28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2431 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

230. mál, sjóefnaverksmiðja á Reykjanesi

Óskað er skriflegs svars við þessum spurningum:

1. Hvað líður rannsóknum vegna byggingar og rekstrar sjóefnaverksmiðju á Reykjanesi?

2. Hvenær er þess að vænta, að fullnaðarniðurstöður liggi fyrir, þannig að unnt sé að taka ákvörðun um það, hvort og með hvaða hætti verksmiðjan yrði byggð?

Svar iðnaðarráðherra:

Rannsóknaráð ríkisins skilaði skýrslu sinni um 250 000 tonna saltverksmiðju á Reykjanesi haustið 1972. Meginniðurstöður voru þær, að bygging og rekstur slíkrar verksmiðju væri tæknilega gerleg og fjárhagslega hagkvæm. Vísaði rannsóknaráð málinu síðan til ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin ákvað að leita nákvæmra umsagna um málið og fól Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen að framkvæma athugun á tæknilegum hliðum málsins og Hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins að kanna viðskiptalega og hagræna þætti. Voru þessar athuganir, sem urðu allumfangsmiklar, unnar á s.l. ári, og barst endanleg umsögn Hagrannsóknadeildar um s.l. mánaðamót.

Hin tæknilega athugun málsins, sem Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen vann í samvinnu við bandaríska ráðgjafafyrirtækið DSS-Engineering, leiddi í ljós, að allar meginforsendur og tæknilegt fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í skýrslu rannsóknaráðs hafa staðist og eru í samræmi við niðurstöður tæknilegra rannsókna á hliðstæðum verkefnum annars staðar. Síðan eru gerðar tillögur um uppbyggingu verksmiðjunnar í þrepum á sjö ára tímabili og um nauðsynlegar vinnslutilraunir á undirbúnings- og hönnunartímanum.

Niðurstöður af athugun Hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar eru þær, að þrátt fyrir miklar verðhækkanir á ýmsum sviðum, frá því að skýrsla rannsóknaráðs var gerð, hefur hagkvæmni fyrirtækisins heldur styrkst. Áætlaður stofnkostnaður verksmiðju hefur hækkað úr 12.24 milljónum US$ upp í 14.36 milljónir US$ miðað við verðlag í október s.l. Árlegur rekstrarkostnaður hefur hækkað úr 1.72 millj. US$ samkvæmt áætlun Rannsóknaráðs ríkisins upp í 2.32 millj. US$ samkvæmt áætlun Hagrannsóknadeildar, og er það aðallega vegna hækkana launaliða á þessu tímabili. Afurðaverð hefur hins vegar einnig hækkað hlutfallslega mikið, og niðurstaðan er sú, að reiknað er með, að fyrirtækið skili 20% árlegri ávöxtun stofnfjár fyrir skatta miðað við það, að fyrirtækið standi ekki undir stofnkostnaði af vegagerð og mannvirkjagerð við útflutningshöfn. Þessi ávöxtun verður að teljast allgóð, og eru allar horfur á því, að samkeppnisstaðan batni fremur en hitt, því að þau erlendu fyrirtæki, sem framleiða sömu afurðir og saltverksmiðja með eimingu, hljóta að verða mun meira fyrir áhrifum hækkandi orkuverðs en hérlent fyrirtæki, sem byggir á nýtingu jarðvarma.

Að mínu mati virðist því ekkert því til fyrirstöðu, að hafist verði handa um undirbúning, sem miðar að framkvæmdum, og hefur iðnaðarráðuneytið byrjað athugun á því, með hvaða hætti staðið yrði að málinu, og mun málið verða tekið upp í ríkisstjórninni fljótlega.