28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2414 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

409. mál, björgunarstarfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Fyrsta spurningin er: „Hve margar flugvélar og þyrlur og af hvaða gerðum og hvaða önnur tæki notar varnarliðið á Keflavíkurflugvelli við björgunarstörf?“

Svarið er: Í björgunarsveit varnarliðsins eru 3 flugvélar af Herkúlesgerð og 3 stórar þyrlur af HH-3E-gerð. Þessi flugvélakostur er svo aukinn með öðrum flugvélum frá varnarliðinu, þegar sérstaklega stendur á, t.d. þegar umfangsmikil leit á stóru svæði stendur yfir. Auk alls konar tækja og viðleguútbúnaðar svo sem klifurútbúnaðar, sem tíðkast hjá björgunarsveitum, má nefna talstöðvar-, snjóbelta-, vatna- og fjallabifreiðar.

Önnur spurning fjallar um mannaflann. Svarið við henni er: Varnarliðið hefur jafnan til taks 45 æfða þyrluflugmenn og 94 flugmenn fyrir Herkúlesvélarnar. 53 þessara manna eru eingöngu við störf hjá björgunarsveitinni á vöktum, en hinir eru til vara. Landgöngulið flotans (um 125 menn) er þjálfað til björgunarstarfa á landi og kallað út, þegar á þarf að halda, svo og læknar og hjúkrunarlið. Auk þessa má nefna þá menn, sem annast viðgerðir, eftirlit og þjónustu við flugvélar, bifreiðar og tækjakost.

Þriðja spurningin er um það, hve oft björgunarsveit varnarliðsins hafi verið beðin um aðstoð á árinu 1973 og hvernig þessi aðstoð flokkist eftir tegundum neyðartilfella? Í sambandi við þessa spurningu var leitað til Slysavarnafélags Íslands, og hefur borist þaðan skýrsla um þá aðstoð, sem varnarliðið hefur látið í té, frá því að þyrlurnar HH–3E komu hingað til lands seint á árinu 1971. Þar kemur fram m.a., að á árinu 1972 hefur Slysavarnafélagið leitað alls 23 sinnum til varnarliðsins um aðstoð, en skýrslan greinir aðeins frá þeim þáttum, er snerta samstarf félagsins við varnarliðið. Ég tel þó ekki ástæðu til að fara nánar út í þessa aðstoð, þar sem í fsp. er talað um aðstoð á árinu 1973, en þá eru aðstoðarbeiðnir Slysavarnarfélagsins alls 20 og eru eins og hér greinir:

22. jan. kl. rúmlega 6 um kvöldið óskaði S & R varnarliðsins þess, að SVFÍ skipulegði leit báta norður af Garðskaga, þar sem herþota nauðlenti á sjónum í aðflugi og væri flugmannsins saknað. SVFÍ varð við þeirri beiðni, og undir miðnætti fannst ýmislegt brak úr vélinni, er sannaði örlög vélar og flugmanns.

23. jan. leit haldið áfram á Faxaflóa af þyrlum varnarliðsins og bátum frá Akranesi. Kl. um 2 var SVFÍ tilkynnt um eldsumbrotin í Vestmannaeyjum. Var þá þegar haft samband við yfirmenn S & R og þess óskað, að frekari leit á Faxaflóasvæði yrði hætt, en þyrlur og þær flugvélar, er gætu lent í Vestmannaeyjum, yrðu þegar hafðar til reiðu vegna fólksflutninga frá Vestmannaeyjum. Var þegar orðið við þeirri beiðni, og þar með hófst hinn ómetanlegi þáttur varnarliðsins við hjálp og aðstoð í Vestmannaeyjum.

2. febr. Leitar- og björgunarflugvél af Herkúlesgerð tók þátt í leit að v/b Maríu KE 84, fjögurra manna áhöfn, er farist hafði í róðri kvöldið áður, án þess að nokkurt neyðarkall heyrðist frá bátnum. Þyrlur varnarliðsins voru hafðar til reiðu, er á þyrfti að halda.

11.–21. febr. Alla þessa daga stóð yfir ein umfangmesta leit í sögu SVFÍ og jafnframt erfiðasta, en 11. febr. fórst v/b Sjöstjarnan KE 8 á leið frá Færeyjum til Íslands, en tíu manna áhöfn komst í tvo gúmmíbjörgunarbáta. Leitar- og björgunarflugvélar af Herkúlesgerð fóru tíu leitarleiðangra, flugtími þeirra samtals 64.5 klst. og leitarsvæði 16500 fersjómílur.

27. febr. Um kvöldið óskaði SVFÍ eftir sjúkraflugi til Ólafsvíkur vegna veikrar konu er þurfti að koma í sjúkrahús. Þyrla varnarliðsins var þegar send áleiðis, en varð frá að hverfa vegna dimmviðris og snjókomu á utanverðu Snæfellsnesi.

1. mars. Þyrla varnarliðsins leitaði innanverðan Faxaflóa um Snæfellsnes að v/b Íslendingi HU 16, tveggja manna áhöfn, sem farið hafði frá Reykjavík daginn áður áleiðis til Hvammstanga og ekkert frekar af ferðum hans frést. Sömuleiðis leitaði Herkúlesflugvél á djúpslóðum.

11. mars. Sótti þyrla varnarliðsins alvarlega slasaðan íslenskan sjómann til Stykkishólms, en flugbrautin þar var ófær vegna aurbleytu. Herkúlesvél aðstoðaði við sjúkraflug þyrlunnar.

27. marz. Aðstoðuðu þyrlur frá varnarliðinu við leit að Beechtcraft flugvélinni TF VOR, er týnst hafði á leið frá Akureyri til Reykjavíkur með 5 mönnum. Þyrlan flutti lík mannanna til Reykjavíkur. Auk þess flutti þyrlan rannsóknarnefnd slyssins að flaki flugvélarinnar.

6. apríl. Sótti þyrla varnarliðsins fárveika konu að Staðarfelli í Dölum og flutti hana til Reykjavíkur, þar sem hún var lögð á sjúkrahús.

29. maí. Sótti þyrla varnarliðsins hermann til Akraness, er slasast hafði í umferðarslysi.

19. júní. Aðstoðaði þyrla varnarliðsins við að losa eins hreyfils flugvél úr sandbleytu á Skeiðarársandi, er hún lenti þar með tvo erlenda jarðfræðinga. Fylgdi þyrlan vélinni til Reykjavíkur

15. júlí. Þyrla frá varnarliðinu ásamt Herkúlesvél aðstoðuðu við leit að lítilli flugvél af gerðinni Moony 21 TF-REA, er týnst hafði á leiðinni frá Reykjavik til Þórshafnar með fjórum um borð.

18. júlí. Flutti þyrla varnarliðsins slasaðan mann, er fallið hafði af hestbaki og hálsbrotnað, frá bænum Hátúnum í Skriðdal til Egilsstaða, þar sem áætlunarflugvél beið mannsins og flutti á sjúkrahús í Reykjavík.

27. júlí. Sótti þyrla varnarliðsina fárveikan botnlangasjúkling um borð í m/s Goðafoss, er staddur var um 150 sjómílur suðvestur af Garðskaga á leið frá Bandaríkjunum til Íslands, og flutti hann á spítala í Reykjavík, þar sem hann var samstundis skorinn upp. leitar- og björgunarflugvél af Herkúlesgerð var send á vettvang til að staðsetja og fylgjast með ferðum skipsins og gegndi jafnframt hlutverki radíóvita eins og jafnan í slíkum ferðum til að auðvelda flug þyrlunnar, meðan á sjúkraflugi stóð.

3. ágúst. Sótti þyrla varnarliðsins fársjúkan pólskan sjómann af verksmiðjutogaranum Virgo, er var um 90 sjómílur suður af Reykjanesi, og flutti til Reykjavíkur, þar sem hann var lagður á sjúkrahús. Herkúlesvél aðstoðaði og fylgdist með þyrlunni, meðan á fluginu stóð.

8. ágúst. Sótti þyrla varnarliðsins fjóra menn (þar af þrjá slasaða) og flutti þá til Reykjavíkur. Eins hreyfils flugvél af gerðinni Cessna 177 TFBKA hafði hlekkst á í flugtaki á flugbrautinni að Skálmarnesi á Barðaströnd.

25. ágúst. Bjargaði þyrla varnarliðsins dönskum flugmanni af Cessna 310, vél, er nauðlenti á sjónum í aðflugi á Keflavíkurflugvöll. 13 mínútum eftir að flugvélin lenti á sjónum var flugmanninum bjargað af þyrlunni.

26.–27. ágúst. Leitaði þyrla frá varnarliðinu ásamt froskmönnum úr björgunarsveitinni að íslenskum kafara, er fenginn var til að staðsetja flak flugvélarinnar, er nauðlenti á sjónum daginn áður.

28. ágúst. Sótti þyrla varnarliðsins móður og nýfætt barn til Hafnar í Hornafirði og flutti þau til Reykjavíkur, þar sem bæði voru lögð á Fæðingardeildina. Móðirin hafði misst mikið blóð við fæðinguna, og íslenskur læknir frá Fæðingardeildinni ásamt sjúkraliða þyrlunnar önnuðust konuna allan tímann, meðan á fluginu stóð.

21. nóv. Nauðlenti Navy C-117 á Sólheimasandi. Áhöfn vélarinnar, 7 manns, var flutt með þyrlu varnarliðsins til Keflavíkurflugvallar. Björgunarsveit SVFÍ — Víkverji — Vík í Mýrdal veitti varnarliðsmönnum mikla aðstoð við að gæta flugvélarinnar, auk þess sem þeir höfðu 24 klst. hlustvörslu í talstöðvarbílum við flak flugvélarinnar.

Þetta var sú skýrsla, sem borist hefur frá Slysavarnafélagi Íslands um samvinnu við varnarliðið á árinu 1973 um björgunarstörf.

Eins og ég sagði áðan, voru þessar beiðnir Slysavarnarfélagsins 20 á s.l. ári, en alls voru aðstoðarbeiðnir opinberra aðila samtals 52 á árinu, mest út af eldgosinu í Vestmannaeyjum. Þessu má skipta þannig, að farin voru 25 sjúkraflug, 12 leitarflug, 4 björgunarflug, og 11 ferðir voru farnar vegna brottflutnings frá hættusvæði. Á tímabilinu frá 23. jan. 1973, þegar Vestmannaeyjagosið byrjaði, og til 15. mars sama ár, lagði varnarliðið fram um 50 þús. vinnustundir til aðstoðar, t.d. fóru yfir 1000 hermenn til hjálparstarfs á Heimaey. Flugvélar varnarliðsins fluttu um 850 tonn af húsgögnum, birgðum, tækjum, búsmala og matvælum. Þær fluttu og yfir 1500 flugfarþega til og frá Heimaey. Einnig má nefna, að varnarliðið annaðist flutning á nærri 600 gámum frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur á 5 dögum í upphafi gossins. Það lagði til slökkvibifreiðar og alls konar slökkvitæki, auk ýmiss konar útbúnaðar. Að lokum er rétt að minnast á það, að varnarliðið og Bandaríkjaher lögðu fram mikið starf við að safna saman dælum, vatnshönum og leiðslum í Bandaríkjunum fyrir kælikerfið, sem notað var gegn hraunstraumnum.

Fyrir utan þá aðstoð, sem nú hefur verið minnst á, má geta þess, að samkomulag er um það við varnarliðið að flytja nýrnasjúklinga til Kaupmannahafnar, hvenær sem á þarf að halda, en þegar skipta þarf um nýra í fólki, mega ekki líða margir klukkutímar frá því að gjafari deyr og þar til nýtt nýra af réttum flokki er komið á sinn stað í líkama sjúklingsins.

4. spurningin er um það, hvort ég telji nokkuð því til fyrirstöðu, að Íslendingar geti tekið þessa björgunarstarfsemi að sér. Ég tel ekki vafa á því, að Íslendingar geti haft þessi störf með höndum, ef þeir fá fulla þjálfun. Það er hins vegar alltaf matsatriði, hve öflug slík björgunarsveit þarf að vera, til þess að fullkomið öryggi sé fyrir hendi, og um það get ég ekki dæmt. Hins vegar er ljóst, að spurningin er fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis, og ef hafa ætti samskonar rekstur á Keflavíkurflugvelli og nú er þar í höndum varnarliðsins, er enginn vafi á því, að um mjög háar fjárhæðir væri að ræða.