28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

199. mál, öryggi sjómanna á loðnuveiðum

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu að bæta við það, sem ég hef sagt áður. En út af fsp. hv. 10. þm. Reykv. vil ég skýra frá því, að ég hef rætt þetta við siglingamálastjóra með óskum um athugun á því, hvað hægt væri að gera miklu meira í þessum efnum, og það mál er enn þá á athugunarstigi í stofnuninni. Ég hygg, að ef það strandar ekki á skorti á mannafla og fjárveitingum, þá sé þar fullur vilji fyrir því, að þessar rannsóknir eða þessar prófanir séu auknar verulega frá því, sem nú er. En eins og ég gat um áðan, er fjárhagur stofnunarinnar þröngur, og fjárveitingavaldið hefur ekki séð sér fært að verða við óskum, hvorki stofnunarinnar né þess rn., sem ég veiti forstöðu, um það fjármagn, sem við teljum, að þurfi hér til að koma. Málið er í athugun, og ég vona, að áður en langir tímar líði beri sú athugun tilætlaðan árangur.