28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

414. mál, ríkisjarðir

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Að undanförnu hafa farið fram allmiklar umr. um jarðeignir og mál, er þær snerta, þ. á m. hvaða eignarform sé æskilegast á jörðum. Svo sem kunnugt er, liggja nú fyrir Alþ. nokkur mál, er þetta snerta, þ. á m. eitt, sem er þáltill., er miðar að því, að landið allt, þar með allar jarðeignir bænda, skuli verða ríkiseign. Þetta hefur leitt hugi manna meira en ella að því, hvernig meðferð á jarðeignum ríkisins sé háttað og hvort þar sé að finna sönnun fyrir því, að þar sé um hið æskilegasta eignarform að ræða. Flestum þeim, sem hafa fyrir augunum í sínu heimahéraði mismun á leigujörðum og sjálfseignar,jörðum bænda, virðist þó samanburðurinn vera sjálfseignarjörðunum mjög í hag hvað búskaparhætti snertir, enda þótt enginn rannsókn í þessu efni hafi farið fram.

Meðal þess, sem fengur væri í að fá vitneskju um, er, hve margar af jarðeignum ríkisins séu byggðar til ábúðar, eins og lög gera ráð fyrir, og einnig væri forvitnilegt að vita, hvort sambærilegt hlutfall væri í byggingu ríkisjarða og jarða í eigu einstaklinga. Þetta efni eða þetta hlutfall, ætlast ég þó ekki til, að upplýst sé hér að þessu sinni.

Svo sem kunnugt er, kveða gildandi ábúðarlög á um, að hver sá, sem á jörð og rekur ekki á henni búskap sjálfur, skuli byggja hana hæfum umsækjanda að dómi úttektarmanna. Ýmsum jörðum ríkisins er auðvitað ráðstafað samkv. l. með þeim hætti, að samrýmist ekki venjulegum búrekstri. Um þetta allt er þó eðlilegt, að fyrir liggi glöggar upplýsingar, og ætla verður, að það sé talið eðlilegt, að meðferð á jarðeignum ríkisins sé með þeim hætti, að samrýmist sem best gildandi ábúðarlögum, ekki síður en á jarðeignum einstaklinga. Með hliðsjón af þessu m.a. hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. á þskj. 371, svo hljóðandi:

„1. Hvað voru ríkisjarðir margar við síðustu áramót?

2. Hve margar þeirra voru þá í lögformlegri ábúð?

3. Hvaða aðilar hafa haft afnot af öðrum jarðeignum ríkisins árið 1973 op með hvaða kjörum?“