31.10.1973
Neðri deild: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil við þessa 1. umr. segja örfá orð um þetta merkilega frv., sem hér er um að ræða, þ. e. frv. til l. um Hagrannsóknastofnun ríkisins.

Hv. 7. þm. Reykv. lýsti því yfir, að hann væri fylgjandi þessu frv. Út af fyrir sig er það ekkert óeðlilegt. En ég var alltaf að bíða eftir því, að hv. þm. óskaði eftir, að frv. yrði breytt í það horf, að það gæti leyst Framkvæmdastofnunina algerlega af hólmi. Þetta frv., svo langt sem það nær, er ekki nema gott og blessað, en það er bara of lítið. Það þarf að bæta inn í frv. fleiri atriðum, þannig að það verði hægt að leggja Framkvæmdastofnunina niður í þeirri mynd, sem hún er.

Hv. síðasti ræðumaður spurði að því, hvað ætti að gera við Framkvæmdastofnunina og hvað væri eftir af Framkvæmdastofnuninni, eftir að Hagrannsóknastofnunin hefur verið tekin þaðan í burt. Það er eðlilegt, að spurt sé á þennan veg. En ég held, að það sé eðlilegt að losa ríkið við þann kostnað, sem það hefur af þessu dýra bákni, — bákni, sem ekki svarar þeim kröfum, sem til var ætlast af hæstv. ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar.

Framkvæmdastofnunin er fósturbarn hæstv. ríkisstj., en hæstv. ríkisstj. hefur komist að raun um, að þetta fósturbarn hefur brugðist hlutverki sínu. Þess vegna er sagt í aths. með frv.: „Reynslan, sem fengist hefur á þeim tíma, sem Framkvæmdastofnunin hefur starfað, hefur staðfest nauðsyn sjálfstæðrar stöðu starfs hagrannsóknadeildar.“ — M. ö. o. reynslan er ekki góð af því að hafa hagrannsóknastofnunina nokkuð í tengslum við Framkvæmdastofnunina, og mig undrar ekki, þótt hæstv. forsrh. hafi fundið, að reynslan er ekki góð. Reynslan er raunaleg af þessari stofnun, ekki af því að þar vanti góða starfskrafta, heldur vegna þess að þeir starfskraftar, sem þar eru og margir ágætir menn, fá ekki notið sin. Þessi stofnun átti að vera byggð á miklu skipulagi, og hún átti að starfa að því að skipuleggja flestalla hluti í landinu. En það lítur út fyrir, að þetta hafi verið ofskipulagt, enda kannske ekki að furða, þótt stjórnin hafi orðið erfið á þessum hlutum, þar sem það eru í rauninni 13 menn, sem eiga að stýra fyrirtækinu. Það eru 7 alþm. kjörnir af Alþ., og það eru 3 í framkvæmdaráði skipaðir af ríkisstj. og svo deildarstjórarnir þrír, sem reyndar fá ekki notið sín vegna boða ofan að. Framkvæmdastofnunin hefur orðið dýr beinlínis í útlögðum peningum fyrir ríkið, en hún hefur þó orðið dýrari á óbeinan hátt með því að svara ekki því hlutverki, sem henni var ætlað að inna af hendi.

Ég efast ekkert um, að hæstv. forsrh., sem talaði fyrir þessu frv. hér áðan, hefur gert sér grein fyrir þeirri bitru reynslu, sem af þessari stofnun hefur fengist. Það er ekki aðeins það, að stofnunin hafi brugðist á hagrannsóknasviðinu, eins og greinilega kemur fram með flutningi þessa frv., heldur einnig á öðrum sviðum. Það hefur verið fjölgað þarna fólki, það hefur verið fengið dýrt húsnæði og stofnkostnaður mikill, en afköstin hafa ekki aukist frá því, sem var. Það var áætlunargerð hér áður, sem Efnahagsstofnunin hafði með að gera og vann vel og skipulega að þeim málum. Þá fengu starfsmennirnir í stofnuninni að njóta sín, og þá var miklu áorkað í áætlunargerð. Atvinnujöfnunarsjóður var starfandi og Framkvæmdasjóður ríkisins. Þessar þrjár stofnanir voru lagðar inn í Framkvæmdastofnunina. Framkvæmdastofnunin átti að vinna það, sem þessar þrjár stofnanir höfðu gert. Og það hefði mátt ætla, að Framkvæmdastofnuninni hefði nægt að mestu það starfslið, sem hún fékk með þessum stofnunum, að kostnaðurinn hefði ekki þurft að aukast úr hófi fram frá því, sem var. En raunin hefur orðið allt önnur. Kostnaður við Efnahagsstofnunina 1971 var 13.2 millj. kr., rekstur Framkvæmdasjóðs ríkisins 4.8 millj., rekstrarkostnaður Atvinnujöfnunarsjóðs 2.9 millj. Kostnaður alls 20.9 millj. 1971. En 1972 er kostnaður við Framkvæmdastofnunina, sem ekki starfaði þó, að ég ætla, nema 9 eða jafnvel ekki nema 8 mánuði ársins, var 32.8 millj. plús 7 millj., sama sem 38.9 millj., m. ö. o. nærri 100% hækkun frá árinu áður. Það ber ábyggilega öllum saman um það, að vinnuafköstin í Framkvæmdastofnuninni jukust lítillega frá því sem var árið áður. Þetta er ekki sagt til þess að gera lítið úr starfsfólkinu þarna, heldur virðist það vera svo, að skipulagið og stjórnsemin í stofnuninni hafi verið þannig, að þessir ágætu starfskraftar fengu ekki að njóta sín eins og áður var. Áætlaður kostnaður 1973 var í fyrstu áætlun 43 millj., en endurskoðuð áætlun 49.8 millj. eða nær 150% hækkun frá árinu 1971. Þá hefur verið gerð kostnaðaráætlun fyrir árið 1974, og það er frumáætlun, 55.3 millj. kr., en hvað skyldi endurskoðuð kostnaðaráætlun verða há? Það liggur ekki fyrir, en hefur verið giskað á, að það muni verða a. m. k. 65–70 millj. kr., eftir að búið er að taka hagrannsóknadeildina í burtu. Að sjálfsögðu hlýtur að verða mikill kostnaður við hagrannsóknadeildina, og ef við segðum, að hagrannsóknadeildin ætti að vera hjá Framkvæmdastofnuninni áfram, þá er ekki fjarri lagi að ætla, að kostnaður við Framkvæmdastofnunina 1974 gæti orðið allt að 80 milljónir kr., en var 20.9 millj. 1971. Þetta er á undan hækkun fjárl., vegna þess að þau hafa ekki nema þrefaldast síðan 1971, og má segja, að það sé vel af sér vikið.

Ég ætla ekki að fara að endurtaka það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði áðan í sambandi við það, sem talað var, þegar löggjöf um Framkvæmdastofnunina var sett. Þær viðvaranir, sem við sjálfstæðismenn viðhöfðum þá, er óþarfi að endurtaka, enda munu flestir hv. þm. muna það, þar sem ekki eru nema tvö ár síðan þetta var. Mér finnst það fagnaðarefni, að hæstv. forsrh. og væntanlega ríkisstj. öll, þar sem hér er um stjfrv. að ræða, hafa komið auga á það, að þetta fósturbarn hefur brugðist, að hæstv. ríkisstj. er nú farin að reyta fjaðrirnar af þessu fósturbarni. En hún hefur bara ekki stigið sporið til fulls með því að leggja Framkvæmdastofnunina niður og flytja frv. um aðra stofnun, sem vinni að áætlunargerð, sem vinni það, sem Efnahagsstofnunin, Atvinnujöfnunarsjóður og Framkvæmdasjóður ríkisins höfðu áður með höndum, koma því aftur í eðlilegt horf, sem ekki þarf að vera eins kostnaðarsamt og það, sem nú er, — koma því í það horf, að þessar stofnanir vinni að raunverulegri áætlunargerð, verði hæstv. ríkisstj. til aðstoðar í efnahags- og fjármálum, aðstoði hæstv, ríkisstj. til þess að koma í veg fyrir, að allt fari úr böndunum í fjármálum og efnahagsmálum, eins og nú virðist vera að gerast. Það er þetta, sem þarf að gera. Verður að vænta þess, að hv. n., sem fær þetta frv. til athugunar, stuðli að því, að sporið verði stigið til fulls. Þetta frv. er aðeins hluti af málinu, því að það er rétt, sem hér hefur verið sagt, að þegar búið er að taka hafrannsóknastofnunina frá Framkvæmdastofnuninni, þá er búið að taka allt það vandasamasta frá stofnuninni. Nær þá ekki nokkurri átt að láta stofnunina starfa áfram með fjölda manns og miklum kostnaði, sem nemur allt að 65–70 millj. kr. á næsta ári. Allir þurfa nú að taka höndum saman um hagkvæm vinnubrögð, hvort sem þeir eru stuðningsmenn ríkisstj. eða í stjórnarandstöðu, og reyna að fara að hafa stjórn á málunum og gæta meiri sparsemi og hagsýni en verið hefur síðustu tvö árin.