryggja líf þeirra, sem að þessum störfum vinna. Hins vegar er ljóst, að hvaða lög og reglur sem við setjum hér á hv. Alþ. í þessum málum, þá verðum við um ófyrirsjáanlega framtíð að treysta á skipstjórnarhæfileika skipstjóranna. Líftaugin á milli þeirra og skipsins er sú, sem jafnvel enginn skoðunarmaður fær skilið. Þeir skilja, hvað má hlaða það skip, sem þeir eru á á hverjum tíma, og mismuninn á því, sem hlaða mátti skipið, sem þeir voru með næst á undan. En vitanlega þurfa þessir menn alveg eins og við allir eitthvert aðhald og reglur. Og ég hygg, að í þeim efnum verði aldrei nægjanlega til kostað, því að þar skortir mest á, að um nægjanlegt vinnuafl sé að ræða.