31.10.1973
Neðri deild: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að bæta nokkrum orðum við umr. um þetta mál, vegna þess að það gengur gersamlega fram af mér að hlusta á það íhaldsrugl, sem síðustu ræðumenn Sjálfstfl. hafa látið út úr sér um Framkvæmdastofnunina. Ég vil byrja á því að benda á, að þeir sjálfstæðismenn, sem eiga sæti í stjórn hennar og þekkja til hennar, hafa vit á því að vera ekki í salnum í dag og tala ekki.

En það eru þessir úrvals íhaldsmenn, sem ekki hafa komið nálægt stjórn stofnunarinnar og sjálfsagt þekkja lítið til hennar, sem vitrastir eru og gefa heilræðin. Og heilræðið í dag er, að það eigi að afnema þessa stofnun, og þá er sjálfsagt að setja upp nýtt „apparat“ fyrir Byggðasjóð, sem var til áður, setja upp nýtt „apparat“ fyrir Framkvæmdasjóð, sem var til áður, og það verður sjálfsagt að setja upp nýtt „apparat“ fyrir áætlunardeild, því að áætlun er ekki partur af því hlutverki, sem sú stofnun á að hafa, er nú verður skilin frá Framkvæmdastofnuninni.

Það kann að standa í grg. þess frv., sem hér er til umr., að reynslan hafi sýnt, að það sé skynsamlegra að skilja þá deild frá, sem frv. greinir um. Ég er í sjálfu sér, eins og fram hefur komið frá mínum flokki, samþykkur frv. og tel það út af fyrir sig ekki óeðlilegt, að þessi deild starfi sjálfstætt. En ég hef ekki orðið var við neina reynslu í Framkvæmdastofnuninni hvað þetta snertir. Ég hef ekki orðið var við það, þó að ég hafi átt sæti í stjórn þar, að það hafi orðið þessari deild að nokkru leyti til erfiðleika eða hamlað störfum hennar, að hún var hluti af Framkvæmdastofnuninni. Eina reynslan, sem hefur fengist, er sú, að það hefur komið í ljós, að þessi deild starfar sjálfstætt og í beinu sambandi við ríkisstj., eins og ákveðið var af Alþ., að hún skyldi gera, m.a. fyrir frumkvæði og baráttu fulltrúa Alþfl. í n. og till. þeirra, sem hæstv. ríkisstj. tók til greina á sínum tíma. Það er engin reynsla um neitt annað.

Ég skil ekki, hversu fávísir menn geta verið að standa hér upp og spyrja: Hvað er eftir af Framkvæmdastofnuninni, þegar þessi deild er frá skilin? Hvað er eftir? (LárJ: Hvað er eftir?) Ja, hvað er eftir? Hefur ekki hv. þm., sem grípur fram í, sjálfur verið að reyna að gera sig að talsmanni dreifbýlisins á Íslandi? Hefur hann aldrei heyrt Byggðasjóð nefndan? Byggðasjóður einn er nægileg réttlæting fyrir því, að það, sem eftir er starfi áfram …. (Gripið fram í.) Ég hygg, að ef kjósendur í kjördæmi hv. þm., sem er svona viss í sinni sök, fengju að segja eitthvað um þá aðstoð, sem þeir hafa fengið frá Framkvæmdastofnun ríkisins á öllu Norðurlandi, þá mundi eitthvað annað koma upp úr þeim, en fullyrðingar eins og hv. þm. var með. Ég skora á hv. þm. að koma fram á fundum á Norðurlandi og láta í ljós fullyrðingar eins og þær, sem hann hefur hér látið út úr sér.

Tilgangurinn með Framkvæmdastofnuninni og meginástæðan fyrir því, að Alþfl. studdi hana, var að efla og auka áætlanagerð í landinu. Ég hef áður, þegar Framkvæmdastofnunina hefur borið hér á góma, látið í ljós gagnrýni á því, að þessu áætlunarhlutverki hafi e. t. v. ekki verið gegnt eins vel og upphafleg ætlun var. Ef það á að gagnrýna Framkvæmdastofnunina, sem sjálfsagt má eins og allar aðrar stofnanir, er það fyrst og fremst fyrir það, að hún skuli ekki hafa lagt miklu meiri áherslu á áætlunarhlutverkið en hún hefur gert. Það er alveg rétt, sem komið hefur fram í skjölum, er hér hafa verið lesin, að sumir aðilar í ríkisstj. hafa algerlega gengið fram hjá áætlunargerð stofnunarinnar og satt að segja þeir aðilar, sem ætla mætti, eftir því sem pólitísk skoðun þeirra og almennar stefnuskrár flokka þeirra herma, að hefðu mestan áhuga á raunhæfri áætlanagerð. Togaraáætlunin var að sjálfsögðu hlægileg, en hún var gerð, þegar togarakaupin voru að mestu leyti um garð gengin, en þau hófust mörgum missirum áður en Framkvæmdastofnunin var sett á fót. Það hafa gert vart við sig margir vaxtarverkir í stofnuninni, sem eru skyldir þessum. Við höfum ekki náð valdi á raunhæfri áætlanagerð enn þá, það er alveg rétt. En Efnahagsstofnunin, sem áður var til og var eitt af einkafyrirtækjunum undir stjórn „apparatsins“ í Seðlabankanum og fjmrn. o. s. frv. og Alþ. hafði ekkert með að gera, var þar ekki til neinnar fyrirmyndar. Síðustu hugmyndir, sem þaðan komu um áætlanagerð, voru, að það ætti að dreifa henni, allt að því afnema hana, nema bara hvað hverju ráðuneyti þóknaðist að gera út af fyrir sig.

Ég held, að vangaveltur um kostnað í sambandi við þessa stofnun geti flokkast sem almennar vangaveltur um opinberan fjárhag á þessu tímabili. Eins og hv. 1. þm. Sunnl. benti á, hafa fjárlög hækkað allmikið, og þessi stofnun sver sig í ætt við þá þróun, sem hefur verið í opinberum fjármálum. Ég skal ekki réttlæta þá þróun á nokkurn hátt og hef gagnrýnt hana á öðrum vettvangi. En það er til umhugsunar fyrir þá, sem harðastri gagnrýni hreyfa á Framkvæmdastofnunina, sjálfstæðismenn, að tveir af flokksbræðrum þeirra hér á Alþ. eiga sæti í stjórn þessarar stofnunar, ágætir menn, glöggir, annar þeirra fyrrv. fjmrh., hvorki meira né minna, sem gegndi því starfi með miklum ágætum á sínum tíma. Þeir hafa setið í stjórn þessarar stofnunar, síðan hún tók til starfa. Og ég hef aldrei heyrt úr þeirra munni neina einustu till. um sparnað í rekstri eða annað slíkt. Þeir hafa ekki haft neinum ráðum að miðla í þeim efnum, sem hefðu getað gert þróun fjárhags stofnunarinnar aðra en hin almenna þróun í fjármálum ríkisins hefur verið.

Ég tel þess vegna, svo að ég endurtaki kjarnann í því, sem ég vildi segja, að það, sem eftir er af Framkvæmdastofnuninni, er dreifbýlis- og áætlunarhlutverkið: Byggðasjóður, Framkvæmdasjóður og áætlanadeild, sem enn hefur ekki náð fullu valdi á þeirri áætlunargerð, sem við þurfum, en hefur þó tekið miklum framförum. Ég hef ekki orðið var við, að það hafi orðið mikil fjölgun á starfsliði. Að vísu hefur stofnunin komið sér fyrir í nýju húsnæði, en hún var áður dreifð á þremur stöðum: í Landsbankanum, Seðlabankanum og skrifstofuhúsnæði við Laugaveg. Ég held, að það hafi verið teppi á öllum þeim gólfum og ágæt húsgögn og allt það pláss, sem losnaði, þegar stofnunin fór þaðan, hafi fyllst þegjandi og hljóðalaust af öðrum opinberum stofnunum, svo að það er ekki um það að sakast. Ekki yrði mér það sárt, þó að kostnaði yrði haldið niðri, en ég vil ekki sitja undir því, að slíkur andróður sé hafður uppi gegn þessari stofnun, síst af öllu af hálfu sjálfstæðismanna, því að eftir hálfs annars áratugs stjórnarsamstarfs við þá veit ég af reynslunni, að þeir eru ekki tregari heldur en aðrir menn í þessu landi til að setja upp opinberar stofnanir, nefndir, skrifstofur með teppum, húsnæði, málverkum, gardínum, skrifborðum og öllu, sem til þarf. Ríkisbáknið hefur ekki í annan tíma blómgast meira en þegar þeir sátu sjálfir í stjórn. Þess vegna þykir mér nóg um, þegar þeir býsnast svo mjög yfir þessari einu stofnun, sem sett var upp til þess að vinna verk, sem þrjú skrifstofu-„apparöt“ unnu, meðan sjálfstæðismenn réðu þessu landi.