28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2423 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

217. mál, regnbogasilungseldi Skúla Pálssonar

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 3. þm. Reykn. á þskj. 379 er svar mitt eingöngu byggt á áliti fisksjúkdómanefndar, sem fékk það mál til meðferðar, og er það álit hennar, sem ég les hér, með leyfi hæstv. forseta.

Fyrsta spurningin: „Hvernig hefur heilbrigðiseftirliti með eldisfiski í eldisstöðinni í Laxalóni verið hagað frá stofnun hennar til þessa dags? Hafa smitnæmir sjúkdómar fundist í stöðinni “ Svar við þessari spurningu er þannig:

Eins og kunnugt er, voru regnbogasilungshrogn flutt frá Danmörku á árinu 1951 að eldisstöðinni að Laxalóni við Grafarlæk. Af hálfu landbrn. voru þá sett ýmis skilyrði fyrir þessum innflutningi í varúðarskyni, svo sem varðandi heilbrigðisvottorð, sótthreinsun hrognanna og einangrun þeirra. Talið er að skilyrði þessi hafi ekki verið haldin að fullu af innflytjanda. Hrogn þau, sem hér um ræðir, komu frá dönskum fiskræktarmanni. Við þann bæ er veiki kennd, og það er banvænn veirusjúkdómur í regnbogasilungi, sem valdið hefur dönskum fiskræktarmönnum þyngri búsifjum en allir aðrir fisksjúkdómar undanfarna tvo áratugi og hefur kostað danska ríkið óhemju fjárútlát. Er nú reynt að útrýma sjúkdómnum með niðurskurði og fiskskiptum í þeim eldísstöðvum, þar sem hann gerir mest tjón.

Fyrstu árin, eftir að regnbogasilungshrognin komu til landsins, var stofninum haldið einangruðum. Síðan var sú kvöð lögð á eiganda regnbogasilungsins, að lifandi fisk mætti ekki flytja frá Laxalóni nema með leyfi landbrn. Hins vegar hafa aldrei verið lagðar neinar hömlur af hálfu hins opinbera á ræktun og eldi regnbogasilungsins innan stöðvarinnar til slátrunar og sölu, en það var að sögn eiganda tilgangur hans með innflutningi og eldi regnbogasilungs.

Til frekara öryggis voru að frumkvæði landbrn. gerðar sýklarannsóknir á regnbogasilungnum í eldisstöðinni árin 1955–1956. Einnig voru rannsakaðir fiskar úr Grafarlæk, en í hann fellur frárennsli eldisstöðvarinnar í Laxalóni, og þar hefur regnbogasilungur verið að staðaldri um margra ára skeið. Fiskar þessir voru rannsakaðir af Tilraunastöðinni á Keldum og sérstök leit gerð að sýklum þeim, sem valda kýlapest í laxfiskum. Ekki fundust sýklar þessir við rannsóknir. Miðað við úrtök þau, sem rannsökuð voru, var talið, að litlar líkur væru á því, að þessi sjúkdómur leyndist í stofninum, þótt ekki væri með öllu útilokað.

Eftir því sem þekking manna á veirusjúkdómum óx síðustu áratugi, komu í ljós veirusjúkdómar í fiski víða um lönd, þar sem vatnafiskur er alinn, ekki síst í Danmörku, þaðan sem regnbogasilungurinn var kominn og áður er að vikið. Var því af stjórnvöldum talið varlegast að leyfa ekki flutning á lifandi regnbogasilungi eða hrognum til annarra staða innanlands.

Í l. um lax- og silungsveiði, sem tók gildi 25. júní 1970, var gert ráð fyrir, að sjúkdómum vatnafiska sé sinnt sérstaklega. Í l. þessum er gert ráð fyrir, að n. sérfróðra manna, fisksjúkdómanefnd, starfi stjórnvöldum til ráðuneytis. Frá því snemma á árinu 1971 hefur héraðsdýralæknirinn í Reykjavík að frumkvæði fisksjúk- dómanefndar haft eftirlit með eldisstöðinni að Laxalóni sem og öðrum eldisstöðvum í umdæmi hans, sbr. reglugerð, er síðar var sett um þetta efni, nr. 70 1972. Eftirlit þetta felst í því, að dýralæknirinn kemur óvænt í heimsókn í stöðvarnar, skoðar fiskseiði og hrogn, sem þar eru í eldi, með tilliti til sjúkdómseinkenna. Ef ástæða er talin, tekur hann sýni til krufningar eða frekari rannsóknar.

Þar sem aðstaða til rannsóknar á veirusjúkdómum í fiski hefur ekki verið fyrir hendi hér á landi, hafði landbrn. forgöngu um það, að fenginn var danskur fisksjúkdómasérfræðingur til þess að rannsaka sýni úr eldisstöðum hér á landi með tilliti til þess, hvort veirusjúkdómar kynnu að leynast þar. Þær rannsóknir hófust haustið 1973 og gert ráð fyrir eðli málsins skv., að þær standi yfir í eitt ár hið skemmsta. Rannsóknir á einu úrtaki frá eldisstöðinni í Laxalóni hafa þegar verið gerðar, og fundust ekki veirur í sýnunum. Blóðsýni, sem tekin voru á liðnu hausti úr stálpuðum regnbogasilungi frá Laxalóni, reyndust innihalda mótefni gegn svonefndri IPN-veiru, en óvíst, hvernig beri að túlka þær niðurstöður. Þá munu IPN-veirur hafa fundist í sumum þeim fiskum, sem aldir voru upp í Danmörku af regnbogasilungshrognum frá Laxalóni. En á því gæti verið sú skýring, að þessi silungur hafi sýkst í Danmörku, þar sem slíkar veirur eru landlægar.

Af þeim ástæðum, sem hér eru raktar, og þeirri bitru og dýrkeyptu reynslu, sem Danir og aðrir hafa orðið fyrir af völdum fisksjúkdóma, hefur verið talið rétt að ljúka þeim veirurannsóknum, sem nú eru í gangi, áður en breytt verður frá þeirri stefnu, sem mörkuð hefur verið varðandi bann við flutningi á lifandi regnbogasilungi og regnbogasilungshrognum frá Laxalóni til annarra staða hér innanlands.

Til þess að fyrirbyggja misskilning, sem nokkuð hefur gætt, skal tekið fram, að engar hömlur hafa verið lagðar á útflutning laxfiska eða hrogna úr laxfiskum, en hins vegar hafa ýmis lönd lagt hömlur á slíkan innflutning hin síðari ár, og veita þau aðeins innflutningsleyfi frá Íslandi gegn vissum skilyrðum hverju sinni.

Önnur spurning: Hafa komið upp sjúkdómar í nálægum eldisstöðum eða ám, sem rekja mætti til eldisstöðvarinnar í Laxalóni?“

Svar: Sem betur fer er ekki vitað til þess, að staðfestir hafi verið sjúkdómar í vatnafiski, sem rekja má til eldisstöðvarinnar í Laxalóni, enda vill svo heppilega til, að vatn það, sem rennur í gegnum eldisstöðina í Laxalóni, fellur í litinn læk, Grafarlæk, beint til sjávar skamman veg. Fiskeldisstöð sú við Grafarlæk, sem hv. fyrirspyrjandi fékk á sínum tíma heimild til að reisa ásamt öðrum á landi ríkisins, fær vatn beint úr tærum uppsprettulindum í landareign ríkissjóðs, en notar ekki vatn úr Grafarlæknum, svo að vitað sé.

Þriðja spurning: „Sé svo ekki eftir meira en 20 ára veru regnbogasilungsstofnsins í landinu, er þá eðlilegt að neita um flutning stöðvarinnar á annan og heppilegri stað?“

Svar: Eins og þegar hefur komið fram, stendur nú yfir rannsókn á því, hvort leynast kunni veirusjúkdómar í eldísstöðvum hérlendis, m.a. í Laxalóni. Eftir reynslu síðari ára geta smitberar leynst í eldisfiski árum saman, þar sem skilyrði eru hagstæð, án þess að nokkurn gruni. Áætlað er, að rannsókn þessi standi eitt ár hið skemmsta og verði sýni tekin á mismunandi árstímum.

Óþarft ætti að vera að minna hv. alþm. á þá hörmulegu og dýrkeyptu reynslu, sem Íslendingar hafa orðið fyrir af völdum smitsjúkdóma búfjár, þrátt fyrir mikla varfærni í þeim málum, oft og tíðum. Á ég þar við hina alþekktu sauðfjársjúkdóma, mæðiveiki, garnaveiki, riðuveiki, kýlapest o.s.frv., sem hingað hafa borist með innflutningi. Þess eru mörg dæmi, að smitsjúkdómar í fiskum hafi borist landa á milli með hrognum og seiðum og oft valdið stórfelldu tjóni. Afleiðing þess er m.a. hinar ströngu hömlur á innflutningi vatnafisks og hrogna, sem ýmsar þjóðir, t.d. Bandaríkjamenn og Danir, hafa sett hin síðari ár og bitnað hafa á okkur Íslendingum. Þeim mun minni sem þekking manna er á fisksjúkdómum, miðað við sjúkdóma annarra dýrategunda, þeim mun meiri ástæða er til að sýna ítrustu varfærni í þessum málum.

Við flutning regnbogasilungsstofns á nýjan stað austanfjalls ber að hafa í huga, að hér er um að ræða nýja tegund í lífríki landsins, sem gæti dreifst um stærsta vatnasvæði landsins, hvernig sem um hnútana væri búið. Hvaða afleiðingar það gæti haft, kann víst enginn full svör við. Í þessu máli mun landbrn. sem hingað til því fara með fyllstu gát.

Hér hef ég lokið við lestur á bréfi því, sem er svar fisksjúkdómanefndar við fsp. þessari.