28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2427 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

217. mál, regnbogasilungseldi Skúla Pálssonar

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil nú þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli.

Ýmsir, sem hafa fylgst með laxaræktarmálunum, hafa fylgst með þeim vanda, sem laxaræktarbóndinn Skúli Pálsson hefur átt við að etja undanfarin ár. Og þegar þær upplýsingar liggja fyrir, sem hæstv. ráðh. hefur lesið hér upp, er málið enn furðulegra.

Ég hef raunar ekki miklu við að bæta orð fyrirspyrjanda. Hann talar af mikilli reynslu í þessu efni sem vísindamaður og læknir og ber skynbragð á öðrum okkar fremur, hvernig á að standa að rannsóknum og athugunum. Ég vil aðeins undirstrika það, sem kom ekki fram í ræðu hans, að Skúli gerir ekki aðeins að ala upp regnbogasilung, hann hefur alið upp lax og haft laxaklak og selur seiði út um allt land. Ef í stöðinni væri sjúkdómur eftir aldarfjórðung og hann væri útbreiddur í stöðinni í dag, væri búið að dreifa honum um allt land, það er gersamlega útilokað annað. Þetta blandast allt saman.

Ég hef hér afrit af bréfum til rn. og til yfirdýralæknis, þar sem Skúli margbiður um það fyrir mörgum árum, að stöðin sé alvarlega rannsökuð og allt sé gert, sem í mannlegu valdi stendur, til þess að komast að raun um, ef einhver hætta væri hér á ferðinni. Hann er bara ekki virtur svars. Það er staðreynd. Loksins í fyrra er ráðinn hingað danskur sérfræðingur til að hefjast handa við að rannsaka þetta gaumgæfilega, og það er mjög jákvætt út af fyrir sig. Og það er mjög gleðilegt, ef þessari rannsókn lýkur á þessu ári og við fáum niðurstöðu. Það er bókstaflega lífsnauðsynlegt. Meðan þetta stendur svona, er það til tjóns fyrir fiskræktarmálin í landinu og alveg útilokað að halda því áfram.

Það er raunar undravert, að maður skuli hafa barist við yfirvöldin nærri aldarfjórðung og ekki fengið jákvæðar undirtektir né eðlileg viðbrögð. Hann er bókstaflega hunsaður. Það er alveg sérstakt. Menn eru að tala um Solzhenitsyn hér á Íslandi í dag. En mætti ekki tala um svona vinnubrögð? Það er alveg furðulegt, að þetta skuli geta átt sér stað, að maður skuli berjast svona við að reyna að fá nýja atvinnugrein inn í landið og fær til þess tilskilin leyfi og allt og svo er hann settur í einangrun og það á að berja þetta niður og gera ómögulegt. Ég vil bara undirstrika það og bera þá ósk fram til hæstv. landbrh., að málinu verði hraðað og það fái sómasamlega niðurstöðu.